Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 02. nóvember 1995, kl. 17:48:54 (684)

1995-11-02 17:48:54# 120. lþ. 25.6 fundur 126. mál: #A sveitarstjórnarlög# (atkvæðagreiðsla um sameiningu sveitarfélaga) frv., KHG
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur


[17:48]

Kristinn H. Gunnarsson:

Virðulegi forseti. Það er rétt að árétta aðeins tilganginn með frv. Hann er sá að koma í veg fyrir að menn þurfi að leita álits íbúa við tilteknar aðstæður. Hann er með öðrum orðum sá að víkja frá meginreglu laganna sem er þannig í dag að sameining sveitarfélaga geti því aðeins átt sér stað að hún hafi verið samþykkt af því fólki sem býr í sveitarfélögunum sem sameina skal. Þannig eru lögin og voru samþykkt þannig á síðasta kjörtímabili. Það var stefnubreyting á Alþingi þegar sú breyting á lögunum var samþykkt fyrir tæpum tveimur árum því áður hafði gilt allt önnur regla sem var sú að sameining var sjálfkrafa samþykkt frá upphafi nema það tækist að hnekkja henni. Með öðrum orðum skipti ekki máli hversu margir greiddu atkvæði með tillögu sem fram kom með lögmætum hætti. Tillagan hlaut alltaf að vera samþykkt nema það tækist að fylkja saman nógu mörgum andstæðingum við tillöguna. Þetta þótti Alþingi á sínum tíma ólýðræðisleg lagasetning og breytti henni í þá veru sem er í dag og er þá þannig að sameining á sér því aðeins stað að hún sé samþykkt í sveitarfélögunum sem á að sameina og samþykki er skilgreint þannig að það verði fleiri að greiða atkvæði með en greiða atkvæði á móti.

Ég vil láta koma fram afstöðu mína í málinu að ég hef ekki skipt um skoðun frá því sem var fyrir tveimur árum. Ég tel að menn eigi að láta hlutina ganga fram með þeim hætti sem er búið um í lögunum í dag. Ég tel það slæma þróun ef menn telja nauðsynlegt að setja lög sem hafa þann tilgang einan að komast hjá því að spyrja íbúana að því hvort tiltekin sameining eigi að eiga sér stað. Það er nákvæmlega það sem þetta frv. fjallar um. Þegar menn skoða efnisatriði þess þá er frv. þannig að það á að veita sveitarstjórnum heimild til að ganga frá sameiningu sem hefur ekki verið kosið um. Ef við skoðum efnisatriði frv. og reynum að gera okkur grein fyrir því hversu margir möguleikar eru á sameiningu samkvæmt ákvæðum frv. í þessu tiltekna tilviki er um að ræða sex sveitarfélög. Það er nægjanlegt að fjögur samþykki tillöguna. Eitt af þeim verður ávallt að vera Ísafjörður.

Ég er ekki búinn að gera tæmandi lista yfir möguleikana sem geta orðið af fjórum eða fimm sveitarfélagasameiningum en það er eitthvað á annan tug. Menn eru því ekki lengur að greiða atkvæði um eina tillögu heldur um eina tillögu með mörgum mismunandi möguleikum á sameiningu að henni felldri. Er það skynsamlegt að efna til atkvæðagreiðslu, vísa málinu í dóm íbúa en segja í leiðinni: Við ætlum ekkert að taka mark á þessu nema að tilteknu leyti? Ég tel það ekki skynsamlegt. Ég tel að menn eigi að hafa það sem meginreglu að byggja sameiningu á samþykkt um tillöguna. Að öðrum kosti eigi menn að láta málið ganga aftur til íbúa hafi tillaga ekki náð fram að ganga. Þannig á þetta að vera að mínu viti. Þannig er þetta í lögunum núna. Það má kannski segja að það sé allt í lagi einu sinni að víkja frá ef það eru einhverjar sérstakar aðstæður í því tilviki o.s.frv. og við skulum þá bara samþykkja ákvæði til bráðabirgða sem gildi um það ákveðna tilvik. Gott og vel. En hvað kemur upp þegar við víkjum frá meginreglunni einu sinni? Þá kemur krafan um að gera það aftur með þeim rökum að menn hafi einu sinni gert það. Einmitt þetta sjónarmið að hafa þetta sem varanlega opna heimild kom þegar fram í andsvari við framsöguræðu. Frávikið leiðir af sér að menn breyta reglunni og menn breyta þá reglunni í þá veru að fara frá lýðræðislegu fyrirkomulagi yfir í fulltrúafyrirkomulag sem menn þekkja mjög vel, sérstaklega þeir sem starfa í samvinnufélögum sem eru tiltölulega lýðræðislegt fyrirkomulag svona að nafninu til þar sem einhver fundur eða félag kýs fulltrúa. Síðan koma þeir fulltrúar saman og kjósa aðra fulltrúa o.s.frv.

Þetta afleidda fulltrúalýðræði er nokkuð vel þekkt og sumir eru mjög hrifnir af því en ekki þar með sagt að það sé mjög skynsamlegt fyrirkomulag í þessu tilviki. Ég er ekki á þeirri skoðun að menn séu að stíga skref í áttina til góðs í þessum efnum. Ég bendi á að menn hafa reynslu í þessu efni. Á sínum tíma var sett ákvæði til bráðabirgða sem reyndar er enn í lögunum sem heimilaði mönnum að láta ganga fram sameiningu sveitarfélaga jafnvel þó ekki hefðu allir samþykkt þá tillögu sem kosið var um. Það var árið 1993 eins og mönnum er í fresku minni.

Ég skal nefna reynslu af einu dæmi sem var látið ganga fram þrátt fyrir að tillagan hafði verið felld en sameiningin var látin gerast á grundvelli svokallaðra 2/3 hluta reglu. Það var Vesturbyggð í Vestur-Barðastrandarsýslu. Þar var kosið um að sameina fimm sveitarfélög, það var samþykkt í fjórum en fellt í einu og þar með var tillagan fallin en sameiningin var látin ganga fram í þessum fjórum á grundvelli þessa bráðabirgðaákvæðis. Í þessu tilviki gerðist það að í einu sveitarfélaginu sem var þannig sameinað hinum þremur óskaði meiri hluti íbúa á kjörskrá eftir því við sína sveitarstjórn að ekki yrði gengið til sameiningar heldur kosið aftur með þeim rökum að þeir hefðu samþykkt sameiningu fimm sveitarfélaga en aldrei fjögurra. Ef það ætti fram að ganga yrði að fara fram ný kosning. Þetta var í Rauðasandshreppi. Hins vegar ákvað sveitarstjórnin að verða ekki við tilmælum meiri hluta kjósendanna í sínum hreppi, hafnaði þessu og samþykkti sameininguna og hafði fullt vald til þess. Þar höfum við strax dæmi um misnotkun að mínu mati á heimild sem menn höfðu í lögunum. Ég get ekki kallað það annað en misnotkun þegar menn ganga sannanlega gegn vilja meiri hluta íbúanna.

Annað dæmi úr þessu sama sveitarfélagi, sem sýnir að undirbúningi var áfátt svo ekki sé meira sagt, þegar úr öðru sveitarfélagi af þessum fjórum, þ.e. Bíldudalshreppi, fengu þingmenn og fleiri, m.a. þáv. félmrh., áskorun frá íbúum, dagsett í febrúar á þessu ári, þar sem óskað var eftir því að sameiningunni yrði slitið, m.a. með þeim rökum að sameiningin hafi ekki verið samþykkt, vilji þeirra hafi verið til þess að samþykkja sameiningu fimm sveitarfélaga en ekki fjögurra eins og greint er frá í röksemdum þeirra sem skrifa undir. Það var líka að ég held ég megi segja meiri hluti atkvæðisbærra íbúa í því sveitarfélagi, eða 117, sem skrifaði undir áskorunina. Þar höfum við tvö dæmi sem sýna okkur að íbúarnir a.m.k. í þeim fyrrv. sveitarfélögum eru ekki sammála þeirri ákvörðun sem sveitarstjórnin tók á grundvelli sams konar bráðabirgðarákvæðis og hér er lagt til að verði heimilað. Reynslan er því ekki góð. Hún á ekki að stuðla að því að menn breyti þessari reglu sem einu sinni var yfir í að taka hana upp á nýjan leik og taki þar með skref til að gera hana að viðvarandi reglu sem hlýtur að vera krafa eins og er reyndar þegar komið fram í umræðum.

Í mínum huga liggur málið þannig að mér finnst ekki traustvekjandi af hálfu þeirra sem leggja til að sex sveitarfélög sameinist að þeir skuli jafnhliða óska eftir því að lögum verði breytt af því að þeir búist við að tillagan verði felld. Mér finnst að þeir ættu þá að leggja fram tillögu sem þeir trúa sjálfir að verði samþykkt. Mér finnst satt að segja það ekki vera réttur gangur í málinu að leggja fram tillögu sem sjálfir flutningsmenn hafa ekki trú á að verði samþykkt og biðja því um lagabreytingu til þess að geta komist frá málinu án annarrar kosningar. Ég minni á það að eftir kosningarnar 1993, sem ég gat um, samþykktu fjögur þáverandi sveitarfélög tillögu um stóra sameiningu og bjuggust flestir við að menn mundu láta fara fram nýja atkvæðagreiðslu meðal þeirra fjögurra vegna undirtekta sem leiddu það í ljós að það mátti búast við því að það væri stuðningur við að sameina þessi fjögur sveitarfélög.

Yfirvöld í þessum fjórum sveitarfélögum hafa haft tvö ár til að stíga þetta skerf en hafa einhverra hluta vegna kosið að nota það ekki. Menn hafa sjálfir eindagað sig ef þeir líta svo á að málið sé komið á einhvern eindaga og þurfi lagaákvæði til að bjarga mönnum frá því. Mér finnst því, virðulegur forseti, eðlilegast að framgangur verði eins og lög kveði á um. Gangi tillagan ekki fram eins og hún er lögð fyrir þá verður lögð fram ný tillaga og um hana kosið meðal íbúa í þeim sveitarfélögum sem málið varðar.

Ég vil bara ítreka að afstaða mín í þessu máli er nákvæmlega sú sama og var fyrir tveimur árum og leiddi m.a. til þess að sveitarstjórnarlögum var breytt í það horf sem þau eru í nú.