Vörugjald af olíu

Mánudaginn 06. nóvember 1995, kl. 16:13:01 (735)

1995-11-06 16:13:01# 120. lþ. 28.5 fundur 111. mál: #A vörugjald af olíu# (frestun gildistöku) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur


[16:13]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og kom fram í máli mínu er ætlunin að litunin verði á olíunni sem er gjaldfrjáls. Þó má búast við því að fiski- og farskip séu undanskilin án þess að ég vilji gefa endanlegt svar nú. Það er rétt sem kom fram hjá hv. þm. að nokkur umræða hefur orðið um það hvort liturinn sé mengunarvaldandi. Það mál var einmitt til skoðunar nú í Danmörku og ástæðan fyrir því að við höfum óskað eftir því að málið sé geymt í tvö ár er að fá fullnægjandi niðurstöður hjá mengunaryfirvöldum í Danmörku en mengunarstuðlar þar eru álíka og þeir hér á landi, síst verri. Reyndar hefur þetta mál allt áhrif á Evrópska efnahagssvæðið og öfugt, því ég hygg að Danir séu að taka upp litun vegna reglnanna á Evrópska efnahagssvæðinu. Með þessu þurfum við að fylgjast mjög náið á næstunni og ég get einungis sagt það hér og nú að ein af ástæðunum fyrir því að við förum ekki beint yfir í þessa litun er einmitt sú að málið er til skoðunar af þessu sérstaka tilefni.