Lífeyrisréttindi alþingismanna og ráðherra

Mánudaginn 06. nóvember 1995, kl. 17:00:51 (744)

1995-11-06 17:00:51# 120. lþ. 28.7 fundur 79. mál: #A lífeyrisréttindi alþingismanna og ráðherra# frv., ÁMM
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur


[17:00]

Árni M. Mathiesen:

Hæstv. forseti. Við hv. þm. sem erum meðflm. að þessu frv. viljum með því sýna vilja okkar í verki og þá á ég við hvernig við viljum að lífeyriskerfi landsmanna sé uppbyggt í framtíðinni. Og þá jafnframt þann vilja að við, kjörnir fulltrúar þjóðarinnar, höfum ekki önnur kjör heldur en að við ætlum þjóðinni að öðru leyti að lifa við. Ég ætla ekki að fara að endurtaka framsöguræðu hv. 1. flm., Péturs H. Blöndals, sem gerði skilmerkilega grein fyrir efnisatriðum frv. Ég vil hins vegar nefna sérstaklega tvö atriði sem ég tel að þurfi að haldast í hendur við það að þetta frv. verði að lögum. Annað er að ég tel að það þurfi að haldast í hendur við þessa breytingu að það verði gerð almenn sams konar breyting á lífeyriskjörum opinberra starfsmanna. Ég tel, eins og kom fram hjá hv. flm., að það sé ekki viðunandi að það búi tvær þjóðir í landinu sem búi við mismunandi kjör um lífeyrismálum. Þessi skoðun mín hefur áður komið fram hér í þessum ræðustóli og það var á 117. löggjafarþingi í umræðu um tillögu um frelsi í lífeyrismálum sem ég flutti ásamt hv. þm. Vilhjálmi Egilssyni. Þá sagði ég í seinni ræðu minni, í svari í tilefni orða hv. þáv. 16. þm. Reykv. núv. hv. 10. þm. Reykv., Guðmundar Hallvarðssonar, sem er jafnframt einn af meðflutningsmönnum þessa frv., þar sem hann vék að opinberum starfsmönnum í sinni ræðu: ,,Ég tel einmitt að sú breyting sem við leggjum til í tillögunni sé grundvöllurinn fyrir því að hægt sé að breyta um kerfi á lífeyristryggingum opinberra starfsmanna. Það er rétt sem hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson nefndi í sinni ræðu að ríkið greiðir tugi þúsunda á mánuði með hverjum ríkisstarfsmanni vegna greiðslutryggingarinnar sem er á þeirra lífeyrisgreiðslum. Það þarf að semja um þetta atriði við opinbera starfsmenn. Ef það á að breyta því þá verður að kaupa þessi réttindi af starfsmönnunum. Það verður þá væntanlega að koma fram í hærri launum sem þeim eru greidd fyrir þeirra vinnu. En til þess að þeir geti þá notað þessi laun sín til að afla sér sambærilegra lífeyrisréttinda þá verður að vera valfrelsi í lífeyrissjóðsmálum hér á landi. Þá verða þeir að geta valið um þá sjóði sem þeir vilja greiða til og um þá sjóði sem veita þeim þá tryggingu sem þeir telja sig þurfa á að halda. Þessi breyting sem hér er lögð til er grundvöllurinn fyrir því að hægt sé að gera breytingar á lífeyrismálum opinberra starfsmanna.``

Þær breytingar sem við lögðum til í tillögunni um frelsi í lífeyrissjóðsmálum er að fleiri aðilum heldur en lífeyrissjóðum verði gert kleift að reka lífeyrissjóði og veita lífeyristryggingar og að launamenn sem til lífeyrissjóða greiða hafi heimild til að velja um í hvaða lífeyrissjóð þeir greiða. Og það sem ég sagði hér á undan og vitnaði þar til umræðunnar um þessa tillögu á á sama hátt við um alþingismenn og ráðherra. Það eru þeirra kjör sem verið er að breyta og þarf þá væntanlega að bæta þeim það upp á annan hátt. En þeir þurfa síðan að breytingunni lokinni að eiga möguleika á því að velja um lífeyrissjóði, um alvörulífeyrissjóði, sem keppa sín á milli um það að fjármagna fé lífeyrissjóðanna. Þannig að ég tengi mjög fast saman þrjár breytingar sem ég tel vera nauðsynlegar, þ.e. breyting á lífeyrisréttindum alþingismanna og ráðherra, breyting á lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna og frelsi í lífeyrismálum hér á landi. Ég vænti þess að þetta mál og hin tvö sem ég nefndi fái góðar undirtektir og vil þá vitna til stjórnarsáttmálans þar sem gert er ráð fyrir því að gerðar verði þær breytingar sem tryggi þjóðinni allri sambærileg kjör í lífeyrismálum.