Gatnagerðargjald

Þriðjudaginn 07. nóvember 1995, kl. 13:41:15 (751)

1995-11-07 13:41:15# 120. lþ. 29.9 fundur 106. mál: #A gatnagerðargjald# (heildarlög) frv., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur


[13:41]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um gatnagerðargjöld á þskj. 111. Gert er ráð fyrir að frv. þetta, ef samþykkt verður, leysi af hólmi m.a. lög um gatnagerðargjöld, nr. 51/1974, sbr. lög nr. 31/1975. Frv. er samið af þriggja manna nefnd sem félmrh. skipaði í febr. 1994 og átti Samband ísl. sveitarfélaga sæti í nefndinni.

Lög nr. 51/1974 voru á sínum tíma sett til að tryggja sveitarfélögum fjármagn til gatnagerðar. Fyrir setningu laganna höfðu þau flest ekki slíkt fjármagn tryggt og sátu gatnagerðarmál því nokkuð á hakanum hjá sveitarfélögum. Þó voru í gildi lög sem tryggðu nokkrum sveitarfélögum fjármagn til slíkra framkvæmda, þ.e. lög um gjöld til holræsa og gangstétta í Reykjavík og fleira, nr. 42/1911, lög um gjöld til holræsa og gangstétta í kaupstöðum öðrum en Reykjavík og Akureyri, nr. 18/1920, og lög um holræsa, gangstétta og varanlegs slitlags á götum á Akureyri, nr. 87/1970. Setning laga nr. 51/1974 varð því til þess að sveitarfélögin gátu gert átak í gatnagerð.

Frá gildistöku laga nr. 51/1974 hafa komið fram margs konar gallar á þeim og sívaxandi öðrugleikar við framkvæmd þeirra, samanber m.a. þann fjölda mála varðandi gatnagerðargjöld sem félmrn., umboðsmaður Alþingis og dómstólar, hafa fjallað um. Með hliðsjón af þessu var talin full ástæða til að endurskoða lögin. Niðurstaða af þeirri vinnu varð það frv. sem hér er lagt fram og eru gerðar tillögur um nokkrar breytingar frá gildandi lögum. Helstu nýmælin eru eftirfarandi:

1. Í gildandi lögum er um að ræða tvenns konar gatnagerðargjöld, sbr. 1. og 3. gr. laganna, þ.e. annars vegar gjald til að undirbyggja götur með tilheyrandi lögnum ásamt slitlagi og hins vegar sérstakt gjald vegna bundins slitlags og gangstétta. Lagt er til að gatnagerðargjald verði framvegis ekki tvískipt með þessum hætti þar sem flest sveitarfélög hafa lagt bundið slitlag á meginhluta gatnakerfisins í þéttbýli. Því er fallin brott forsenda fyrir tvískiptingu gjaldsins. Heiti laganna breytist í samræmi við þetta.

[13:45]

2. Tilgreint er skýrara hámark gatnagerðargjalds, sbr. 3. mgr. 3. gr. frv.

3. Lagt er til í 5. gr. frv. að í lögunum verði skýr kæruheimild til félmrn. en vafi hefur þótt leika á úrskurðarvaldi ráðuneytisins í málum þessum.

4. Fyrir landið allt gildi ein reglugerð um gatnagerðargjald en ekki reglugerð eða samþykkt fyrir hvert sveitarfélag fyrir sig.

Mér þykir rétt að gera grein fyrir einstökum greinum frv. Í 1. mgr. 1. gr. er tilgreind almenn heimild til að innheimta hjá öllum lóðarhöfum eða lóðareigendum gjald sem sveitarstjórn nýtir til gatnagerðar í sveitarfélaginu sbr. 2. gr. Gjald skv. 1. mgr. má fyrst innheimta þegar sveitarstjórn hefur úthlutað byggingarrétti á tiltekinni lóð sem gert er ráð fyrir í skipulagi eða í tengslum við útgáfu byggingarleyfis á lóðum sem ekki eru í eigu sveitarfélagsins. Greinarmunur er gerður annars vegar á lóðum í eigu sveitarfélags eða sem sveitarfélagið hefur ráðstöfunarrétt á, þ.e. þegar sveitarstjórn ráðstafar byggingarrétti á viðkomandi lóð, og hins vegar öðrum byggingarlóðum að því er varðar þau tímamörk þegar fyrst má innheimta gatnagerðargjald af lóð. Er það nauðsynlegt í ljósi þess að lóðir geta verið í einkaeigu án þess að eigendurnir kjósi að nýta þær undir byggingar, jafnvel þótt skipulag geri ráð fyrir þeim sem byggingarlóðum.

Við samningu ákvæðis þessa var haft í huga ákvæði 3. gr., 4. og 10. lið, í byggingarreglugerð en þar segir að þegar byggingarleyfi hafi verið gefið út fyrir nýbyggingu á skipulögðu svæði í þéttbýli sé sveitarstjórn skylt að sjá um að götur, rafmagn, vatn og holræsi sé fyrir hendi eftir því sem þörf er á, nema sérstakur fyrirvari hafi verið gerður í úthlutunar- eða byggingarskilmálum.

Í 1. mgr. 1. gr. segir jafnframt að sveitarstjórn ákveði með gjaldskrá hvenær megi innheimta gjaldið en um gjaldskrána eru nánari ákvæði í 2. mgr. 6. gr. frv.

Í 2. mgr. 1. gr. er kveðið á um endurgreiðsluskyldu sveitarstjórnar í þeim tilfellum þegar sá sem hefur fengið lóð úthlutað kýs að skila henni eða þegar byggingarleyfi fellur úr gildi eða er fellt úr gildi þegar greitt hefur verið gatnagerðargjald í tengslum við útgáfu þess. Er hér um að ræða tæmandi talningu á þeim tilfellum þegar sveitarstjórn er skylt að endurgreiða gatnagerðargjald.

Í 2. gr. er kveðið á um að gatnagerðargjaldi skv. 1. gr. skuli varið til gatnagerðar í sveitarfélaginu svo sem til að undirbyggja götur með tilheyrandi lögnum, leggja bundið slitlag, gangstéttir, umferðareyjar o.þ.h. þar sem gert er ráð fyrir því í skipulagi. Með ákvæði þessu er því lögð af sú skipting á gatnagerðargjöldum sem eru í 1. og 3. gr. núgildandi laga, samanber það sem fyrr var rakið.

Skv. 2. gr. er ráðstöfun gatnagerðargjaldsins ekki bundið við gerð gatna við þær lóðir sem gatnagerðargjald er innheimt af. Ekki er lengur talið þörf á eða eðlilegt að binda ráðstöfun gatnagerðargjalds við tilteknar götur í sveitarfélaginu.

1. mgr. 3. gr. frv. er efnislega eins og 5. gr. núgildandi laga um gatnagerðargjöld með þeirri undantekningu að hér er kveðið svo á að gatnagerðargjald megi miða við flatarmál húsbygginga.

Í 2. mgr. 3. gr. er áréttað að gatnagerðargjald megi innheimta í tilefni af stækkun bygginga að því er stækkuninni nemur, hvort sem byggt er við eldra hús á lóð eða reist nýtt hús á lóð þar sem eldra hús hefur verið fjarlægt. Skilyrði þess er vitaskuld að ekki hafi áður verið innheimt gatnagerðargjald sem tekur til slíkrar stækkunar.

Loks er í 3. mgr. 3. gr. ákveðið hámark gatnagerðargjalds. Í núgildandi lögum er hámarksviðmiðunin skv. 2. gr. ekki nægilega skýr, þ.e. að gjaldið megi nema allt að áætluðum meðalkostnaði við að undirbyggja götu með tilheyrandi lögnum og slitlagi. Slík viðmiðun er til þess fallin að valda ágreiningi og hefur raunin orðið sú á undanförnum árum. Af þeim sökum er hér lagt til að gatnagerðargjald, sem miðað er við stærð bygginga, megi ekki á hverjum rúmmetra eða fermetra vera hærra en 15% af heildarbyggingarkostnaði samsvarandi einingar í vísitöluhúsi fjölbýlis samkvæmt útreikningum Hagstofu Íslands á grundvelli laga nr. 42 frá 1987, um vísitölu byggingarkostnaðar. Jafnframt er tekið fram að fjárhæð gjaldsins megi ákveða með tilliti til leyfilegrar stærðar byggingar samkvæmt því skipulagi sem gildir fyrir viðkomandi lóð. Þar sem vísitala byggingarkostnaðar tekur ekki til lóðarstærðar á sama hátt og til flatarmáls og rúmmáls húsa þótti rétt að binda hámark gatnagerðargjalds, sem í gjaldskrá er að hluta eða að öllu leyti miðað við stærð lóðar, með þeim hætti að það megi ekki vera hærra en það gæti orðið hæst ef miðað væri við rúmmál og/eða flatarmál byggingar á lóðinni samkvæmt gildandi aðal- eða deiliskipulagi.

Í 4. gr. er gert ráð fyrir að lóðarhafi beri ábyrgð á greiðslu gatnagerðargjalds, sbr. ennfremur ákvæði 1. gr. frv. þessa. Jafnframt er lagt til að gatnagerðargjald verði áfram tryggt með lögveðsrétti í viðkomandi fasteign, sbr. ákvæði 7. gr. gildandi laga.

Í 5. gr. frv. er gert ráð fyrir að viðkomandi lóðarhafi, þ.e. sá sem er ábyrgur fyrir greiðslu gatnagerðargjalds skv. 4. gr., geti skotið ákvörðun sveitarstjórnar um álagningu gatnagerðargjalds til úrskurðar félmrh. innan hins almenna kærufrests sem stjórnsýslulög ákveða. Ákvæði þetta er einnig í samræmi við 119. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 8 frá 1986. Rétt er að árétta hér að kæruheimildin tekur aðeins til lögmætis álagningar gjaldsins, þ.e. fjárhæðar gjaldsins, og forsendna álagningarinnar svo og hvenær gjaldsins verður fyrst krafist.

Lagt er til að í 6. gr. að félmrh. setji eina reglugerð um gatnagerðargjald sem tæki til landsins alls samanber það fyrirkomulag sem nú er skv. lögum um vatnsveitu sveitarfélaga nr. 81 frá 1991. Skv. gildandi lögum um gatnagerðargjöld, nr. 51 frá 1974, er sveitarstjórnum heimilt með sérstakri samþykkt sem ráðherra staðfestir að innheimta gatnagerðargjöld. Hver sveitarstjórn þarf því að setja sérstaka samþykkt fyrir sitt sveitarfélag og senda hana til staðfestingar félmrh.

Þegar frv. þetta var samið voru í gildi 88 reglugerðir og samþykktir um gatnagerðargjöld fyrir 76 sveitarfélög. Slíkur fjöldi reglugerða og samþykkta verður óhjákvæmilega nokkuð sundurleitur. Ætla má að núverandi fyrirkomulag geti leitt til mismununar manna eftir því hvar þeir eru í sveit settir. Til að auka líkur á því að meðferð þeirra mála er varða gatnagerðargjald verði með sem líkustum hætti hvar á landi sem er, er lagt til framangreint fyrirkomulag, þ.e. að félmrh. setji eina reglugerð um gatnagerðargjald sem tæki til landsins alls.

Það að hafa aðeins eina reglugerð fyrir allt landið einfaldar framkvæmdina til mikilla muna jafnt hjá sveitarstjórnum og hjá félmrn. Lagt er til að í reglugerðinni verði kveðið nánar á um ýmsa þætti sem ekki þykir rétt að taka upp í frv. þetta. Á það við um útreiknireglur við ákvörðun gatnagerðargjalds, undantekningar frá meginreglum, áhrif skipulagsbreytinga á upphaf gatnagerðargjalds, tilhögun endurgreiðslu o.fl. Nefndin hefur samið drög að slíkri reglugerð sem fylgja með frv. þessu til kynningar.

Þrátt fyrir að sett verði reglugerð sem taki til landsins alls verður að veita sveitarstjórnum svigrúm til að kveða á um upphaf gatnagerðargjaldsins innan þess ramma sem settir eru í 3. mgr. í 3. gr. frv. greiðsluskilmála o.þ.h. sem eðlilegt er að ákveðið verði með mismunandi hætti eftir aðstæðum. Er því í 2. mgr. 6. gr. frv. kveðið á um að sveitarstjórn setji gjaldskrá fyrir gatnagerðargjald í viðkomandi sveitarfélagi þar sem fjallað skal um áðurgreind atriði. Er það fyrirkomulag enn fremur í samræmi við þá meginreglu sem fram kemur í 5. mgr. 6. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 8 frá 1986, en þar er kveðið á um sjálfsforræði sveitarstjórna á gjaldskrá eigin fyrirtækja eða stofnana til að mæta kostnaði við framkvæmd þeirra verkefna sem þau annast.

Í 7. gr. er kveðið á um hvenær lögin taki gildi. Rétt er talið að sveitarstjórnir fái nokkurn aðlögunartíma að hinum nýju lögum frá því að þau eru samþykkt á Alþingi. Lagt er til að í lögunum verði tvö ákvæði til bráðabirgða. Í fyrra ákvæðinu er lagt til að um innheimtu og álagningu gatnagerðargjalda vegna framkvæmda á grundvelli 3. og 4. gr. laga nr. 51 frá 1974, sbr. lög nr. 31 frá 1975, þ.e. vegna lagningar bundins slitlags á gangstéttir, skuli gilda þau lög. Fyrir því eru þó sett þau skilyrði í fyrsta lagi að framkvæmdirnar hefjist fyrir gildistöku nýrra laga um gatnagerðargjald og hins vegar að framkvæmdunum skuli lokið innan fimm ára frá gildistöku nýrra laga um gatnagerðargjald. En það er í samræmi við þá fimm ára reglu sem fram kemur í 4. gr. gildandi laga. Enn fremur er tekið fram að ákvæði þetta gildi einungis vegna lóða sem úthlutað hefur verið eða veitt hefur verið byggingarleyfi frá gildistöku þessara laga. Er það gert til þess að tryggja að um álagningu gatnagerðargjalds á lóðir sem úthlutað er eða veitt byggingarleyfi á eftir gildistöku laga þessara fari eftir ákvæðum hinna nýju laga.

Í seinna ákvæðinu er kveðið á um að þeir skilmálar um gatnagerðargjöld sem sveitarstjórn hefur ákveðið við úthlutun lóðar og lóðarhafi eða lóðareigandi hefur fallist á, skuli ekki víkja fyrir ákvæðum nýju laganna ef þeir eru þeim ósamrýmanlegir. Sama gildir um gerð samninga um gatnagerðargjöld á tilteknum lóðum. Þannig yrði t.d. viðbótargatnagerðargjald reiknað af rúmmáli húss en ekki flatarmáli ef það hefur verið ákveðið í öndverðu. Einnig væri samningur á milli sveitarfélags og lóðarhafa eða lóðareiganda um að innheimta gatnagerðargjald í áföngum eftir því sem lóð byggðist eftir sem áður skuldbindandi fyrir sveitarstjórnina.

Herra forseti. Ég hef rakið hér öll meginákvæði frv. til laga um gatnagerðargjald. Áður en frv. var lagt fram var leitað eftir umsögnum Sambands íslenskra sveitarfélaga, Félags byggingarfulltrúa og Sambands tæknimanna sveitarfélaga. Þær umsagnir voru allar mjög jákvæðar. Legg ég því til að frv. þetta verði að lögum og geri tillögu um að það verði sent hv. félmn. til athugunar. Ég vil biðja hv. félmn. að fara vandlega yfir aðlögunartímann og bráðabirgðaákvæðin, hvort að þau séu ekki fullnægjandi því að mér er ljóst að sveitarfélög eru nokkuð misjafnlega á vegi stödd í þessu efni og dæmi kunna að finnast þar sem hugsanlega þyrfti að rýmka eitthvað þau ákvæði sem að sett eru hér í lagatextann.