Græn ferðamennska

Fimmtudaginn 09. nóvember 1995, kl. 11:04:58 (824)

1995-11-09 11:04:58# 120. lþ. 32.1 fundur 66. mál: #A græn ferðamennska# þál. 66, SJS
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur


[11:04]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég ætla að halda mig aðallega við þessa tillögu um ,,græna ferðamennsku``. Þó gæti verið áhugavert að ræða hér dálítið um þverun Gilsfjarðar og fiskveiðistefnuna. Ég er meðflutningsmaður að þessari ágætu og þörfu tillögu og ég er það vegna þess að ég tel enga vanþörf á að ýta við mönnum hvað þetta málefni snertir. Það er því miður þannig eins og kunnugt er að afar lítið hefur gerst í stefnumótun á sviði ferðamála sl. fjögur ár. Á það var reyndar minnt og það rifjað upp hér í fyrirspurnatíma á þingi fyrir nokkrum dögum.

Í þeirri stefnumótun að ferðamálum, sem unnið var að á sínum tíma í nefnd undir forustu Hjörleifs Guttormssonar, var einmitt lögð mikil áhersla á þennan þátt, þ.e. að þætta saman stefnu stjórnvalda og áherslur aðila sem sinna ferðamálum og umhverfisvernd og skynsamlega og hófsamlega umgengni um náttúruna. Það er að mínu mati alveg augljóst mál að svonefnd ,,græn ferðamennska`` eða ferðamennska sem sérstaklega reynir að byggja sig upp á umhverfisvænni eða náttúruvinsamlegri stefnu, getur orðið og á að verða hluti af okkar ferðauppbyggingu. Ég held að vísu að það verði seint þannig að öll ferðaþjónustan sem slík geti skreytt sig með þessu nafni enda ekki markmiðið að mínu mati, fyrir utan að hún sé almennt talað vinsamleg náttúrunni og níðist ekki á henni. En hitt er ábyggilega mjög raunhæft að einstakir aðilar, jafnvel einstök byggðarlög eða svæði, geti sérstaklega gert sinn hlut góðan að þessu leyti og ég hef verið áhugamaður um það og reyndar reynt að halda því að nokkrum ónefndum sveitarfélögum í landinu að þau tækju sig saman, riðu á vaðið í þessum efnum og gerðust einhvers konar tilraunasveitarfélög hvað varðaði ,,græna ferðamennsku`` og styddu þá við bakið á ferðaþjónustuaðilum sínum svo að þeir gætu sameiginlega og með sveitarfélögum sínum, staðið undir nafni sem slíkir.

Það var þörf umræða sem hér var aðeins komið inn á áðan og tengist stefnumótun okkar almennt séð varðandi atvinnurekstur í landinu og sambúð við náttúruna. Þar með talið í hve miklum mæli við ætlum að varðveita ósnortin landgæði til þess að byggja m.a. á atvinnugreinar eins og ferðaþjónustu. Eða í hve miklum mæli við erum tilbúin til að fórna þeim í þágu annarra atvinnugreina eins og stóriðju. Það er margra manna spá að á næstu öld verði hin eiginlega stóriðja og vaxandi stóriðja heimsins ekki málmbræðsla og ekki slíkur iðnaður, heldur allt það sem tengist hollustu og heilbrigði mannsins, þar með talið og ekki síst matvælaiðnaður og drykkjarvöruiðnaður og síðan alls konar þjónusta sem tengist möguleikum mannsins til útivistar og náttúruskoðunar. Þá er augljóst mál að það væri ekki skynsamlegt eða hagstætt Íslendingum að fórna um of í skammsýni á þessari öld möguleikum sínum til þess að verða í fararbroddi og fullgildir þátttakendur í stóriðju næstu aldar. Það þarf ekki annað en líta á tölur um vaxandi fólksfjölda í heiminum og vaxandi álag á hinar lífrænu auðlindir mannkynsins til að sjá að þjóð sem á sóknarfæri á þessu sviði, hún á mikla möguleika á komandi áratugum.

Það mun reynast í þessu efni eins og víðar, það verður ekki bæði sleppt og haldið. Þetta þurfa menn að horfast í augu við, líka þegar teknar eru ákvarðanir hér á næstu árum um landnýtingu, skipulag, ákvarðanir um virkjanir og stóriðju.

Ég nefni í þessu sambandi til að mynda hin stórfelldu áform um virkjanir á norðausturhálendinu. Þeir stórdraumar --- stundum eru þeir kallaðir LSD, landsins stærsti draumur eða Landsvirkjunar stærsti draumur. Öðrum finnst þetta eiga meira skylt við ónefnt efni sem líka gengur undir þessari skammstöfun og veldur að sögn annarlegri vímu. Það hefur ræðumaður aldrei prófað --- ganga út á það að sulla saman mestöllu jökulvatni á Norðausturlandi niður einn farveg og virkja það allt, jafnvel niður Fljótsdalshérað.

Þessi áform, risavaxin sem þau eru og tengd við hugmyndir um að leggja sæstreng til útlanda til að selja orkuna þangað, fara til að mynda ákaflega illa saman við hugmyndir manna um að varðveita stóra hluta af hálendinu ósnortna. Ég vil líka nefna í þessu samhengi, nauðsyn þess og mikilvægi að varðveita í landinu stór og ósnortin svæði þannig að menn geti ferðast um og notið víðlendra svæða ósnortinna af mannlegum umsvifum. Það sem mér kemur fyrst í hug er Ódáðahraun og svæðið norðan jökla. Ég held að það væri mikið ógæfuspor ef menn fórna slíku svæði, sem er að kunnugra sögn að verða eitt stærsta ósnortna landsvæðið í allri Vestur-Evrópu, fyrir eina einustu háspennulínu, til að koma einum einasta hundi milli landshluta. Ég spyr: Hvers vegna í ósköpunum má ekki endurskoða slík áform í ljósi vaxandi áherslu á mikilvægi þess að varðveita stór og ósnortin náttúrusvæði?

Ég gæti líka nefnt hér í þriðja lagi Kvíslaveiturnar og þá áfanga sem nú eru þar í bígerð og ganga að mínu mati háskalega nærri ómetanlegum náttúruperlum eins og Þjórsárverum. Ég fæ ekki betur séð af nýjustu kortum um uppistöðulón sem tengjast síðustu áföngum Kvíslaveitna en að þar eigi uppistöðuvatn að fara alveg inn á gróðurlendi Þjórsárvera og er það illt verk.

Það má líka nefna í þessu sambandi hluti, svo maður tíni nú allt í sarpinn, herra forseti, sem þarf að huga að í þessum efnum, hvort það samrýmist vel þeim áherslum sem við erum hér að tala fyrir í ferðamálum að svo til allir ferðamenn sem koma til landsins eru leiddir inn í landið í gegnum veg sem hefur á aðra hönd sér álver og vaxandi álver og hina hönd sér brotajárnshauga og brotajárnsverksmiðju. Það er spurning hvort það er vænlegt til árangurs til markaðssóknar í ,,grænni ferðamennsku`` að hliðið á landinu skuli vera með þessum hætti. Og í allri umræðu um nauðsyn þess að bæta úr samgöngum milli Suðurnesja og höfuðborgarsvæðisins mætti huga að þeim þætti sem er sjónmengunin og mikilvægi þess að koma veginum kannski í fallegra umhverfi eða þá snyrta það sem í kringum hann er.

En sem sagt, herra forseti, það er að mörgu að hyggja í þessum efnum og því tel ég bæði þarft og skylt að halda þessum málum á lofti og ég vona að þessi tillaga fái hér góða afgreiðslu þannig að vilji þingsins í þessum efnum fái að koma í ljós og hann verði þá m.a. ljós inn í þá vinnu sem hæstv. samgrh. hefur lofað að muni nú senn fara af stað og lýtur að stefnumótun og áherslum í ferðamálum.