Vörugjald af olíu

Mánudaginn 06. nóvember 1995, kl. 16:33:55 (740)

1995-11-06 16:33:55# 120. lþ. 28.5 fundur 111. mál: #A vörugjald af olíu# (frestun gildistöku) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur


[16:33]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þótt ekki hafi verið beint beinlínis spurningu til mín vil ég að það komi fram að allar þessar upplýsingar lágu fyrir á sl. vori. Afgreiðsla hv. efh.- og viðskn. var á vissan hátt takmörkuð. Það kom skýrt fram í störfum nefndarinnar að hún hefði fullan skilning á því að það þyrfti að breyta frv. eftir að það væri skoðað um sumarið. Einnig ræddi ég málið mjög ítarlega í framsöguræðu minni og sem dæmi vil ég segja að það kom fram í ræðu minni að fjárfestingarkostnaður vegna olíulitunar myndi að óbreyttu kosta 400 millj., rekstur kerfisins 160, 100 millj. til viðbótar vegna rekstrarkostnaðar tankbifreiða, fyrir utan eftirlitskerfi. Það var einmitt þessi mikli kostnaður við litunarkerfið sem varð til þess að menn fóru frekar í endurgreiðslukerfið. Ekkert sem hefur komið fram bendir til þess að það sé óyfirstíganlegt en það er samt dýrt. Það er ekki eins gott eins og litunarkerfið og nú þegar fyrir liggja upplýsingar um að það sé komin ný tækni í litunarkerfinu sem sé miklu auðveldari og ódýrari en við höfðum gert ráð fyrir á sínum tíma lagði meiri hluti nefndarinnar þetta til og þess vegna kem ég með þetta inn núna. Það má vel vera að þetta sé lagahringl en þetta er dæmi um það sem getur gerst og ég held að stundum sé betra að bíða og fá betra kerfi en að halda áfram á sömu braut þegar við vitum að í burðarliðnum er betri aðferð til þess að ná fram þeim sömu markmiðum sem við viljum stefna að.