Landgræðsla

Þriðjudaginn 07. nóvember 1995, kl. 17:57:15 (786)

1995-11-07 17:57:15# 120. lþ. 29.15 fundur 93. mál: #A landgræðsla# (innfluttar plöntutegundir o.fl.) frv., landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur


[17:57]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég ætla hvorki að lengja þessa umræðu né ræða ítarlega um einstakar efnisgreinar eða efnisþætti þessa frv. á þessu stigi máls, en ég tel að þær skoðanir sem hér koma fram séu fullrar athygli verðar og nauðsynlegt að gaumgæfa þessi mál vel og tek þar undir með þeim hv. þingmönnum sem hér hafa talað á undan mér .

Hér er í ákvæði til bráðabirgða nr. II í þessu frv. lagt til að landgræðslulögin verði endurskoðuð og mig langar þá að upplýsa það við þessa umræðu að það er þegar hafin undirbúningsvinna í landbrn. við heildarendurskoðun bæði landgræðslulaga og skógræktarlaga, svo og umræða um skipulag þessara mála sem ég held að sé bæði rétt og eðlilegt að taka inn í umræðu um endurskoðun þessara laga. Ég beini því þess vegna til bæði flm. og landbn. að það sé e.t.v. rétt að bíða þeirrar endurskoðunar og taka þau sjónarmið sem sett eru fram í þessu frv. inn í þá umræðu og endurskoðun frekar en gera sérstakar breytingar á landgræðslulögunum í viðbót við þær sem hafa verið gerðar. En þetta er auðvitað mál sem hv. nefnd getur skoðað í vetur og fylgst með framgangi endurskoðunarinnar í landbrn. og þeirri vinnu sem ég vona að fari þar fram í vetur.

Mig langar aðeins að nefna að í frv. er lögð til breyting á núgildandi lögum sem kemur aðallega fram í 2. gr. frv. og felur í sér að lagt verði mat á innfluttar plöntutegundir sem ekki eru fyrir í íslenskri náttúru eða lítt útbreiddar áður en þær verða heimilaðar til landgræðslu í okkar íslensku náttúru. Það eru nokkuð skiptar skoðanir um þessi mál og skoðanaskipti hafa farið fram um þau að undanförnu, bæði í almennri umræðu og eins á opnberum vettvangi og auðvitað hafa komið fram mismunandi sjónarmið. Ég tel að það sé tímabært að áhrif slíkra plantna við uppgræðslu verði rannsökuð sem best áður en notkun þeirra er gefin að öllu leyti frjáls þannig að það verði reynt að koma í veg fyrir það ef mönnum sýnist hugsanlegt umhverfisslys á íslenskri náttúru geta hlotist af.

[18:00]

Ég vil hins vegar einnig taka undir athugasemd eða hugleiðingar frá hv. þm. Tómasi Inga Olrich þegar hann nefnir það sem kemur fram í frv. að það þurfi að liggja fyrir jákvæð umsögn fjögurra mikilvægra stofnana, þ.e. Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, Rannsóknastöðvar Skógræktar ríkisins, Náttúruverndarráðs og Líffræðistofnunar háskólans áður en að notkun plantna er heimiluð. Mér sýnist þó þessar stofnanir allar séu virtar og góðar að þá sé nú hér um nokkuð þröngt nálarauga að fara í gegn ef þetta er sett fram eins og hér er gert ráð fyrir. Ég ítreka að í því felst ekki að ég telji ekki nauðsynlegt að skoða málið vel. Hins vegar spyr ég mig og hv. þm. hvort hér sé ekki nokkuð víðtækt vald sett í hendur á fjórum stofnunum sem ef ég skil rétt, eins og hér er gert ráð fyrir, þurfa allar að vera sammála og veita jákvæða umsögn.

Það segir líka í frv. að gert sé ráð fyrir að Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Rannsóknastofnun Skógræktar ríkisins og Landgræðslu ríkisins verði falið að leita nýrra leiða við uppgræðslu lands og gera rökstuddar tillögur um plöntutegundir enda falli þær að ákvæðum laga þessara um varðveislu líffræðilegrar fjölbreytni og verndun náttúrulegra gróðurlenda. Þetta eru auðvitað líka góð fyrirheit og sjálfsagt að hafa þessi mál í huga. Ég vildi aðeins láta það koma fram, hæstv. forseti, að ég tel að hér sé hreyft máli sem löggjafinn á að huga að og þarf ekki að hafa um það öllu fleiri orð eftir það sem hér hefur verið sagt, bæði af hálfu hv. framsögumanns og þeirra hv. þm. sem að hér hafa um málið fjallað á undan mér. Ég get tekið að mörgu leyti undir málflutning þeirra en vildi aðeins láta það koma fyrst og fremst fram að í landbrn. er þegar hafin vinna við endurskoðun þessara laga sem hér er lögð til breyting á svo og laga um skógrækt og umræða um skipulag þessara mála sem gætu auðvitað leitt til þess að að þessar stofnanir tvær, Landgræðsla ríkisins og Skógrækt ríkisins, vinni með öðrum hætti saman en þær hafa gert eða jafnvel verði sameinaðar og sú umræða er reyndar ekki ný. En ég ætla þó ekki að setja það fram á þessu stigi sem neina ákvörðun að það sé það sem verði gert heldur aðeins að það er eitt af því sem verður skoðað og rætt í því nefndarstarfi sem nú er að hefjast.