Rennslistruflanir í Soginu

Miðvikudaginn 08. nóvember 1995, kl. 13:46:46 (800)

1995-11-08 13:46:46# 120. lþ. 30.2 fundur 83. mál: #A rennslistruflanir í Soginu# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur


[13:46]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Hv. þm. spyr um rennslistruflanir í Soginu á þskj. 84. Fyrri spurningin er svohljóðandi: ,,Hversu oft hefur rennsli Sogsins farið niður fyrir 65 teningsmetra á sek. frá því að samið var um bætur til veiðiréttareigenda með gerðardómi árið 1969?`` Á tímabilinu frá 15. febr. 1972 var ekki rekinn síritandi vatnshraðamælir í Soginu og liggja því aðeins fyrir upplýsingar um meðalrennsli hvers dags á tímabili en ekki um lægsta rennsli dagsins. Meðalrennsli dagsins fór aldrei niður fyrir 65 teningsmetra á sekúndu á tímabilinu 1969 til febrúarloka 1972 en komst næst því 22. febr. 1970 þegar það fór niður í 65,08 teningsmetra á sek.

Frá því að síritandi rennslismælingar hófust í Soginu 15. febr. 1972 hefur rennslið 109 sinnum farið niður fyrir 65 teningsmetra á sek. Hv. þm. spyr einnig hversu oft rennslið hafi farið niður fyrir 40 teningsmetra á sekúndu á sama tíma. Rennslið hefur farið tvisvar niður fyrir 40 teningsmetra á sekúndu frá því að síritandi rennslismælingar hófust 19. febr. 1972, dagana 12. apríl 1980 þegar rennslið fór lægst í 36,4 teningsmetra á sekúndu og 16. okt. 1988 þegar rennslið var minnst 35,8 teningsmetrar á sekúndu. Ég vona að þessar upplýsingar svari fyrirspurn hv. þm.