Græn ferðamennska

Fimmtudaginn 09. nóvember 1995, kl. 10:53:47 (821)

1995-11-09 10:53:47# 120. lþ. 32.1 fundur 66. mál: #A græn ferðamennska# þál. 66, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur


[10:53]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Af því að hv. þm. Einar K. Guðfinnsson tók hér upp málefni Gilsfjarðar og brúar yfir Gilsfjörð, þá vil ég segja eitt. Ég er sammála öllum þeim viðhorfum sem hann lét uppi á meðan deilur stóðu um þá brú. Eins og hann veit beitti ég mér sem umhvrh. fyrir farsælli niðurstöðu í því máli. Hins vegar tel ég að þeir menn sem tóku afstöðu sem hv. þm. kallar nú nánast öfgakennda hafi haft ýmislegt til síns máls. Ég tel einmitt að slíkir menn gegni ákveðnu hlutverki í okkar þjóðfélagi. Ég held að það sé mjög farsælt að hafa slík samtök og einstaklinga sem brýna raustina vegna þess að það knýr okkur hina til að nema staðar og hugsa okkar gang eins og við gerðum báðir á meðan þetta mál var til umræðu. Ég lét þess getið að það mál hlaut farsæla niðurstöðu í tíð síðustu ríkisstjórnar og sýnist mér nú að kominn sé sandur í gangverkið. Ég skora auðvitað á hv. þm. Einar K. Guðfinnsson að sjá til þess að það verði ekki óhófleg töf á þessari mjög svo brýnu framkvæmd. Því miður virðist mér, herra forseti, að staðreyndin sé sú að þrátt fyrir að vegur hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar fari mjög vaxandi hjá mér þá fari hann dvínandi í hans eigin flokki. Hann hefur ekki meiri áhrif innan hans en svo að mér virðist að einhverjir afturhaldssamir menn vilji af ástæðum sem ég hef aldrei skilið gera allt sem þeir geta til að tefja þá brýnu samgöngubót og er með engu móti hægt að ásaka þá menn fyrir að gera það á grundvelli ,,grænnar ferðamennsku``. (EKG: Það skyldi þó ekki vera, hv. þm.) Þá held ég að við ættum að sameinast um það, hv. þm., að senda þá í einum grænum út í hafsauga.

Í máli hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar kristallaðist líka sá hagsmunaárekstur sem alltaf er uppi um landnýtingu. Hvaða landsvæði á að taka undir virkjanir og línur? Hvaða landsvæði á að taka undir vegi og hvaða landsvæði á að taka undir ferðaþjónustu og ferðamennsku? Eins og hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir gat um hér áðan er ferðamennska orðin útvegur sem skilar gríðarlegum fjármunum í þjóðarbúið, um 20 milljörðum. Engar þær spár sem settar hafa verið fram um þróun ferðamennsku hafa staðist. Raunveruleikinn hefur alltaf farið fram úr spánum. Og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, sem þekkir þorskinn jafnvel betur en ég, hann veit að sérhver ferðamaður sem kemur til landsins skilur eftir sig verðmæti sem eru ígildi eins tonns af þorski. Í þessu felast því gríðarlegir hagsmunir. Skáld sagði fyrr á öldinni að ef Íslendingar gætu umbreytt hrikaleik fjallanna og tíguleik jöklanna yfir í beinharða peninga þá yrðu þeir ríkir og enginn trúði því. En það er veruleikinn í dag. Þetta er að gerast. Við verðum hins vegar að gæta okkar þegar við erum að ráðast í framkvæmdir að hugsa til framtíðar. Af hverju koma menn til Íslands? Það er kannski að einhverju leyti, eins og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson sagði, vegna sögu okkar. Ég held að það sé að afar litlu leyti. Þeir koma hingað fyrst og fremst vegna þessarar einstæðu náttúru. Menn koma ekki hingað út af þessari sögulegu og menningarlegu arfleifð sem við erum auðvitað afskaplega stolt af. Mörgum útlendingum er alveg sama um hana. Þeir koma hingað til að sjá fugla og náttúru sem er hvergi annars staðar. Eins og kom fram í könnun sem gerð var á Austfjörðum meðal erlendra ferðamanna koma þeir líka til að sjá íslenska veðrið svo skrýtið sem það nú er. Veðrið, ekki verðið. Þarna þurfum við, eins og þingmaðurinn sagði, að feta vandrataðan stíg. Það er nefnilega staðreynd að við erum alltaf hægt og hægt að brjóta út jaðar hins manngerða umhverfis. Og það gerist svo hægt að við tökum kannski ekki eftir því. En ef við reynum að lyfta okkur upp og horfa yfir nokkra áratugi eins og var nú aðall ágæts fyrrv. þingmanns, Kjartans Ólafssonar, að gera í öllum málum sjáum við kannski þessa þróun. Við verðum að gera okkur grein fyrir því að það er aðallega eitt sem útlendingar eru að sækja hingað og það er hið ósnortna víðerni. Það er hvergi að finna í öllum heiminum nema e.t.v. í Síberíu. Og nú sé ég að brúnin lyftist á hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni. E.t.v. eru aðeins þar jafnvíðfeðm, ósnortin víðerni og á Íslandi. Og útlendingum finnst dálítið merkilegt að geta staðið upp á hól, hæð eða jökli og séð eins langt og augað eygir landslag þar sem eru engin kennileiti sem hafa með einhverjum hætti verið gerð af mönnum. Það er ákveðin upplifun og við sem höfum búið árum saman í erlendum stórborgum skiljum vel þegar við komum aftur... (SJS: Er það í Síberíu?) Úr því að þú minnist á Síberíu, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, þá bjó ég um fjögurra ára skeið á sléttlendi Austur-Anglíu þar sem ekkert var nema skógar. Og mér fór eins og Jósef Stalín þegar hann var í útlegðinni í Síberíu. Hann bað menn að senda sér þangað kort af fjöllum. Ég og Djúgasvílí höfum þessa sömu kennd og sókn til fjallanna eins og margir þeir sem þurfa að eyða aldri sínum á sléttlendi. En það veit ég að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur ekki gert og er ekki maður flatlendisins.

[11:00]

En svo ég reyni nú að halda þessum þræði sem ótal menn eru hér að reyna að slíta fyrir mér þá er nauðsynlegt að þætta skipulagsmálin inn í ,,græna ferðamennsku``, það skiptir öllu máli. Það vill svo til að hafin er fyrir tilstuðlan Alþingis merk vinna varðandi skipulag miðhálendisins. Þar eru menn einmitt að reyna að sætta þessa mismunandi hagsmuni. Ákveða hvaða landsvæði má taka undir virkjanir og hvað á að láta ósnert um aldur og ævi. Og við verðum að gæta þess að einhver landsvæði fái að standa algerlega óáreitt. En eins og hv. flm., sem á miklar þakkir skildar fyrir frumkvæði sitt í þessu máli, benti á, er aukningin í ferðamennsku svo gríðarleg að það eru mörg svæði sem eru farin að láta á sjá sökum ágangs ferðamanna. Ég tek eitt dæmi. Herðubreiðarlindir, þar sem 10--12 þús. manns koma um 3--4 vikna skeið á hverju ári, þar af 8--10 þús. útlendingar. Þetta er örsmár blettur inni í auðninni. Ef svo fer sem horfir, hlýtur að líða til þess innan skamms að þessi merka gróðurvin, þetta náttúruundur, laskist með einhverjum hætti. Við verðum að horfast í augu við það að með einhverjum hætti þurfum við að búa okkur til tæki í framtíðinni til þess að geta stemmt stigu við því. Og hv. þm. hafði kjark til að ræða eina leið en menn fárast nú yfirleitt mjög yfir í þingsölum þegar drepið er á hana. Það er gjaldtaka. Ég er alveg sammála um það að við eigum að skoða til hlítar hvort ekki sé rétt að taka upp einhvers konar gjaldtöku á þeim ferðamannastöðum sérstaklega sem við teljum að séu í hættu. Þetta er ein leið. Önnur leið er sú að auka valkosti ferðamanna með því að reyna að þróa ný ferðamannasvæði eins og menn hafa verið að reyna að gera á undanförnum árum. Menn hafa verið uppi með góðar hugmyndir um þjóðgarð á Snæfellsnesi. Menn hafa jafnvel sett lög um vernd Breiðafjarðar. Hvorutveggja þjónar því að setja ný landsvæði sem eru merkt frá sjónarmiði náttúrufars í brennidepil. Þetta skiptir allt saman miklu máli.

Ég sé að tími minn er búinn, herra forseti. En það er ýmislegt fleira sem ég vildi gjarnan ræða í tengslum við þetta mál. Ég held nefnilega að það sé líka nauðsynlegt í þessari vinnu að þætta miklu betur saman náttúruverndina og ferðamennskuna vegna þess að menn eru í dag að vinna að sömu hlutum innan beggja þessara geira.