Landgræðsla

Þriðjudaginn 07. nóvember 1995, kl. 18:22:48 (790)

1995-11-07 18:22:48# 120. lþ. 29.15 fundur 93. mál: #A landgræðsla# (innfluttar plöntutegundir o.fl.) frv., TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur


[18:22]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var að heyra á hv. síðasta ræðumanni að sá sem hér stendur hafi búið til einhverja víglínu. Svo mikið er vald mitt ekki. Þessi lína er til. Ég vil kannski ekki kalla hana víglínu en það er ekkert spursmál að þessi skoðanaágreiningur er til. Það getum við lesið á síðum dagblaðanna. Ég er a.m.k. ekki í þeim flokki manna sem vilja horfa fram hjá þessum raunveruleika. Ég hef aldrei nokkurn tímann talið það vænlegt til þroska að horfast ekki í augu við raunveruleikann. Að stinga hausnum í sandinn er ekki sú aðferð sem við iðkum hér í hinum vestrænu þjóðfélögum og höfum aldrei gert það, við horfumst í augu við raunveruleikann og þetta er nú raunveruleikinn. Ég tel að það mál sem hér er á ferðinni búi einmitt ekki til málamiðlun. Þótt ég hafi stutt það í umfjöllun minni að við þessu máli yrði hreyft þá var efnisleg gagnrýni mín fólgin í því að ég taldi að málið mundi nánast leiða til þess að taka fyrir notkun innfluttra plantna í landgræðslu. Það tel ég vera megingalla málsins. Hv. 1. flm. frv. verður að virða mér það til vorkunnar að ég lýsi hér skoðun minni. Ég tel að málið í þeim búningi sem það er hér sé tæplega málamiðlunarleið heldur taki hann sér stöðu nær safnahugsjóninni en ég hefði talið æskilegt í þessum fylkingum ef við viljum tala svo, sem eru til og ég er ekki að búa til.