Bílalán til öryrkja

Miðvikudaginn 08. nóvember 1995, kl. 14:16:22 (813)

1995-11-08 14:16:22# 120. lþ. 30.4 fundur 110. mál: #A bílalán til öryrkja# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur


[14:16]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Eins og kom fram í fyrri ræðu minni hef ég þegar lagt grunninn að því að þessari fyrirgreiðslu við öryrkja verði ekki hætt. Það kom fram hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að það vantaði lagastoð fyrir þessum lánveitingum og lagastoð hefur ekki verið til allt frá 1947 þegar lánin voru fyrst veitt.

Nú vill svo til að það er verið að endurskoða almannatryggingalöggjöfina í heild sinni og þar er ýmislegt sem þarfnast endurskoðunar, eins og atriðið sem kom fram hjá hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur áðan, þannig að þar er að ýmsu að gæta.

Hv. þm. sagði einnig að ef það næði fram að ganga að við vildum halda lánafyrirgreiðslu áfram án lagaheimildar, myndi hann leggja fram frv. til laga, a.m.k. skildi ég hann þannig. Ég segi bara við hv. formann heilbr.- og trmn., eigum við ekki að hafa samvinnu um þetta mál? Erum við ekki sammála varðandi þetta atriði?