Eftirlit með viðskiptum bankastofnana

Miðvikudaginn 08. nóvember 1995, kl. 13:59:20 (805)

1995-11-08 13:59:20# 120. lþ. 30.3 fundur 123. mál: #A eftirlit með viðskiptum bankastofnana# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., Fyrirspyrjandi VÁ
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur


[13:59]

Fyrirspyrjandi (Vilhjálmur Ingi Árnason):

Ég þakka hæstv. viðskrh. svör hans og lýsi því yfir að ég er ánægður með það sem kom þar síðast fram um að viðskrn. mun beina tilmælum til Seðlabanka Íslands. Það virðist vera full þörf á því, því að eins og ég hef áður sagt ríður holskefla gjaldþrota yfir landið. Fyrir Aflvaka Reykjavíkur hefur verið unnin greinargerð þar sem fram kemur að þróun í gjaldþrotamálum er mjög alvarleg nú um stundir. Í síðustu viðskiptablöðum hefur verið rituð heil ritröð og greinaflokkur um gjaldþrota fyrirtæki þar sem áhyggjur koma fram í hvert stefnir.

Í fréttum í gær er skýrt frá því að gjaldþrot á Suðurlandi hafi aukist um helming á milli ára og svipaða sögu er að segja annars staðar.

Hér var spurt hvernig sé háttað eftirliti viðskrn. og Seðlabanka Íslands, æðstu fjármálastofnana landsins, með viðskiptabanka sem hefur verið dæmdur í Hæstarétti fyrir ólöglega viðskiptahætti. Fram kemur í dómsskjölun héraðsdóms Reykjavíkur og Hæstaréttar að bankaeftirliti Seðlabankans hefur ítrekað verið bent á óeðlilega viðskiptahætti milli viðkomandi viðskiptabanka og verktakafyrirtækisins. Bankaeftirlitið virðist ekki hafa gripið í taumana í þessu tilfelli frekar en í Ávöxtunarmálinu á sínum tíma. Þrátt fyrir að viðskiptabankinn sé margdæmdur fyrir óeðlilega viðskiptahætti bæði í héraðsdómi og Hæstarétti virðist bankaeftirlitið ekkert aðhafast í málinu. Hér virðist eftirlit Seðlabanka Íslands hafa brugðist og orsakað milljóna tjón viðskiptamanna bankans. Það er því nauðsynlegt að fram fari eftirlit eins og hæstv. ráðherra hefur sagt.