Þjónusta og kynning Egilsstaðaflugvallar

Miðvikudaginn 08. nóvember 1995, kl. 14:21:47 (815)

1995-11-08 14:21:47# 120. lþ. 30.5 fundur 121. mál: #A þjónusta og kynning Egilsstaðaflugvallar# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur


[14:21]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Samkvæmt upplýsingum Flugmálastjórnar er það að segja um flugvélaeldsneytismálið að Skeljungur hf. hefur haft eldsneytisbirgðir á flugvellinum um árabil. Þegar nýja flugbrautin var hönnuð var gert ráð fyrir að félagið flytti eldsneytisgeymi og dælingarbúnað um set, enda er hann á óheppilegum stað eftir að flughlaðið hefur færst vestur fyrir flugstöðina. Jafnframt var gert ráð fyrir að stærri geymir yrði settur upp þannig að hægt yrði að sinna eldsneytisþörfum stærri flugvéla.

Flugmálastjórn hefur ítrekað gengið eftir því að Skeljungur réðist í ofangreindar framkvæmdir. Hins vegar hefur nýlega borist bréf frá forstjóra fyrirtækisins þess efnis að hann treysti sér ekki til að gera neinar breytingar á aðstöðu sinni á flugvellinum þar sem sala á eldsneyti standi engan veginn undir slíkum fjárfestingum. Þess ber þó að geta að áform munu vera um að auka birgðir þotueldsneytis á flugvellinum. Þetta verði gert með því að nýta bensíntank í þessu skyni.

Ljóst er að flugmálastjórn er í erfiðri aðstöðu að krefjast aukinnar eldsneytisþjónustu þar sem ólíklegt verður að telja að annar aðili fengist til þess að sinna henni. Slíkt hefur þó ekki verið formlega kannað.

Varðandi kynningu Egilsstaðaflugvallar er þetta að segja: Flugvöllurinn var ítarlega kynntur á ráðstefnu sem Flugmálastjórn hélt í Reykjavík í október 1994, þar sem fjallað var um málefni flugumferðarþjónustu á Norður-Atlantshafi. Á þessari ráðstefnu voru mættir fulltrúar allra flugfélaga sem fljúga reglubundið yfir Norður-Atlantshafið. Fulltrúar frá tveimur stórum bandarískum flugfélögum fóru til Egilsstaða til að kynna sér betur aðstæður. Auk ofangreindrar kynningar verður öllum ofanefndum flugfélögum tilkynnt sérstaklega um þá breytingu sem verður á rekstri Egilsstaðaflugvallar þegar tekin verður upp rekstur á flugvellinum allan sólarhringinn á næstunni. Umrædd breyting á rekstri flugvallarins er jafnframt tilkynnt með hefðbundnum hætti í upplýsingaritum til flugmanna og flugrekenda.

Þá er rétt að geta þess að heilsíðuauglýsing um flugvöllinn birtist í Iceland Review fyrr á þessu ári, en ritinu var m.a. dreift á vegum Flugleiða til aðila í flugheiminum.