Þingfararkaup og þingfararkostnaður

Fimmtudaginn 02. nóvember 1995, kl. 17:36:50 (678)

1995-11-02 17:36:50# 120. lþ. 25.5 fundur 84. mál: #A þingfararkaup og þingfararkostnaður# (skattskylda starfskostnaðar) frv., GHelg (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur


[17:36]

Guðrún Helgadóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Þessi umræða er öll hin spaugilegasta og öllum eru ljósar skoðanir mínar á þessu eymdarlega máli. En nú liggja fyrir hinar ýmsu tillögur og mér heyrist menn tala um að hægt sé að velja um tvo kosti: Að fá þessar margumræddu 40 þús. kr. eða endurgreiðslu samkvæmt reikningum. Þess vegna er spurning mín, hæstv. forseti: Hver ætlar að meta það hvað sé starfskostnaður þingmanns? Ætlar hæstv. forseti að lesa þá reikninga og stimpla þá eða hvaða kontóristar úti í bæ ætla að gera það?

Það kemur mér dálítið á óvart að heyra í konum á hinu háa Alþingi. Það er nú einu sinni þannig að konur eru stundum í dálítið öðruvísi stöðu en hv. þm. af karlkyni. Ég minnist þess þegar ég hóf þingstörf og þurfti að fara erlendis t.d. á vegum þingsins að þá þurfti ég að kaupa heimilisaðstoð til að gæta barna minna. Ég spyr hæstv. forseta: Er það starfskostnaður vegna þingstarfa? Konur þurfa að gera ýmislegt, sem karlmenn þurfa ekki sakir náttúrulegrar fegurðar sinnar, eins og að hlaupa í hárgreiðslu ef þær þurfa einhvers staðar að koma fram fyrir hönd þingsins. Er það starfskostnaður? Hv. þm., sem þurfa að hitta sveitarstjórnarmenn úr kjördæmum sínum, dettur kannski í hug að fara með þá í mat einhvers staðar og kunna ekki við að láta þá borga fyrir sig. Er það starfskostnaður? Hvers konar endemi eru þetta? Hverjir eiga að ákveða hvað sé starfskostnaður þingmanns? Hann getur verið svo margbreytilegur að ég held að menn endi í verri vandræðum með þessum aðferðum.

En mér þætti gott að heyra hæstv. forseta svara mér: Hver ætlar að ákveða hvort þjóðkjörnir alþingismenn eru að svindla sér út fé eða ekki?

(Forseti (ÓE): Hv. þm. beinir ekki spurningum til forseta í andsvari við ræðu annars þingmanns.)

Það er hárrétt.

(Forseti (ÓE): Lítur þingmaðurinn svo á að það hafi verið andsvar við ræðunni? Nei.)