Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 02. nóvember 1995, kl. 18:17:41 (691)

1995-11-02 18:17:41# 120. lþ. 25.6 fundur 126. mál: #A sveitarstjórnarlög# (atkvæðagreiðsla um sameiningu sveitarfélaga) frv., KHG
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur


[18:17]

Kristinn H. Gunnarsson:

Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð til að hnykkja á tveimur atriðum. Það fyrra er til þess að það liggi alveg ljóst fyrir hvert er fordæmisgildi bráðabirgðaákvæðis frá 1993 sem bæði ég og hæstv. ráðherra hafa vitnað til Menn verða að athuga í hvaða tímaröð hlutirnir gerast. Það er í maí 1993 sem er ákveðið að setja í sveitarstjórnarlögin þetta bráðabirgðaákvæði sem heimilar sveitarstjórnarmönnum að ákveða sameiningu jafnvel þótt hún hafi ekki verið samþykkt nákvæmlega af íbúunum. Þá var aðalreglan í lögunum sú að sameining þurfti ekki samþykki. Hún þurfti höfnun en ekki samþykki. Síðan gerist það veturinn seinna, eða 22. mars ári seinna, að Alþingi breytir þessu. Breytir meginlagaákvæðinu í sveitarstjórnarlögum og ýtir í raun og veru bráðabirgðaákvæðinu sjálfkrafa til hliðar, það var út af fyrir sig tæmt tímanlega en efnislega vikið til hliðar með nýju lögunum sem eru þau að sameining verður að vera samþykkt af íbúunum. Bráðabirgðaákvæðið frá 1993 getur því ekki verið fordæmi fyrir bráðabirgðaákvæði 1995 vegna þess að Alþingi er þegar búið að víkja því til hliðar sem reglu. Það sem er að gerast núna með því að taka upp bráðabirgðaákvæði af þessu tagi á nýjan leik er að menn eru að bakka. Menn eru að bakka frá þeirri reglu að íbúarnir eigi að ákveða sameininguna og yfir í annað sem hefur óljósan endi en alla vega það millispil að það séu sveitarstjórnarmennirnir sem eigi að taka ákvörðunina. Þar eru menn að taka ákvörðunina úr höndum íbúanna og færa hana yfir í hendur sveitarstjórnarmannanna í tilteknum tilvikum. Ég er einfaldlega andvígur því skrefi bæði af efnislegum ástæðum og líka því að ég óttast að það verði notað til að festa bráðabirgðaákvæðið í sessi og gera það að varanlegu ákvæði eins og þegar hefur komið fram sjónarmið um frá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur. Auk þess mun það líka leiða til þess að mínu viti að menn gangi lengra í áttina frá ákvörðunarvaldi íbúanna því að við vitum auðvitað um að það hafa margar raddir komið fram um að það eigi ekki að spyrja íbúa yfir höfuð í sameiningarmálum varðandi sveitarfélög. Að mínu viti hefur þessi breyting, sem menn eru að leggja til að verði lögfest, gríðarlegt fordæmisgildi og getur haft slæmar afleiðingar varðandi þá meginreglu sem við búum við í löggjöfinni. Ég er ekki tilbúinn að standa að því að stíga slíkt skref enda treysti ég íbúum til að taka ákvarðanir. Það er kannski munurinn á mér og þeim sem leggja þetta til, að ég treysti fólkinu. Það er það sem menn eiga að gera yfirleitt og ekki bara stundum heldur alltaf.