Erfðabreyttar lífverur

Þriðjudaginn 07. nóvember 1995, kl. 17:06:29 (780)

1995-11-07 17:06:29# 120. lþ. 29.14 fundur 117. mál: #A erfðabreyttar lífverur# frv., umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur


[17:06]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst segja til þess að útiloka allan misskilning að svar mitt við fyrri ræðu hv. þm. bar ekki að skilja sem svo að þetta mál sem hér er til umræðu sé svo sem ekki neitt. Ég held að ég hafi sagt að það hafi lítið reynt á þessi mál hjá okkur enn þá og það sé ekki mikil starfsemi í gangi á tilraunastofum okkar eða í rannsóknum og atvinnulífi varðandi meðferð á erfðabreyttum lífverum. En ég held að ég hafi líka sagt að það mætti búast við því að það færi vaxandi á næstu árum ef við höldum áfram að vinna rannsóknarverkefni og getum rekið öfluga starfsemi á því sviði sem ég vona sannarlega að verði. Ég vil að það sé alveg skýrt að það var aldrei ætlunin að gera lítið úr málinu.

Ég sagði hins vegar að í þessu frv. væri kannski fyrst og fremst tekið á þeim tæknilegu atriðum sem varða eftirlitsþáttinn og hvernig mögulegt er að gera þeim stofnunum og þeim aðilum af hálfu stjórnvalda sem eiga að fylgjast með eftirliti fært að framkvæma það. Það er kannski megintónninn í frv. og það er það sem hv. þm. gagnrýnir að sé ekki nægjanlegt. Það þurfi að taka á málinu víðtækar og koma þá frekar að siðferðilega þættinum.

Ég tek undir það með hv. þm. og gerði það líka í umræðunum í vor að það er auðvitað stórt, siðferðilegt mál hvernig þessi mál þróast, hvernig áhrif mannskepnan með þekkingu sinni og tækni getur haft á framþróun --- ég held að hv. þm. hafi sagt stafrófs lífsins. Það má taka undir það með honum að allt er þetta hugsanlegt og við vitum að margvísleg tækni er nú þegar fyrir hendi á því sviði. Það er því full ástæða til að fara fram með varúð og aðgát.

Hv. þm. bendir á að Norðmenn hafi fjallað um þetta með nokkuð öðrum hætti en við, hvort sem það á heima í þessu frv. eða ekki. Ég hef ekki skoðað það sérstaklega en ég vonast til að þeir embættismenn ráðuneytis og stofnana sem unnið hafa að málinu hafi litið til þess hvernig að þeim málum er staðið í kringum okkur. Og það kemur fram í greinargerð og kom fram í framsöguræðu minni áðan að málið byggir að verulegu leyti á því hvernig aðrar löggjafarsamkomur í nágrannalöndum hafa tekið á málinu, en þá er trúlega fyrst og fremst átt við eftirlitsþáttinn. Ég get tekið undir með hv. þm. að þetta er ekkert lítill hluti af þessu máli í heild sinni, spurningin er bara hvar það á heima. Á það heima í þessari löggjöf eða með eftirlitsatriðunum sem við erum fyrst og fremst að reyna að taka á eða fjalla um? Eða er þetta mál sem á að taka fyrir í víðara samhengi? Og þá vil ég t.d. nefna að ýmislegt sem gerist á því sviði heyrir vafalaust undir heilbrigðismál. Nærtækt dæmi hjá okkur í því efni er tæknifrjóvgun og slíkir hlutir, en þar hafa Íslendingar nýlega haslað sér völl. Slíkt vekur líka siðfræðilegar spurningar. Þá er auðvitað líka spurning hvort þetta heyrir ekki á vissan hátt undir dómsmrn. og dómsmálayfirvöld án þess að ég sé nokkuð á þessu stigi að vísa því frá að málið þurfi að flytja í samhengi með því frv. sem hér er lagt fram og er flutt af umhverfisyfirvöldum og fjallar um eftirlitsþátt þeirra. En á einhverju stigi eða sviði þurfum við að taka þessa umræðu. Hún hefur, eins og hv. þm. benti á, verið öflug í nágrannalöndunum og hefur reyndar verið nokkur hér á landi líka en kannski frekar í tengslum við ýmsa þætti á sviði heilbrigðismála eins og ég nefndi áðan.

Hv. þm. spurði hvort ráðherra teldi ekki að þetta væri mál sem yrði að fjalla um í samhengi við önnur mál. Ég get vel tekið undir það og tel að það séu mörg siðfræðileg mál sem þessu tengjast. En ég velti því fyrir mér hvernig og hvenær löggjafinn á að taka á þeim málum sérstaklega.