Óþörf fjárfesting í húsnæðiskerfinu

Mánudaginn 06. nóvember 1995, kl. 15:34:29 (721)

1995-11-06 15:34:29# 120. lþ. 27.1 fundur 67#B óþörf fjárfesting í húsnæðiskerfinu# (óundirbúin fsp.), VÁ
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur


[15:34]

Vilhjálmur Ingi Árnason:

Herra forseti. Ég beini máli mínu til hæstv. félmrh. Fram hefur komið í opinberri umræðu að undanförnu að nokkrar sveitarstjórnir hafa hlutast til um að byggðar hafi verið óeðlilega margar og dýrar íbúðir í viðkomandi sveitarfélagi með fjármagni úr húsnæðiskerfinu að því er virðist einkum til að halda uppi atvinnu án tillits til raunverulegra þarfa. Meðal annars hefur komið fram í dagblaðagreinum eftir húsnæðisnefndar- og sveitarstjórnarmenn að slík vinnubrögð séu viðhöfð. Ég spyr því: Ætlar hæstv. félmrh. að hlutast til um að kannað verði hvort fullyrðingar um misnotkun í húsnæðiskerfinu eigi við rök að styðjast?