Rannsókn á launa- og starfskjörum landsmanna

Þriðjudaginn 07. nóvember 1995, kl. 15:17:29 (765)

1995-11-07 15:17:29# 120. lþ. 29.13 fundur 109. mál: #A rannsókn á launa- og starfskjörum landsmanna# þál., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur


[15:17]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Beiðni mín um að taka hér til máls byggðist m.a. á því að hugsanlega ætti þetta mál heima í félmn. en það kann að vera að það eigi heima annars staðar. Það er ekki gott að átta sig á því. En í sjálfu sér get ég tekið undir inntak þessarar tillögu að það er mikil nauðsyn á því að auka upplýsingastreymi um stöðu launamála hér á Íslandi og sannast að segja þá er það samfélagi okkar nánast til vansa hversu erfitt er að hafa yfirsýn yfir launamál í landinu. Það var einhvern tímann fyrir einhverjum áratugum gert samkomulag um kjararannsóknarnefnd sem starfar enn en rannsókn hennar nær til svo takmarkaðs hóps launafólks að heftið sem þeir gefa út ársfjórðungslega gefur afskaplega takmarkaða mynd af launaþróuninni. Mín hugmynd er því sú að í stað þess að gera eina rannsókn eins og þessi tillaga gengur út á, þá þyrfti að koma hér upp reglubundnum upplýsingum og reglubundnum rannsóknum á þróun launamála í landinu og ýmsu öðru sem snýr að kjörum hinna ýmsu starfsstétta.

Mér gafst kostur á því fyrir nokkrum árum að heimsækja stofnun í Svíþjóð sem heitir Arbetslivscentrum og er eins konar rannsóknarstofnun atvinnulífsins þar í landi. Hún er þannig rekin að verkalýðshreyfingin á einn þriðja, ríkisvaldið einn þriðja og vinnuveitendur einn þriðja. Við þessa stofnun fara fram ýmiss konar rannsóknir á vinnumarkaði, vinnuaðbúnaði, vinnuaðstæðum, vinnuþróun, orsökum og afleiðingum atvinnuleysis og launamálum af ýmsu tagi. Það er mín skoðun að þar sé um þætti að ræða sem við þurfum að efla rannsóknir á í okkar samfélagi, ekki síst eftir að atvinnuleysið hélt innreið sína. Ég hygg að ef slík rannsókn færi fram eins og hér er beðið um, kæmi margt á óvart. Ég held reyndar að það sem kæmi okkur mest á óvart væri ekki endilega í hinum opinbera geira, heldur ekki síst úti á hinum almenna vinnumarkaði.

Hér á hinu háa Alþingi hafa verið lagðar fram á undanförnum árum ótal fyrirspurnir sem snúa að ýmsum þáttum launamála ríkisins, um heildarlaun, um ýmsar aukagreiðslur, um dagpeninga, ferðalög og sitthvað sem snýr að hinu opinbera. En hvernig kaupin gerast á eyrinni úti á hinum almenna vinnumarkaði, það vitum við miklu minna um. Þar ríkir ákveðin launaleynd og leynd í samningum sem er mjög erfitt að átta sig á og erfitt að fá upplýsingar um og eru m.a. hluti af því launamisrétti sem hér ríkir og ekki síst beinist að konum. Ég tek því undir að það er mjög þarft að safna upplýsingum og gera ítarlega könnun á samsetningu íslenska launamarkaðarins en mín skoðun er sú að það sé ekki nóg að gera það einu sinni, það þarf að vera samfelld skoðun á þessu.

Hv. síðasti ræðumaður og sá sem mælti fyrir tillögunni, hv. þm. Ögmundur Jónasson, fullyrti að launamunur hefði aukist að undanförnum árum. Það er auðvitað ákaflega erfitt að fullyrða það og fer eftir því yfir hvaða tímabil við erum að horfa. Við höfum séð það á þeim tölum sem við höfum varðandi launamun kynjanna að hann hefur aukist ef eitthvað er. En ég er ekki viss um að ef maður tæki hæstu og lægstu laun að það bil hafi endilega vaxið. Ég hef einfaldlega ekki upplýsingar sem leyfa mér að fullyrða slíkt. Hins vegar er það alveg ljóst að fátækt hefur aukist, kjör hafa versnað og það er miklu stærri hópur nú en var fyrir tiltölulega fáum árum sem einfaldlega getur ekki séð sér farborða. Og það á sér m.a. rætur í þeim breytingum sem hér hafa átt sér stað á undanförnum árum í samdrætti og atvinnuleysi og ýmsum erfiðleikum, skuldasöfnun heimilanna og fleiru sem endurspeglast hjá Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar sem á undanförnum tveimur árum hefur orðið að tvöfalda aðstoð sína til reykvískra fjölskyldna. Sú aðstoð hefur tvöfaldast á undanförnum árum og það kom fram í heimsókn okkar nokkurra þingmanna til Félagsmálastofnunar Reykjavíkurborgar fyrir nokkrum dögum að í þeim hópi sem þar nýtur aðstoðar er fullvinnandi fólk. Fjölskyldur sem ráða einfaldlega ekki við það á þeim lágu launum sem hér eru greidd að sjá sér og sínum farborða. Þetta er auðvitað nöturleg þróun sem að þarf að leita skýringa á og kortleggja, þótt við getum auðvitað gefið okkur vissar skýringar eins og minnkandi yfirvinnu og fleira slíkt. Það þarf líka að fara fram ítarleg rannsókn á orsökum hinna lágu launa sem hér eru greidd og eru eins og hér hefur komið fram, farin að valda verulegri óánægju í samfélaginu. Það þarf að fara rækilega ofan í það, hvers vegna íslenskt atvinnulíf getur ekki greitt betri laun, og ef svo er hvað það þýðir fyrir framtíðina. Við erum ekki lengur einangraður vinnumarkaður. Við erum orðin hluti af stórum vinnumarkaði þar sem að er streymi til og frá landinu og fólk getur auðveldlega leitað annarra kosta. Það er mjög alvarlegt mál fyrir íslenskt samfélag ef hundruð karla og kvenna leita gæfunnar í öðrum samfélögum, hvort sem þar er um að ræða ófaglært verkafólk eða fólk sem hefur aflað sér meiri menntunar. Það er jafnmikil eftirsjá í þessu fólki hvaðan sem það kemur og hvert sem það er. Þess vegna er það mjög mikilvægt að átta sig á hinum raunverulegu orsökum. Vinnuveitendur hafa bent á margar skýringar, m.a. var nýlega grein í fréttabréfi Vinnuveitendasambandsins þar sem verið var að skýra þetta ástand samkvæmt þeirra skilningi. Ég hef ekki tíma til að tíunda það hér enda tíma mínum alveg að ljúka.

Það væri margt hægt að segja um þessi mál, um launakerfið og um aukagreiðslurnar sem hér tíðkast. Við höfum marglýst því yfir hér, kvennalistakonur, að við teljum launakerfi ríkisins handónýtt og það leiðir auðvitað til þess að fólk leitar ýmissa leiða eins og að taka þátt í því svarta hagkerfi sem hér tíðkast. Því miður eru þeir allt of margir, jafnvel allur almenningur, sem tekur þátt í skattsvikum með því að borga ekki virðisaukaskatt af ýmiss konar þjónustu.

Hæstvirtur forseti. Tíma mínum er lokið en ég ítreka það sem ég sagði hér í upphafi að við þurfum samfelldar rannsóknir og samfelldar upplýsingar um íslenska launakerfið og stöðuna á íslenskum vinnumarkaði.