Rannsókn á launa- og starfskjörum landsmanna

Þriðjudaginn 07. nóvember 1995, kl. 15:56:35 (774)

1995-11-07 15:56:35# 120. lþ. 29.13 fundur 109. mál: #A rannsókn á launa- og starfskjörum landsmanna# þál., GÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur


[15:56]

Guðni Ágústsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Þegar ég talaði um að semja um það sem ekkert er, átti ég auðvitað við þau lágmarkslaun sem menn leyfa sér að semja um. Reyndar eru það tveir aðilar sem gera það. Það gerist í karphúsinu og það er það sem ég átti við. Þeir semja auðvitað um ýmislegt sem er þar yfir ofan og kannski ásættanlegt. En þetta stingur mest í augu.

Hvað lágtekjuhagfræðina varðar, þá óttast ég og hef sagt það fyrr úr þessum stól og segi það enn, að hún hefur eiginlega tekið út úr þjóðfélaginu ákveðinn hluta þjóðfélagsþegnanna. Þeir eru ekki með. Af þeirra hálfu eru engin umsvif vegna þess hve þeir eru illa settir í kjörum. Kannski eru þetta 15% af þjóðinni, kannski eru það 20%, en a.m.k. er þetta stór hópur og fer stækkandi. Þess vegna hef ég stundum spurt hvort ekki eigi að flytja inn hagfræðinga sem sennilega væri full þörf á því að líklega hafa okkar menn lært lexíuna vitlaust, þeir sem við notumst við, þá gætu þeir komist að þeirri niðurstöðu að með breyttri launahagfræði gætum við náð nýjum og mikilvægum þrótti. Þetta er það sem ég á við hér, hv. þm., og ég ítreka það auðvitað að ég held að það þurfi að fara mjög vandlega yfir þessi mál og kanna það hvort við getum ekki náð hjólum atvinnulífsins af stað. Kannski gerir álverið það, ég veit ekki um það, ég held að það þurfi þó meira til, en við þurfum að fá hjól atvinnulífsins af stað með einhverjum hætti og einhverja nýja hugsun í þetta þjóðfélag sem við búum í. Það snýr bæði að verkalýðshreyfingunni, atvinnulífinu og þinginu sem hér situr og einnig að ríkisstjórninni minni.