Landgræðsla

Þriðjudaginn 07. nóvember 1995, kl. 17:17:14 (783)

1995-11-07 17:17:14# 120. lþ. 29.15 fundur 93. mál: #A landgræðsla# (innfluttar plöntutegundir o.fl.) frv., Flm. HG
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur


[17:17]

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um landgræðslu, nr. 17/1965, með síðari breytingum. Hliðstætt mál var flutt á síðasta þingi af þeim sem hér talar og hv. þm. Kristínu Einarsdóttur og var þá vísað til nefndar en hlaut ekki afgreiðslu og er nú flutt öðru sinni. Nú eru flutningsmenn málsins með mér hv. þm. Kristín Halldórsdóttir, Össur Skarphéðinsson og Ásta R. Jóhannesdóttir.

Frv. þetta, um breytingu á lögum um landgræðslu, snertir aðallega notkun innfluttra plantna í landgræðslu og hvernig með skuli farið. Í gildandi löggjöf er ekki tekið á þeim þætti og því er um nýmæli að ræða. Markmiðið með frv. er að reynt verði að tryggja að notkun innfluttra plantna til landgræðslu falli að stefnu um gróðurvernd og að alþjóðlegum skuldbindingum að verndun líffræðilegrar fjölbreytni. Eins og nú háttar málum má segja að hver og einn geti tekið sér sjálfdæmi um að breyta gróðurríkinu að eigin geðþótta, t.d. á afréttum landsins sem eru þó ekki háðar einkaeignarrétti.

Ég nefndi hér samninginn um verndun líffræðilegrar fjölbreytni sem gerður var endanlega í Rio de Janeiro og byrjaði að safna undirskriftum undir hann þá og Ísland var með fyrstu ríkjum sem staðfesti samninginn. Þar er að finna mörg atriði sem snerta með beinum eða óbeinum hætti það efni sem er fjallað í um þessu frv. eins og það sem segir í 8. gr. þessa samnings, með leyfi forseta:

,,Hver samningsaðili skal eftir því sem hægt er og viðeigandi koma í veg fyrir að fluttar séu inn erlendar tegundir sem ógna vistkerfum, búsvæðum eða tegundum, að öðrum kosti stjórna þeim eða uppræta þær.``

Ég vænti að þetta sýni með ljóslega að í þessum alþjóðasamningi er beinlínis fjallað um atriði sem varða þetta frv.

Við flm. höfum tekið inn fskj. með þessu frv., álit sérstaks starfshóps, sem stofnað var til að frumkvæði fyrri ríkisstjórnar, varðandi landbúnað og ég átti sæti í ásamt fleiri alþingismönnum sem til voru kvaddir en formaður þessa starfshóps var starfsmaður í landbrn., Sveinbjörn Eyjólfsson. Í þessum hópi störfuðu 19 einstaklingar úr ýmsum áttum í samfélaginu, margir sérfróðir en einnig fulltrúar almannavalds. Í þessum starfshópi tókst ágæt samstaða um málsmeðferð varðandi ýmis þau álitaefni sem hafa verið mikið til umræðu og fólk hefur talsvert greint á um ef marka má hina opinberu umræðu í samfélaginu undanfarin ár. Ég tel að í álitsgerð starfshópsins um þessi efni sé að finna mjög verðmæta leiðbeiningu um það hvernig eðlilegt sé að fara með þessi efni og ég hef leyft mér að færa í búning ásamt öðrum hv. flm. ýmis efni sem þar er vikið að. Ég ætla ekki að fara að lesa fskj. í heild sinni en ég leyfi mér, virðulegi forseti, að vitna til álitsgerðar þar sem segir frá þessum starfshópi stjórnvalda:

,,Enn sem komið er hafa innfluttar tegundir valdið lítilli röskun á íslenskum gróðurlendum en mörg dæmi eru um að slíkar tegundir séu að breiðast út. Gildandi löggjöf um innflutning plantna tekur ekki til eftirlits- og varúðarráðstafana vegna hugsanlegrar ógnunar við vistkerfi landsins... Umræða um notkun á innfluttum tegundum og varúðarráðstafanir þeirra vegna þarf að vera þáttur í gerð landgræðslu- og skógræktaráætlana sem vinna á fyrir opnum tjöldum. Í slíkum áætlunum þarf að taka afstöðu til einstakra tegunda með hliðsjón af þeim markmiðum sem stefnt er að á hverju svæði fyrir sig.``

Og það segir einnig svo að vitnað sé öðru sinni í tillögur starfshópsins sem voru samhljóða: ,,Innfluttum tegundum verði ekki dreift til notenda fyrr en lagt hefur verið mat á hugsanlegan skaða sem leitt gæti af dreifingu viðkomandi tegundar... Sett verði löggjöf um innflutning tegunda og um útrýmingu skaðlegra tegunda. Þar verði m.a. tekið tillit til skuldbindinga í rammasáttmála um verndun fjölbreytileika lífs og samþykkta Evrópuráðsins. Kveðið verði á um það hver beri ábyrgð á því að meta hugsanlegan skaða af innfluttum tegundum áður en dreifing þeirra hefst.``

Í þessum frumvarpsgreinum er markaður farvegur fyrir það hvernig á skuli haldið. Bæði er víkkuð tilgangsgrein laganna í 1. gr. en síðan í öðrum greinum vikið að því hverjir skulu um fjalla áður en tegundir eru teknar til nota í landgræðslu og þá þannig að menn séu nokkuð vissir um að ekki sé verið að hætta til út frá þeim mælikvörðum sem samstaða er um að draga.

Í greinargerð með frv. er vikið að reynslunni erlendis í þessum efnum og hún er víða þess efnis að fyllsta ástæða er fyrir okkur Íslendinga til að fara yfir þau efni og sækja okkur reynslu erlendis frá til viðbótar við þau viðfangsefni sem hér er verið að fást við nú þegar og snerta þetta efni. Það eru nefnd mörg þekkt dæmi í greinargerð um tegundir sem menn hafa algerlega misst stjórn á og sem valda því að gróðurlendum sem fyrir voru hefur verið raskað stórfellt þannig að við lítt verður ráðið í þeim efnum og menn sjá eftir á að betur hefði verið hægar farið í sakirnar eða ekki lagt upp. Við höfum alveg hliðstæður í dýraríkinu þó að ég sé ekki að setja það á sama bás því að það er annars eðlis hvernig dreifingunni er háttað en þó er það í raun alveg sama. Þar höfum við Íslendingar heldur betur brennt okkur í sambandi við það að missa laus dýr úr búrum sem eru orðin skaðvaldur að flestra mati í lífríki landsins og a.m.k. er varið stórum upphæðum til að stemma stigu við fjölgun og þar er ég með minkinn í huga sem dæmi. Þetta gildir almennt um lífverur og tengist því frv. sem við vorum að ræða áðan þar sem við enn nýjan vanda er að fást í þessum efnum og kannski miklu stærri en varðar hinar náttúrulegu tegundir því að eitt af því sem rætt er í sambandi við erfðabreyttar lífverur er að þar komi til lífverur sem menn ráða ekkert við þar sem ekki eru lengur til náttúrulegir óvinir eins og kallað er, þ.e. önnur dýr eða aðrar lífverur sem halda þeim í skefjum í líffræðilegu samhengi og menn missa stjórnina á þessu. Ég veit ekki betur en þetta sé viðfangsefni kvikmyndaiðnaðarins í ýmsum greinum hvernig slíkt geti gerst en það eru hugmyndir sem eru engar fjarstæðuhugmyndir heldur gætu orðið veruleiki morgundagsins fyrr en varir.

Virðulegi forseti. Hér er sérstakt ákvæði til bráðabirgða um að endurskoða lögin um gróðurvernd og landgræðslu í heild sinni og hvatt til þess að það verði gert og talin upp fjölmörg atriði sem varðar þetta efni. Það er hins vegar það stórt verkefni og mun taka tíma að við flm. þessa frv. töldum rétt að fara yfir þetta svið sérstaklega og gera tillögur um það þannig að hægt sé að bregðast við og meta af hv. Alþingi hvort ekki sé rétt að lögfesta ákvæði í þá veru sem hér er lagt til til þess að taka á þeim efnum sem þar er um að ræða. Ég held hins vegar að það sé afar brýnt verkefni og gott ef ekki hafa einhver orð fallið um það af framkvæmdarvaldinu nýlega að þörf væri á að endurskoða lögin um gróðurvernd og landgræðslu frá 1965 því að satt að segja er sú löggjöf orðinn forngripur miðað við þróun mála. Meðferð þessara mála er því miður að mörgu leyti langt frá því að vera í samræmi við nútímaleg viðhorf í vistfræði. Þetta gildir raunar einnig um löggjöfina um skógrækt sem margt mætti um segja þar sem þyrfti að taka betra tillit til víðtækra viðhorfa, sem hafa rutt sér til rúms, og er þá langt frá því að verið sé að kasta nokkurri rýrð á málaflokkinn heldur fyrst og fremst hvernig á er haldið.

[17:30]

Ég veit að í hv. landbn. sem fékk þetta mál til umfjöllunar á síðasta þingi var leitað umsagna um málið en það komst það ekki áfram svo sem óskir okkar flutningsmanna þá stóðu til. Ég ætla ekki að nýta mér allan rétt sem frsm. málsins að fjalla um það í miklu lengra máli vegna þess að það er öðru sinni sem málið kemur fyrir þingið nema þá sérstakt tilefni verði til við umræðuna. Það er ósk mín að hv. landbn., sem ég geri áfram tillögu um að taki við málinu vegna þess að viðkomandi löggjöf heyrir undir landbrh., þá er það eindregin ósk mín að umhvn. þingsins fái málið einnig til umfjöllunar og veiti um það álit því að einmitt þau efni sem hér eru til umræðu og gróðurverndarþátturinn almennt heyrir undir umhvrn. ásamt landbrn. samkvæmt lögum um náttúruvernd sem var breytt þegar umhvrn. var sett á stofn 1990 varð um það samkomulag að samþætta þessi efni.

Mér eru nokkur vonbrigði að í reynd hefur ekki verið málafylgja milli þessara ráðuneyta eins og skyldi á þessu sviði til þess að bæði endurskoða löggjöf og finna betri farveg fyrir meðferð ýmissa mála sem er eðlilegt að greina á milli og falli annars vegar undir umhvrn. og hins vegar undir ráðuneyti landbúnaðarmála. Enda þótt ég hafi mjög ákveðnar skoðanir á því hvernig hægt væri að skipta þar reitunum svo vel færi út frá rökrænu samhengi ætla ég ekki að fara út í það. Það er í rauninni önnur umræða sem þyrfti að fara fram og kannski hrindi ég henni af stað einhvern tíma með málatilbúnaði á Alþingi fyrr en seinna, mér er satt að segja í huga að hreyfa þeim efnum. En ég vil hvetja núv. hæstv. ráðherra þessara mála, umhverfismála og landbúnaðarmála, til þess að líta til þessara þátta alveg sérstaklega og ættu að vera hæg heimatökin að þessu sinni eins og verkum er skipt í Stjórnarráðinu að yfir sé farið. Virðulegur forseti. Í því samhengi vil ég segja það að einmitt vegna þess að svo óvenjulega stendur á að sami hæstv. ráðherra gegnir þessum ráðuneytum ætti að vera lag til þess að fara yfir sviðið og greina þarna sundur, markað farveg um eðlilegri málafylgju en er nú í stjórnkerfinu að þessu leyti. Ég treysti hæstv. núv. landbrh. og ráðherra umhverfismála alveg til þess að eiga þau eintöl sálarinnar og kalla kannski einhverja til til að fara yfir málin að þessu leyti og væri það vel ef úr yrði bætt áður en langt um líður. Ég vænti sem sagt, virðulegur forseti, að að lokinni umræðunni fari málið til hæstv. landbn. eins og á síðasta þingi en með þeirri ósk af hálfu flm. að umhvn. þingsins fái að fjalla um málið og veita umsögn um það til hv. landbn.