Neyðarlínan

Mánudaginn 06. nóvember 1995, kl. 15:21:30 (711)

1995-11-06 15:21:30# 120. lþ. 27.1 fundur 64#B Neyðarlínan# (óundirbúin fsp.), dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur


[15:21]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Samræmd neyðarsímsvörun er tekin upp frá og með næstu áramótum á grundvelli sérstakrar löggjafar sem samþykkt var á Alþingi sem m.a. fól það í sér að unnt yrði að stofna til fyrirtækis um þetta verkefni þar sem kæmu að ýmsir þeir aðilar sem hafa slíka starfsemi með höndum. Þar eru aðilar eins og Slökkviliðið í Reykjavík, Slysavarnafélag Íslands, Póstur og sími og þar koma öryggisfyrirtæki að. Þetta er allt gert á grundvelli þeirrar löggjafar sem um þetta var samþykkt og miðaði að því að koma á slíkri starfsemi fyrir tilskilinn tíma með sem minnstum tilkostnaði fyrir ríkissjóð.

Lögreglan taldi ekki rétt af sinni hálfu að flytja stjórnstöð sína inn í þetta nýja fyrirtæki, en fær að sjálfsögðu skilaboð í gegnum neyðarnúmerið og sömuleiðis viðbragðsaðilar annars staðar á landinu. Óhætt er að fullyrða að þetta mun verða til mikils hagræðis og aukins öryggis, ekki síst úti á landsbyggðinni þar sem víða hefur verið erfitt að samræma neyðarsímanúmer og koma á markvissu skipuagi með sólarhringsvöktum. Það er alveg óhætt að fullyrða að með upptöku þessa neyðarnúmers, þá verður þessi þjónusta bætt mjög verulega.