Rennslistruflanir í Soginu

Miðvikudaginn 08. nóvember 1995, kl. 13:43:28 (799)

1995-11-08 13:43:28# 120. lþ. 30.2 fundur 83. mál: #A rennslistruflanir í Soginu# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi ÖS
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur


[13:43]

Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson):

Herra forseti. Þessi fyrirspurn er nátengd þeirri fyrirspurn sem við rökræddum hér áðan, ég og hæstv. iðnrh. Ég fagna því sem hann lýsti yfir að verið sé að undirbúa farveg fyrir urriða niður í gamla farveg Efra-Sogsins. Það er þakkarvert og fyrir því hafa menn barist mjög lengi. En allt annað sem hæstv. ráðherra sagði byggist að mestum hluta á röngum upplýsingum. Hann ætti að leita sér að öðrum og betri ráðgjöfum og ég býð mig hér með fram.

Herra forseti. Spurning mín lýtur að rennslistruflunum í Soginu. Eins og menn vita er Sogið vatnsmesta bergvatnsfljót á Íslandi. Það hefur um langa hríð verið þekkt fyrir einstakt lífríki sem átti sér hvergi líka á Íslandi og þótt víða væri leitað. Til að mynda veit ég að hæstv. iðnrh., sem er áhugamaður um laxveiði, veit að Sogið var frægt fyrir gríðarlega stóran laxastofn. Síðan voru byggðar virkjanir í Soginu og miklar truflanir á rennsli árinnar af þeirra völdum. Þannig eru til upplýsingar um að vegna framkvæmda við virkjanirnar fyrr á öldinni var rennsli Sogsins takmarkað í um það bil 30 skipti og fór þá alveg niður í 40 teningsmetra á sekúndu en eðlilegt meðalrennsli er yfir 100 teningsmetrar. Stundum eða 16 sinnum var lokað alveg fyrir framrennsli Sogsins tímabundið eða gerðar mjög róttækar rennslistakmarkanir. Auðvitað hafði þetta mikil áhrif á lífríki árinnar. Það liggja fyrir rannsóknir sem sýna ótvírætt að rennslistruflanir af völdum orkuvera valda dauða lífvera og þær valda líka röskun á klaki og hrygningu á uppeldissvæðum ungfisksins.

[13:45]

Herra forseti. Samkvæmt mælingum sem Sigurjón Rist vatnamælingamaður gerði árið 1969 kom fram að það var nauðsynlegt að halda rennsli árinnar við 65 teningsmetra á sek. Ef það fór niður fyrir það komu upp úr ánni grynningar þar sem að saman fór undir eðlilegum kringumstæðum, hæfilegur straumur og hæfileg möl og myndaði þannig mjög góðar riðstöðvar fyrir laxinn. Þá komu hrygningarstöðvarnar upp á þurrt.

Fyrr á öldinni var það niðurstaða dr. Unnsteins Stefánssonar prófessors og Ingólfs Ágústssonar verkfræðings, sem voru kvaddir til þess að meta afleiðingar þessara truflana, að þær hefðu mjög neikvæð áhrif á viðkomu laxins í Soginu. Ég rifja upp að í gerðardómi sem féll 1969 þar sem bændum voru dæmdar skaðabætur fyrir þetta og jafnframt var það lagt fyrir Landsvirkjun að sjá til þess að rennsli færi ekki niður fyrir 65 teningsmetra á sek. Hefur þetta haldið? Hefur Landsvirkjun staðið við þetta? Ég dreg það stórlega í efa vegna þess að nú blasir við að þessi merkilegi stofn stórlaxa er horfinn úr ánni og það kemur líka fram á yfirliti yfir veiði síðustu ára að hún er afar sveiflukennd og hún fer niður á við á tímum þar sem veiði í öðrum ám hefur stundum verið á uppleið. Þess vegna spyr ég hvort það geti verið að það sé skortur á hæfilegri aðgát hjá þeim sem stjórna rennsli árinnar, þ.e. Landsvirkjun, sem veldur þessu. Því set ég fram þessa spurningar, herra forseti: Hversu oft hefur rennsli Sogsins farið undir 65 teningsmetra á sek. síðan 1969 og hefur það farið alla leið niður í 40?