Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 02. nóvember 1995, kl. 18:00:45 (685)

1995-11-02 18:00:45# 120. lþ. 25.6 fundur 126. mál: #A sveitarstjórnarlög# (atkvæðagreiðsla um sameiningu sveitarfélaga) frv., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur


[18:00]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Það er tvennt sem slær mig frekar óþægilega við þetta mál. Í fyrsta lagi að sett séu sérstök lög sem eiga bara við um eitt tiltekið atvik 10 dögum áður en atkvæðagreiðslan á að eiga sér stað. Þess vegna spyr ég hæstv. félmrh. eða hæstv. forseta hvort það eru fordæmi fyrir slíkri lagasetningu.

Í öðru lagi slær mig mjög óþægilega að það standi til að það eigi sér stað sameining sveitarfélaga, hugsanlega fjögurra af þessum sex og þá yrði sameiningin á allt öðrum forsendum en viðkomandi aðilar kusu um. Þess vegna finnst mér það fyrirkomulag í lögunum að það verði önnur kosning ef svona lagað kemur upp, sum fella og aðrir samþykkja, mjög eðlilegt. Ég virði að þessi tillaga er komin af viðkomandi svæði og hugsanlega eru aðstæður þarna erfiðar, þ.e. hugsanlega er erfitt að fara í aðra atkvæðagreiðslu á þessum árstíma, en mér finnst þetta samt mjög varasamt. Ég á mjög erfitt með að samþykkja svona lög og þess vegna spyr ég hvort svona lagasetning eigi sér fordæmi.