Skaðabætur til bænda við Þingvallavatn

Miðvikudaginn 08. nóvember 1995, kl. 13:41:14 (798)

1995-11-08 13:41:14# 120. lþ. 30.1 fundur 37. mál: #A skaðabætur til bænda við Þingvallavatn# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur


[13:41]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Samkvæmt þeim upplýsingum sem iðnrn. hefur frá stjórn Sogsvirkjunar meðan Sogsvirkjun rak virkjunina og síðan stjórn Landsvirkjunar hafa ekki borist formlegar óskir um stuðning um þetta efni. Aftur á móti hefur Landsvirkjun lagt talsverða fjármuni í rannsóknir á þessu svæði. Á árunum 1991--1995 hefur Landsvirkjun lagt fram 4 millj. kr. til uppbyggingar urriðastofnsins í Þingvallavatni. Að auki hefur Landsvirkjun lagt fram styrki árlega til almennra rannsókna á lífríki vatnsins á þessu tímabili sem nema 8 millj. kr. Það er því ekki rétt hjá hv. þm. að ekki hafi neitt verið lagt fram af fé í þessu efni til þess að styrkja þær aðstæður sem þarna eru.

Þar fyrir utan hefur verið gerð úttekt á vegum Landsvirkjunar og tillögur um það hvernig hægt sé að standa að vistfræðilegri uppbyggingu á skilyrðum til hrygningar í vatninu og mynni þess. Landsvirkjun hefur lagt þessa tillögur fyrir veiðifélagið. Þær taka til þess að halda stöðugu vatnsborði í Þingvallavatni, að kortleggja vatnsbotninn til þess að finna þau svæði út sem eru hagkvæmust og best frá náttúrulegum skilyrðum fyrir urriðann að setjast að. Straummælingar eru sífellt í vatninu. Það er verið að mynda hrygningarsvæði á vegum veiðifélagsins og það er verið að undirbúa gerð fiskvegar úr Þingvallavatni niður í Efra-Sog. Það eru ýmis áform uppi í samvinnu Landsvirkjunar og veiðifélagsins á svæðinu um breytingar og úrbætur á aðstöðu sem þarna þarf að koma til.

Þar sem hv. þm. spurði hvort ég styddi ekki slíkar tillögur og umbætur á þessu sviði tek ég fram að ég geri það að sjálfsögðu.