Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 07. nóvember 1995, kl. 14:02:11 (753)

1995-11-07 14:02:11# 120. lþ. 29.10 fundur 118. mál: #A sveitarstjórnarlög# (Sléttuhreppur) frv., RG
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur


[14:02]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Út af fyrir sig væri það næg ástæða til að koma í ræðustól Alþingis að upp er runnin sú stund að Sléttuhreppur verði sameinaður Ísafirði og væri það nægilegt fyrir þá sem hér stendur, en ástæðan er þó önnur. Ég get ekki látið hjá líða að nefna hversu merkilegt byggðarlag Sléttuhreppur í Norður-Ísafjarðarsýslu er.

Í þessu byggðarlagi var háð hörð lífsbarátta um aldir og alveg þar til 1950 þegar þetta merkilega byggðarlag lagðist í eyði og fólk hraktist frá heimilum sínum og jörðum, reyndar án nokkurra bótagreiðslna af einu eða öðru tagi. Flestir sem þar höfðu búið og fluttu brott voru snauðari í nýja umhverfinu en þar sem þeir höfðu búið, þótt þar hefði verið harðbýlt og víða harla erfiðar aðstæður. Þetta finnst mér ástæða til að nefna hér vegna þess að þeim kafla í sögu okkar þegar búsetu lauk á þessu harðbýla svæði, þar sem bændur voru yfirleitt útvegsbændur og bæði erjuðu jörðina og sóttu til sjávar við afar, afar erfið skilyrði, hefur verið gerð lítil skil. Og það var nokkuð einþætt frv. sem í tvígang kom inn í stjórnarflokkana með einni setningu eins og hér er, að Sléttuhreppur verði sameinaður Ísafirði.

Það hefur átt nokkurn aðdraganda, virðulegi forseti, að þetta frv. kæmi fram í Alþingi og yrði væntanlega samþykkt hér og ástæðan fyrir því að ég kem hér upp er að ég hef haft nokkur afskipti af þessu máli. Það er vegna þess að það var ekki eining af hálfu þeirra aðila sem málinu tengjast um að þessi hreppur yrði sameinaður Ísafirði.

Hins vegar er það svo að á þessum stað þar sem hefur verið friðland um áratugi, þá horfði öðruvísi við en annars staðar þar sem ekki var nokkur íbúi búsettur til að fjalla um hin svokölluðu praktísku mál. Þetta friðland sem Sléttuhreppur er nær jafnframt yfir Grunnavíkurhrepp og hluti friðlandsins var komið undir Ísafjörð með því að Grunnavíkurhreppur var sameinaður Snæfjallahreppi árið 1963 og þeir síðan sameinaðir Ísafirði. Áður fór Náttúruverndarráð með mál er lúta að byggingarleyfum, t.d. varðandi sumarbústaði eða endurbyggingu húsa á jörðum, og að sjálfsögðu voru þær leyfisveitingar háðar skipulagi ríkisins og frágengnum skipulagsuppdráttum eftir að slíkt varð til.

Það var seinna skoðað á árunum eftir 1990 varðandi byggingarmál hvort leita ætti eftir samningum við Ísafjörð um að byggingarnefnd þar annaðist afgreiðslu umsókna um byggingarleyfi í Sléttuhreppi og annað af þeim toga og eftirlit þar yrði samkvæmt byggingarreglugerð og af þeirra hálfu. Á árinu 1992 var það kynnt í svokallaðri Hornstrandanefnd að nauðsynlegt væri að hafa byggingarfulltrúa fyrir friðlandið og taka á þessum málum vegna þess að allir vita hversu mikilvægt það er að á slóðum sem þessum sé öllu haldið til haga og ekki heimilað eða látið líðast að byggt sé þar samkvæmt geðþótta þeirra sem telja sig eða eru tengdir staðnum.

Um það bil sem þessar ábendingar komu fram í Hornstrandanefnd var strax í sama mánuði ákveðið af hálfu félmrn. að sameina Sléttuhrepp Ísafirði og sú tilkynning fór til Ísafjarðarkaupstaðar. Um þá ákvörðun varð strax nokkur ágreiningur og óróleiki af hálfu þess fjölmenna hóps sem á tengsl við þessa byggð og taldi að þarna væri að verða afdráttarlaus breyting sem e.t.v. yrði til hins verra.

Ég vil segja að á slíkum stundum er afar mikilvægt að hafa góð samskipti og upplýsingar, leita samráðs við þá sem eiga hlut að máli, reyna eins og unnt er að leysa ágreining sem uppi er og hlusta á raddir þeirra sem telja að einhver óhjákvæmileg breyting sé að verða eða gerningur sem ekki verði aftur tekinn og sé e.t.v. til óheilla.

Það voru margir sem vildu bíða eftir niðurstöðu svokallaðrar samráðsnefndar Skipulags ríkisins sem sett var á laggirnar á sínum tíma og átti að fjalla um stefnumörkun í skipulags- og byggingarmálum Sléttuhrepps og fyrrum Grunnavíkur- og Snæfjallahrepps fyrir árin 1995--2015. Sú greinargerð kom reyndar fram í vor. Hún ber dagsetninguna 17. maí 1995 og þar er fjallað um stefnumörkun í þessu byggðarlagi, bæði hvað varðar stjórnsýsluna og allt það sem lýtur að náttúruvernd, skiptingu svæðisins, bæði eftir landslagi og landnotkun, farið yfir það hverjir skyldu verða helstu dvalar- og viðkomustaðir, menningarminjar o.s.frv. Ástæðan er ekki síst aðsókn ferðamanna inn á svæðið sem hefur farið vaxandi undanfarin ár. Ferðamenn koma að skoða hina stórbrotnu náttúru, fuglalíf í fuglabjörgum og menningarminjar auk þess að það er mjög sérstakt að heimsækja slíka byggð þar sem mikið athafnalíf var á árum áður.

Það er skemmst frá því að segja að ályktað var um þetta mál 1993 af hálfu þeirra aðila sem töldu sig hafa með þessi mál að gera. Því hafði verið mótmælt árið 1992 að sameining færi fram, en hins vegar var það ályktað af hálfu Landeigendafélags Sléttuhrepps og Grunnavíkurhrepps að það yrði leitað eftir því að óska eftir viðræðum við umhvrn. um framtíð Sléttuhrepps, en þá var það umhvrn. sem beitti sér í málinu. Þá var mótmælt harðlega þeim ætlunum sem fyrirhugaðar voru um sameiningu og þar var því lýst yfir að Sléttuhreppur væri nú friðlýst svæði og eðlilegt að það heyrði fyrst og fremst undir umhvrn. eða Náttúruverndarráð, svo sem verið hefur, og Hornstrandanefnd sem í eiga sæti fulltrúar Náttúruverndarráðs og Landeigendafélags Sléttu- og Grunnavíkurhrepps og færu þeir áfram með stjórn á svæðinu í umboði þessara aðila. Óskað var eftir fundi með umhvrn. vegna þessa.

Það er alveg ljóst að viðbrögðin sem urðu í þessu máli voru ekki síst þau að þarna var verið að hverfa frá ákveðinni fjarlægðarstjórn. Þarna hafa komið að átthagafélög, landeigendur o.s.frv. og togstreitan milli þess að vera út af fyrir sig þarna norður á hjara veraldar og það að heyra undir kaupstað var í algleymingi.

Það hefur hins vegar gerst eftir samráð þessara aðila og samskipti og viðræður og nú síðast í sumar í félmrn., þá var það upplýst að fundur var haldinn á þessu vori í maí í Landeigendafélagi Sléttuhrepps um sameiningu Sléttuhrepps. Þar var einmitt fjallað um öll þau mál sem ég hef reynt að drepa hér á, um það að bæjarstjórn Ísafjarðar og félagið geri samning um hvernig sameiningu verði best háttað, vakin athygli á að landið er bæði í einka- og ríkiseigu, að Átthagafélag Sléttuhrepps á Ísafirði og í Reykjavík leigir kirkju og íbúðarhús á Stað, að Hornstrandanefnd er samstarf Landeigendafélags Sléttuhrepps og Grunnavíkur og Náttúruverndarráðs og Náttúruverndarráð sér um tjaldstæði og annað sem þarna er. Það var ákveðið að þetta félag styddi hugmyndir um sameiningu Sléttuhrepps og Ísafjarðar, en ósk um að samráð verði áfram haft og Landeigendafélagið yrði umsagnaraðili um nýbyggingar. Það á eftir að ganga frá þessu máli. Ég hef engar áhyggjur af því að menn muni ekki koma sér saman um hvernig haldið verði á þessum málum. Þetta er ekki stórt mál í sölum Alþingis þegar sameina á fjarlægt byggðarlag sem enginn býr í við kaupstaðinn á svæðinu sem þar að auki flest byggðarlög í grenndinni eða réttara sagt, Snæfjallahreppi, hafa þegar verið sameinuð. En þetta er nokkuð afdráttarlaus gerningur sem hlýtur að koma við hjartað í mér, sem er ættuð frá Sléttu í Sléttuhreppi. Ég er afar þakklát fyrir að það var leitað leiða til þess að þessi gerningur gerðist með mjúkum hætti og samningum og góðum samskiptum. Þannig að þegar þetta frv. er flutt nú, á ég ekki von á hörðum viðbrögðum neins staðar né erfiðleikum á vinnslu þess í félmn. og fyrir það er ég afar þakklát.