Ríkisreikningur 1992

Mánudaginn 06. nóvember 1995, kl. 15:48:23 (731)

1995-11-06 15:48:23# 120. lþ. 28.3 fundur 88. mál: #A ríkisreikningur 1992# frv., fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur


[15:48]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Hér er á ferðinni ríkisreikningur fyrir árið 1992. Hann var lagður fyrir Alþingi með bréfi fjmrh. til forseta Alþingis í september 1993. Frv. þetta var fyrst flutt á vorþinginu 1994 og er nú flutt óbreytt í þriðja sinn.

Ég sé ekki ástæðu til þess að vera margorður um þetta frv. Það má vísa til greinargerðar um niðurstöðu og framvindu ríkisfjármála á árinu 1992 en lýsing á því kom fram í skýrslunni frá því í febr. 1993 um ríkisfjármálin 1992 og endurskoðunarskýrslu yfirskoðunarmanna ríkisreiknings og Ríkisendurskoðunar á ríkisreikningi 1992. Ég tek fram að hjá hæstv. ríkisstjórn er nú til meðferðar frv. um fjárreiður ríkisins og ég vonast til að það verði kynnt í stjórnarþingflokkunum á næstunni. Mér er kunnugt um að þetta mál hefur verið kynnt í hv. fjárln. og í hv. efh.- og viðskn. en með því frv. er tekið að mínu áliti verulegt spor fram á við í öllu því er viðkemur fjárreiðum ríkisins. Ég vonast til að með samþykkt þess frv. gangi betur en hingað til að fá afgreiðslu á málum eins og þeim sem hér er til umræðu.

Ég legg svo til í lok máls míns, virðulegi forseti, að málið verði sent til 2. umr. og hv. fjárln.