Vörugjald af olíu

Mánudaginn 06. nóvember 1995, kl. 16:25:58 (738)

1995-11-06 16:25:58# 120. lþ. 28.5 fundur 111. mál: #A vörugjald af olíu# (frestun gildistöku) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur


[16:25]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég kem nú til að staðfesta að það er rétt sem hæstv. fjmrh. segir að það væri ekki í samræmi við þau samskipti sem voru milli þingnefndar og hagsmunaaðila um þetta mál á sl. vetri að fara að þvinga þessa framkvæmd fram í andstöðu við alla þá aðila. Því þeim voru vissulega gefin ákveðin fyrirheit í sambandi við það að málið yrði að leysast með einhverjum farsælum og þolanlegum hætti á þessu sumri til þess að af framkvæmdinni gæti orðið. Með þeim hætti má segja að gildistaka laganna hafi kannski verið efnislega skilyrt á vissan hátt, ef menn næðu ekki landi í þeim efnum þá yrði málið aftur tekið til skoðunar.

Það er alveg ástæðulaust að þrátta um þessi stórtíðindi sem eiga að hafa komið alla leið frá Danmörku nákvæmlega um miðjan september. Það sem ég átti við var það að það lá fyrir og hafði legið fyrir alllengi að það var verið að vinna að rannsóknum á þessum tiltekna hætti og þeim miðaði eftir atvikum ágætlega. Væntanlega er þá hér á ferðinni einhver útkoma úr því sem hefur gert menn svona hughrausta um að þarna væru menn að leysa þessi tæknilegu vandamál eða þá prófanir sem mátti kannski skilja á orðum ráðherrans að gerðu það að verkum að menn væru nokkuð bjartsýnir og hefðu traustar forsendur til að ætla að þetta yrði allt tæknilega leysanlegt.

Það er alveg rétt að það þarf væntanlega að breyta lögunum um innheimtu þungaskatts og þá hlýtur að mega koma til álita að einfalda eitthvað málin með því að láta millibilsástand ríkja þessi tvö ár, ef það stenst, þar til litunin verður tekin upp. Ég endurtek það sem ég sagði að það er a.m.k. tilraunarinnar virði að fara yfir það mál hvort ekki sé hægt að hlífa mönnum við þeim ósköpum að standa í því að setja mæla í tækin og fjárfesta í því á þessum tíma. Nógu bölvað er þetta samt, þau áhrif sem þetta hefur jafnvel á viðskipti með dísiltæki og markaðsverð þeirra o.s.frv. Þetta verkar truflandi og þetta truflar ákvarðanir manna um það hvaða tæki eigi að kaupa o.s.frv.