Erfðabreyttar lífverur

Þriðjudaginn 07. nóvember 1995, kl. 16:08:32 (776)

1995-11-07 16:08:32# 120. lþ. 29.14 fundur 117. mál: #A erfðabreyttar lífverur# frv., umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur


[16:08]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um erfðabreyttar lífverur sem flutt er á þskj. 129 og er 117. mál þingsins. Frv. var lagt fram á 119. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu. Frv. er nú endurflutt í nær óbreyttri mynd. Frv. er samið m.a. til að uppfylla skyldur þær sem íslenska ríkið tekur á sig með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Í XX. viðauka EES-samningsins eru tvær tilskipanir sem fjalla um erfðabreyttar lífverur, þ.e. tilskipun ráðsins um einangraða notkun erfðabreyttra örvera og tilskipun ráðsins um þau tilvik er erfðabreyttum lífverum er sleppt af ásettu ráði út í umhverfið. Báðar þessar tilskipanir eru frá 23. apríl 1990. Samkvæmt sérstakri bókun í XX. viðauka áttu nauðsynlegar ráðstafanir til þess að fara að þessum tilskipunum að koma til framkvæmda frá 1. jan. sl. þannig að við erum þegar nokkuð sein með að koma fram þessari löggjöf. Annars staðar á Norðurlöndin hefur þegar verið sett löggjöf um erfðabreyttar lífverur þar sem tekið er mið af áður tilgreindum tilskipunum.

Í íslenskum lögum er ekki sérstaklega fjallað um erfðabreyttar lífverur. Hins vegar eru fjölmörg lagaákvæði sem taka til lífvera og örvera án tillits til þess hvort þær eru erfðabreyttar eða ekki. Nefndi ég nokkur þeirra er ég mælti fyrir frv. á síðasta löggjafarþingi. Frv. það sem hér liggur fyrir hefur ekki áhrif á gildissvið annarra laga sem taka til lífvera og örvera en ekki er óhugsandi að reynt geti á reglu frv. samhliða ákvæðum þessara laga.

Eins og fram kom er ég mælti fyrir frv. á sl. vori er starfsemi með erfðabreyttar lífverur á Íslandi ekki umfangsmikil. Vitað er um starfsemi með erfðabreyttar örverur hjá Líffræðistofnun háskólans, Iðntæknistofnun og Tilraunastöð háskólans á Keldum. Víða erlendis er þegar hafin mjög umfangsmikil notkun og framleiðsla á erfðabreyttum lífverum og því er spáð að hún muni aukast á komandi árum. Íslensk löggjöf sem tryggir framkvæmd fyrrgreindra tilskipana er því nauðsynleg, ekki eingöngu til að uppfylla skyldur er varða samningin um Evrópska efnahagssvæðið heldur einnig til að tryggja eftirlit með öruggri starfsemi og markaðssetningu á erfðabreyttum lífverum eða vörum sem innihalda erfðabreyttar lífverur á Íslandi. Starfsemi og markaðssetning á erfðabreyttum lífverum og vörum sem innihalda þær er á Íslandi með öllu eftirlitslaus og er því mikilvægt að henni sé settur lagarammi.

Markmið frv. kemur fram í 1. gr. þess, en það er að vernda náttúru landsins, vistkerfi, plöntur og heilsu manna og dýra fyrir skaðlegum og óæskilegum áhrifum erfðabreyttra lífvera. Samkvæmt frv. er lögunum ætlað að gilda um alla notkun og starfsemi með erfðabreyttar lífverur svo og framleiðslu þeirra og geymslu. Enn fremur tekur frv. til starfsaðstöðu og rannsókna þar með talið meðhöndlunar úrgangs. Jafnframt nær frv. til innflutnings, markaðssetningar, sölu og annarrar afhendingar á erfðabreyttum lífverum, hvort sem afhendingin fer fram í vísindalegum tilgangi eða viðskiptalegum. Frv. gerir ráð fyrir að lögin gildi einnig um flutning á erfðabreyttum lífverum þótt það sé undanskilið gildissviði framangreindra tilskipana og er það í samræmi við danska og norska lagaframkvæmd.

Í frv. er gert ráð fyrir að umhverfisráðherra fari með yfirstjórn málflokksins en að Hollustuvernd ríkisins hafi yfirumsjón með framkvæmd laganna og leyfisveitingum auk þess að stofnunin hafi umsjón með eftirliti er varðar notkun og starfsemi með erfðabreyttar lífverur. Gert er ráð fyrir að umhvrh. sé heimilt að ákveða með reglugerð að fenginni umsögn félmrh., heilbrrh., menntmrh. og/eða landbrh. að öðrum stjórnvöldum en Hollustuvernd ríkisins verði falið að sinna eftirliti með tilteknum þáttum starfsemi með erfðabreyttar lífverur undir yfirumsjón Hollustuverndarinnar. Að baki þessari reglugerðarheimild liggja hagkvæmnissjónarmið um skipulag og framkvæmd á eftirliti þar sem nú er til staðar þekking hjá öðrum stjórnvöldum á þessu sviði sem hægt væri að nýta við framkvæmd þess.

Samkvæmt 6. gr. frv. skal umhvrh. skipa fimm manna ráðgjafanefnd. Henni er ætlað að vera stjórnvöldum til ráðgjafar um framkvæmd laganna. Um er að ræða sérfræðinefnd sem starfa mun samkvæmt ákveðnum starfsreglum sem ráðherra setur. Nefndin mun m.a. vera umsagnaraðili er varðar leyfisveitingar um notkun og starfsemi með erfðabreyttar lífverur.

Sú leið hefur verið valin í lagafrv. að veita stjórnvöldum rúmar heimildir til að setja reglugerðir um frekari útfærslu laganna. Er þetta hliðstætt því sem gert hefur verið við lagasetningu vegna erfðabreyttra lífvera í helstu nágrannalöndum okkar. Þróun í starfsemi með erfðabreyttar lífverur er hröð og starfsemin flókin. Því er nauðsynlegt að stjórnvöld hafi svigrúm til að aðlaga framkvæmd laganna þeirri þróun eins og kostur er innan þeirra marka sem lögin setja.

Samkvæmt bráðabirgðaákvæði í frv. er ráðherra heimilt að auglýsa gildistöku tilskipana ráðs EBE um erfðabreyttar lífverur í heild sinni eða að hluta til þar til nánari ákvæði um framkvæmd laganna hafa verið sett í reglugerð.

Frv. það sem hér um ræðir skiptist í átta kafla. Í I. kafla er fjallað um markmið og gildissvið laganna en í II. kafla er að finna orðskýringar við lögin og í III. kafla er fjallað um stjórnsýsluframkvæmd laganna. Í IV.--VI. kafla frv. er fjallað um mismunandi notkun og starfsemi með erfðabreyttar lífverur. IV. kaflinn tekur á svokallaðri afmarkaðri notkun. Hér er átt við alla starfsemi með erfðabreyttar lífverur þar sem gera þarf sérstakar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að þær komist í snertingu við fólk, umhverfi eða aðrar lífverur. Þetta á við starfsemi með erfðabreyttar örverur á rannsóknastofum og öðrum sérstaklega afmörkuðum athafnasvæðum.

Kafli V fjallar um sleppingu eða dreifingu erfðabreyttra lífvera. Hér er átt við þegar þeim er sleppt út í umhverfið án þess að beitt sé sérstökum ráðstöfunum til að hindra að þær geti haft áhrif á fólk, aðrar lífverur eða umhverfi. Hér er fyrst og fremst um að ræða tilvik þegar slepping eða dreifing á sér stað í rannsóknar- og/eða þróunarskyni eða í hverju öðru skyni en til markaðssetningar, t.d. til rannsókna á erfðabreyttum plöntum á afmörkuðum en ekki einangruðum rannsóknasvæðum.

Í VI. kafla er fjallað um markaðssetningu erfðabreyttra lífvera. Með markaðssetningu er átt við hvers kyns afhendingu þeirra eða vöru sem hefur þær að geyma, hvort sem afhendingin er gegn gjaldi eða ekki. Í kaflanum er kveðið á um að óheimilt sé að markaðssetja erfðabreyttar lífverur eða vörur sem innihalda þær án leyfis Hollustuverndar ríkisins. Ef hins vegar liggur fyrir leyfi útgefið af lögbæru yfirvaldi í öðru landi á EES-svæðinu til markaðssetningar erfðabreyttra lífvera eða vöru sem inniheldur þær jafngildir sú leyfisveiting leyfi til markaðssetningar hér á landi. Þrátt fyrir þessi ákvæði er ráðherra heimilt að fengnum tillögum Hollustuverndar ríkisins og umsögn ráðgjafanefndarinnar að banna eða takmarka hér á landi markaðssetningu tiltekinna erfðabreyttra lífvera eða vöru sem inniheldur þær ef hætta er á að markaðssetningin hafi í för með sér skaðleg áhrif á heilsu manna eða umhverfi eða ef leyfisveitingin samræmist ekki markmiðum laga þessara eða annarra laga.

[16:15]

Í kafla VII er að finna ýmis almenn ákvæði frv. en þar er m.a. að finna heimild til setningar gjaldskrár vegna meðferðar umsókna hjá Hollustuvernd ríkisins. Jafnframt er heimilt að krefja umsækjanda um endurgreiðslu alls kostnaðar sem fellur til ef nauðsyn krefur að fram fari sérstakar rannsóknir eða úttektir áður en afstaða er tekin til umsóknarinnar. Í VIII. kafla er loks að finna þvingunarúrræði stjórnvalda, málsmeðferð og viðurlög.

Í fskj. með frv. sem er umsögn fjárlagaskrifstofu fjmrn. kemur fram að gera má ráð fyrir kostnaðarauka ríkissjóðs við framkvæmd lagaákvæðanna um 3--5 millj. kr. hið lægsta. Framkvæmdin verður að mestu á ábyrgð Hollustuverndar ríkisins en sú stofnun hefur að undanförnu þurft að taka á sig mörg ný verkefni, ekki síst tengd framkvæmd á ákvæðum EES-samningsins. Ekki verður undan því ekist að bæta Hollustuvernd ríkisins þennan kostnaðarauka og í raun nauðsynlegt að taka á fjárhagsvanda þeirrar stofnunar. Rætt verður um það mál á öðrum vettvangi en við framsögu þessa frv. Ég taldi þó nauðsynlegt að vekja athygli á þessu áliti fjmrn. við 1. umr. um frv. hér.

Hæstv. forseti. Ég hef lokið framsögu minni um frv. til laga um erfðabreyttar lífverur. Ég leyfi mér að leggja til að frv. verði að lokinni umræðunni vísað til 2. umr. og umfjöllunar hv. umhvn. Ég bendi á að umhvn. hefur þegar leitað umsagna um þetta frv. Þær breytingar sem gerðar hafa verið á frv. í millitíðinni eru einungis málfarslegar og ekki þess eðlis að senda þurfi frv. til umsagnar á ný ef ekki koma fram önnur og ný sjónarmið. Ég legg áherslu á að afgreiðslu málsins verði hraðað eftir föngum í ljósi þess sem ég hef áður nefnt og að lögtaka ákvæðis þessa frv. er hluti af okkar skuldbindingum gagnvart samningum um hið Evrópska efnahagssvæði en ítreka að öðru leyti að ég óska þess og veit að meðferð málsins í meðförum hv. umhvn. hlýtur að þurfa að verða vönduð og ítarleg en bið um að reynt verði að hraða henni eins og kostur er.