Skaðabætur til bænda við Þingvallavatn

Miðvikudaginn 08. nóvember 1995, kl. 13:36:03 (796)

1995-11-08 13:36:03# 120. lþ. 30.1 fundur 37. mál: #A skaðabætur til bænda við Þingvallavatn# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur


[13:36]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Hv. þm. spyr með hvaða hætti bændum, sem land eiga að Þingvallavatni, var bætt skert veiði í kjölfar virkjunar Efra-Sogs árið 1959. Veiði í Þingvallavatni er að langmestu leyti murta. Virkjunin við Efra-Sog tók til starfa árið 1959 og minnkaði veiðin í Þingvallavatni ekki fyrstu árin eftir gangsetningu hennar. Niðursveiflan varð hins vegar í veiði á árunum 1966--1969 og svo aftur á árunum 1987--1991 en er nú samkvæmt upplýsingum aftur á uppleið. Samkvæmt heimildum hefur veruleg sveifla verið í veiði í vatninu alla síðustu öld. Kröfur um bætur vegna skertrar veiði í Þingvallavatni í kjölfar virkjunar Efra-Sogs bárust ekki til stjórnar Sogsvirkjunar né heldur til Landsvirkjunar eftir að hún tók við eignum Sogsvirkjunar árið 1965. Hins vegar hafa þær skoðanir bænda komið fram á undanförnum árum að vatnsborðssveiflur í vatninu á fyrstu árum eftir að virkjunin tók til starfa hafi valdið tregri veiði í vatninu á undanförnum árum. Á síðustu 5--6 árum hefur vatnsborðssveiflum hins vegar verið haldið langt innan þess sem náttúrulegar sveiflur vatnsins voru áður en virkjunin tók til starfa.

Landsvirkjun er aðili að veiðifélagi Þingvallavatns og hefur á síðustu árum vegna minnkandi veiði á árunum 1987--1991 kostað ítarlegar rannsóknir á fiskstofnum vatnsins og jafnframt staðið straum af kostnaði við seiðasleppingar urriða í samvinnu við veiðifélagið. Jafnframt hefur fyrirtækið m.a. gert áætlun um endurbætur á hrygningaskilyrðum urriðans við útfall vatnsins í samvinnu við veiðifélagið.

Hv. þm. spyr einnig um hvort sérstakar bætur hafi komið fyrir slysið 17. júní 1959 þegar bráðabirgðastíflan fyrir mynni Efra-Sogs brast. Svarið er nei. Hins vegar er gert ráð fyrir því á þessu ári að Landsvirkjun verji 1,5 millj. kr. til að bæta skilyrðin í vatninu til hrygningar. Stærsta vandamálið mun vera að botninn er þannig að það vantar möl í vatnið svo urriðinn eigi hægt með að hrygna. Eins er rennsli oft og tíðum mjög lítið og talið er eftir mínum upplýsingum að rennsli þurfi að vera 30 sm á sekúndu að lágmarki til þess að urriðinn hrygni. En ég vonast til að ég hafi gefið hv. þm. svar við þeim fyrirspurnum sem hann bar hér fram á þskj. 37.