Náttúruvernd

Þriðjudaginn 07. nóvember 1995, kl. 18:25:24 (791)

1995-11-07 18:25:24# 120. lþ. 29.16 fundur 95. mál: #A náttúruvernd# (landslagsvernd) frv., Flm. HG
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur


[18:25]

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Hér mæli ég fyrir 95. máli þingsins sem er frv. til laga um breytingu á lögum um náttúrvernd, nr. 47/1971, með síðari breytingum. Frv. er flutt af okkur þremur þingmönnum, ásamt mér hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur og Gísla S. Einarssyni.

Frv. þetta er eins og fram kemur í heiti þess breyting og að nokkru leyti viðauki við gildandi löggjöf um náttúruvernd sem nú er orðin aldarfjórðungs gömul og hefur reynst býsna endingargóð þó viðleitni hafi verið til að ná þar fram breytingum. Það er sjálfsagt að á það sé litið, ekki aðeins efni þessa máls hér heldur fleira sem þörf er á að meta í ljósi þróunar og nýrra viðhorfa.

Frv. tekur til afmarkaðra atriða í náttúrvernd sem við flm. teljum brýnt að kveða á um með mun ákveðnari og skýrari hætti en verið hefur. Þar er í fyrsta lagi um að ræða almenn ákvæði um landslagsvernd og í öðru lagi frekari skorður við efnistöku og jarðraski en er að finna í gildandi löggjöf. Það var valin sú leið við gerð þessa frv. að gera tillögu um nýjan kafla inn í lögin um náttúrvernd sem beri heitið landslagsvernd og setja inn í þann kafla nýmæli og breytt ákvæði um efnistöku en slík ákvæði er nú að finna í gildandi lögum um náttúrvernd undir heitinu ,,Aðgangur almennings að náttúru landsins og umgengni.``

Þetta frv. var lagt fram á síðasta degi síðasta þings til kynningar og kom því eðlilega ekki til umræðu. Sem flm. málsins á 119. þingi tók ég mér bessaleyfi til að leita til nokkurra aðila sem málið varðar til þess að fá ábendingar um atriði sem betur mættu fara. Nokkrir þeirra sem fengu málið þannig sent á liðnu sumri brugðust vel við og skjótt og komu með ábendingar um ákveðin atriði sem sum hver voru tekin til greina. Yfirleitt var að finna jákvæðar undirtektir við meginefni frv. í þeim umsögnum sem ég fékk þannig um málið í sumar.

Fyrir utan þá sem getið er um í greinargerð með málinu komu umsagnir frá fleiri aðilum sem ekki eru tilgreindir, en sumt var það seint fram komið að málið var komið inn í þingið eða á leiðinni þangað í því formi sem nú er um að ræða.

Í gildandi löggjöf um náttúruvernd vantar tilfinnanlega tengsl við lög um skipulag að því er varðar ákvarðanir um ráðstöfun lands til mismunandi nota. Sú aðferð að friðlýsa þurfi með formlegum hætti landsvæði og einstakar náttúrumyndanir til að koma í veg fyrir óeðlilega röskun lands er að okkar mati allsendis ófullnægjandi, ekki síst þegar almenn ákvæði um efnistöku og annað jarðrask eru jafnopin og lítils megandi út frá náttúruverndarsjónarmiði og raun ber vitni.

Það var reyndar svo að þegar lög voru sett um náttúrvernd 1971, þá gerðist það við meðferð þingsins að þeir sem vildu halda heimildum sem opnustum til efnistöku fengu nokkru áorkað og því urðu náttúrverndarlögin nokkru lakari að þessu leyti vegna breytinga sem urðu í meðförum þingsins, lakari heldur en tillögur stóðu til um.

[18:30]

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það að efnisnám, svo einn þáttur röskunar sé tekinn og sá þáttur sem einkum er fjallað um hér í þessum breytingartillögum, verður stöðugt stórtækara einkum nærri þéttbýli og hafinn er útflutningur í allríkum mæli á lausum gosefnum án þess að fyrir liggi heildstætt mat á hvar slík efnistaka sé réttlætanleg. Það er oft ráðist í framkvæmdir af þessum toga af bráðræði og án þess að nauðsynlegar rannsóknir eða úttektir hafi farið fram og aflað hafi verið þekkingar á gerð og gæðum viðkomandi jarðefna, þannig að efnistakan sjálf verður ómarkvissari fyrir bragðið og minna sem menn fá út úr því efni sem þeir eru að nema heldur en mögulegt væri ef vandað væri til undirbúnings. Ekki þarf heldur að fjölyrða um það hversu mikið skortir víða á að vel sé gengið frá efnisnámi að efnistöku lokinni, en slíkt á að vera óaðskiljanlegur þáttur framkvæmdarinnar. Við þurfum að gæta þess að hin ólífræna náttúra landsins er ein af auðlindum þess og Ísland raunar alþekkt vegna fjölbreyttra landslagsgerða og gosmyndana sem óvíða í veröldinni eru jafnsýnilegar og aðgengilegar og hér á landi. Fyrir allan almenning hefur náttúra landsins ómetanlegt gildi og hver kynslóð ber ábyrgð á því að hún sé varðveitt fyrir ókomnar kynslóðir. Íslendingar bera jafnframt ábyrgð á því gagnvart heimsbyggðinni að þessar jarðmyndanir séu varðveittar, m.a. vegna vísindarannsókna.

Fyrir vaxandi atvinnugrein í landinu, ferðamennskuna, er það einmitt náttúran sem mestu veldur um þróun á því sviði, hún er aðalaðdráttaraflið fyrir þá sem sækja okkur heim, en einnig fyrir okkur sem leitum hugsvölunar og ánægju í ferðir um okkar ágæta land. Ef við spillum þessum gæðum af gáleysi, þá mun það fyrr en varir hitta okkur fyrir og ókomnar kynslóðir sem ekki geta þá bætt úr eða brugðist við því sem orðið er. Skipulagsleysi í mannvirkjagerð og hömlulítil umferð vélknúinna tækja um landið ásamt gapandi sárum eftir efnistöku er vísasti vegurinn til að gera að engu viðleitni til að byggja upp ferðaþjónustu sem atvinnuveg. Og fari svo sem horfir, virðulegur forseti, í þessum efnum, þá verða Íslendingar fljótlega og því miður með réttu frægir að endemum fyrir ómenningu í samskiptum við eigið land. Þetta kann að þykja mikið sagt, en ég held að ef menn meta það sem er í gangi og þau mörgu mistök sem orðið hafa, þá sé hér ekki verið að mála of dökka mynd. Ég vænti þess hins vegar staðfastlega og ákveðið að þessi verði ekki þróunin og niðurstaðan, að við fáum við brugðist m.a með því að breyta löggjöf okkar og marka leikreglur þannig að vel fari.

Með frv. er tekið á efnistöku með ákveðnari hætti en áður hefur verið til að stuðla að góðri umgengni um landið og auk þess dregin fram stefna um almenna verndun tiltekinna landslagsgerða og í því efni farin svipuð leið og mörkuð er í danskri náttúruverndarlöggjöf. Þannig er kveðið á um það í frv., í a-lið 1. gr., að allar gosmyndanir frá jarðsögulegum nútíma verði felldar undir slíka landslagsvernd og aðrar sérstæðar jarðmyndanir frá síðasta jökulskeiði eða eldri samkvæmt nánari reglum sem ráðherra umhverfismála setur. Stöðuvötn og tjarnir eru felld undir sömu ákvæði, svo og náttúrulegir vatnsfarvegir og votlendi miðað við ákveðið flatarmál. Ekki er seinna vænna að setja inn slík almenn ákvæði um votlendisvernd svo mjög sem hefur verið gengið á mýrar og annað votlendi með framræslu undangengin 50 ár. Stærðarmörk fyrir tjarnir og votlendi sem njóti landslagsverndar voru rýmkuð við endurskoðun málsins fyrir flutning þess nú, m.a. að fenginni umsögn frá Bændasamtökum Íslands sem var almennt mjög jákvæð til þeirra tillagna sem er að finna í þessu frv. og þótti mér afar vænt um að fá í hendur álit þeirra í þeim anda sem þar var.

Í umsögn frá landgræðslustjóra er talið æskilegt að undanskilja fyrirhleðslur sem gerðar eru af Landgræðslu ríkisins til varnar landbroti frá ákvæðum frv. Þar er vissulega um sértækt mál að ræða, en þó þarf einnig að vanda til áður en ráðist er í slíkar framkvæmdir. Með stefnu af því tagi sem hér er lögð til á að tryggja að náttúrufari og landslagi verði ekki breytt hugsunarlítið, heldur verði ákvarðanir um breytta landnotkun teknar að athuguðu máli og af þar til bærum aðilum. Slíkar takmarkanir ganga ekki að mati flm. gegn eignarréttarákvæðum þó að þröngt væru túlkuð og eru þau sjónarmið sem að baki liggja raunar stöðugt að vinna á einnig í alþjóðarétti.

Með frv. er lögð áhersla á það sem meginreglu að landið sé verndað fyrir breytingum og raski nema ákvarðanir séu teknar um annað í staðfestu skipulagi eða á þær fallist af skipulags- og náttúruverndaryfirvöldum. Lög nr. 63/1993, um mat á umhverfisáhrifum, eiga að tryggja að áður en tekin er ákvörðun um framkvæmdir sem kunna að hafa í för með sér umtalsverð áhrif á umhverfi, náttúruauðlindir og samfélag liggi fyrir slíkt mat og verði það fastur liður í gerð skipulagsáætlana. Í 5. gr. laganna eru taldar upp framkvæmdir sem háðar eru mati á umhverfisáhrifum. Þess utan hefur síðan umhvrh. heimild til að víkja frá þeim mörkum sem þar er um að ræða og bæta við hliðstæðum skilyrðum. Almenna reglan að því er varðar efnistökustaði í lögunum um mat á umhverfisáhrifum varðar hvað stærð snertir 50 þús. fermetra lands eða meira eða yfir 150 þús. rúmmetra að umfangi. Þessi stærðarmörk þarfnast endurskoðunar við þar eð þau virðast of há miðað við íslenskar aðstæður. Einnig þyrfti að tryggja að ákvæði laganna taki einnig til efnisnáms á hafsbotni sem farið er að líta til í vaxandi mæli.

Um efnistöku er í frv. auk framangreindra meginreglna sett fram nánari ákvæði með hliðsjón af því hver telst hafa eignar- og umráðarétt yfir landinu. Í þeim ákvæðum felast almennar takmarkanir eða skilyrði sem uppfylla verður áður en í efnistöku er ráðist þannig að ekki hljótist þar spjöll á landi og náttúruminjum eða varanlegar breytingar á landslagi sem ekki hefur verið ráð fyrir gert samkvæmt staðfestu skipulagi. Ákvæði þessi varða fyrst og fremst sölu eða ígildi sölu á jarðefnum, en undanþegin er lítils háttar efnistaka landeigenda til eigin nota, enda valdi hún ekki landskemmdum og vel sé gengið frá efnistökustað.

Inn í lögin, samkvæmt hugmyndum frv., eru sett fyllri ákvæði en nú eru í gildi um viðhlítandi frágang eftir efnistöku og annað jarðrask og fjárhagslega tryggingu fyrir því að við sett skilyrði verði staðið af hálfu framkvæmdaaðila. Einnig er mælt svo fyrir að ekki megi nota efnisnámur til að fleygja eða farga þar rusli eða öðru óskyldu efni, en að því eru mikil brögð til enn frekari lýta en fylgja ófrágengnum efnisnámum auk þess sem slíkur úrgangur getur torveldað frágang.

Það mætti hafa langt mál, virðulegur forseti, um stöðu þessara mála að því er t.d. varðar ófrágengna efnistökustaði. Þeir eru ótrúlega margir í landinu, skipta ekki aðeins hundruðum. Ég geri ráð fyrir að ef allt er talið, þá skipti þeir þúsundum og hér er sannarlega um að ræða viðfangsefni sem taka verður á og í ákvæði til bráðabirgða er fjallað um það hvernig með skuli fara í sambandi við frágang á efnistöku og jarðraski sem þegar hefur átt sér stað fyrir gildistöku þessara laga, en auðvitað er brýnt að taka á því máli.

Það er afar brýnt að auka eftirlit með því að ákvæði náttúruverndarlaga séu virt, þar á meðal um efnistöku. Á þessu sviði blasa við verkefni um allt land og það þarf að gera eftirlit í senn einfalt og skilvirkt. Til álita kæmi að koma á sameiningu um vissa efniseftirlitsþætti á sviði umhverfismála og skipta landinu í svæði eða umdæmi í þessu skyni. Það eftirlit sem Náttúruverndarráð hefur reynt að halda uppi allt frá árinu 1973 að telja er vissulega góðra gjalda vert. En það hefur verið takmarkað m.a. af þröngum fjárhag og yfirleitt verið unnið sem hlutastarf. Náttúrustofur sem nú eru að rísa í kjördæmum landsins í krafti nýrra lagaákvæða gætu verið eðlilegur aðili til að taka að sér svæðisbundið eftirlit af þeim toga sem hér um ræðir.

Virðulegur forseti. Við undirbúning þessa máls leitaðist sá sem hér talar við að hafa samráð og leita fanga hjá þeim stofnunum í landinu sem þessi mál snerta meira en aðrar. Þar nefni ég til sérstaklega Skipulag ríkisins og Náttúruverndarráð, en fleiri aðilar komu að málinu eða veittu aðstoð við efnisföng til frv. Og það er von okkar flm. að þetta frv., sem veruleg vinna var lögð í á síðasta ári eða áður en það var flutt á 119. þingi, megi verða til þess að hægt verði að lögfesta fyrr en seinna ákvæði og tryggja lagabætur á þessu sviði.

Menn kunna að spyrja: Hver er þörfin á að taka víðtæk ákvæði um landslagsvernd eins og er að finna í a-lið 1. gr. inn í þessar breytingar? Þar er fyrst og fremst verið að vísa til þeirra nauðsynja sem eru á því að koma við almennum verndarákvæðum þannig að menn þurfi ekki að friðlýsa landsvæði af ótta við röskun, sem stofnað væri til í hugsunarleysi eða án þess að bær yfirvöld kæmu að máli. Við þurfum að hafa víðtæk almenn ákvæði til þess að tryggja það að landið haldi svip sínum nema það sé ákveðið að hugsuðu máli og vel yfirlögðu ráði og með réttum samþykktum að breyta svipmóti landsins eins og við erum vissulega að gera með framkvæmdum okkar. Og margt hefur þar verið gert með vönduðum hætti þeirra sem að því hafa staðið og ekkert út á það að setja. En hitt getur líka gerst og mörg dæmi eru um að illa hafi til tekist og stofnað hafi verið til jarðrasks sem erfitt er að bæta úr nánast af fyrirhyggjuleysi og kannski að þarflausu.

Ég vona að þessi viðleitni okkar flm. til endurbóta á gildandi lögum og að koma hér á ákveðnum nýmælum fái efnislega umfjöllun á Alþingi og helst auðvitað óskum við eftir því að menn nái saman um afgreiðslu þess máls sem hér er um að ræða á þessu þingi. Allgott ráðrúm á að vera til þess. Ég veit um áhuga umhvrn. og hæstv. umhvrh. á að taka á þessum málum því innan skamms er von á málþingi til að ræða þessi efni sérstaklega og er það sannarlega vel því að orðin skipta máli og eins að reyna að stilla sem flesta saman sem í hlut eiga til að finna réttar áherslur til lagabóta á þessu sviði.

Tillaga okkar flm. er að frv. þetta að lokinni 1. umr. fari til hv. umhvn. þingsins.