Græn ferðamennska

Fimmtudaginn 09. nóvember 1995, kl. 11:21:36 (826)

1995-11-09 11:21:36# 120. lþ. 32.1 fundur 66. mál: #A græn ferðamennska# þál. 66, Flm. ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur


[11:21]

Flm. (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég fagna þeirri góðu umræðu sem hefur orðið í þingsalnum um þetta mál. Mig langar til að geta þess í upphafi að eins og menn hafa e.t.v. tekið eftir varð örlítil breyting á þáltill. frá því að ég lagði hana fram á vorþinginu vegna þess að hæstv. samgrh. hefur lagt af stað með stefnumótun í ferðamennsku og þess vegna varð sú breyting á að stefnumótun í ,,grænni ferðamennsku`` yrði felld inn í þá stefnumótunarvinnu. Eins og kom fram í máli mínu áðan fagnaði ég því að hæstv. ráðherra hefði ýtt úr vör þessari mjög svo brýnu vinnu sem er stefnumótun í ferðamennskunni. Sömuleiðis fagna ég því sem kom fram í máli hæstv. ráðherra að samfara þessari stefnumótun setji hann í gang rannsóknarvinnu varðandi ferðamennsku, rekstrarlegt umhverfi og fleira því að eins og kom fram í máli mínu áðan er þar mjög brýnt mál á ferðinni sem við höfum svo sannarlega vanrækt.

Varðandi það sem kom fram í máli hv. þm. Einars Guðfinnssonar held ég að hann þurfi ekki að óttast það að farið verði út í neinar öfgar varðandi ,,grænu ferðamennskuna`` því að meðalhófið er í öllu best. Bætt vegagerð er forsenda fyrir því að við getum tekið á móti auknum fjölda ferðamanna

Sömuleiðis er það hluti af ,,grænni ferðamennsku`` að unnið sé að stefnumótun á þeirri þjónustu í sátt við fólkið sem býr í landinu og býr á þeim svæðum sem tekur á móti ferðamönnum af þessu tagi. Mér finnst þetta hafa verið góð hugmynd hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni sem hann reifaði í máli sínu um tilraunasvæðið þar sem sveitarfélög færu af stað með móttöku ferðamanna í anda ,,grænnar ferðamennsku`` sem stæði þá undir nafni. Þetta yrði eins konar tilraunaverkefni.

Varðandi gjaldtöku í ferðamennsku, sem ég kom inn á í máli mínu í upphafi og hv. þm. Össur Skarphéðinsson tók undir, tel ég að það sé mál sem við verðum að fara að ræða og gera upp við okkur hvernig við ætlum að standa að. Af því að ég talaði um hverasvæðið í upphafsmáli mínu langar mig til að geta þess að Nýsjálendingar, sem eru með virkt hverasvæði eins og við eigum hér, eru með gjaldtöku inn á það svæði og hafa byggt upp þjónustumiðstöð við hverasvæði í Rotorua sem er heimsótt af mjög stórum fjölda ferðamanna og er það til fyrirmyndar og hlutur sem við ættum aðeins að líta til. Auðvitað þarf að samþætta stefnumótun í náttúruvernd, stefnumótun í ferðamennsku og það er einmitt það sem þessi ,,græna ferðamennska`` gengur út á.

Það var komið aðeins inn á matvæli og erlenda ferðamenn. Ég tek eftir því að í blaði sem okkur þingmönnum barst, Fréttabréfi Matvæla- og næringarfræðingafélags Íslands, segir að erlendir ferðamenn þurfi tæp 2 þús. tonn af mat og drykk og það er ekkert smávegis. Þar er miðað við þann fjölda ferðamanna sem kom hingað til lands í fyrra en þeir voru 179 þúsund og eins og kom fram í máli mínu áðan eru þeir mun fleiri og hafa farið fram úr áætlunum í ár og verða á árinu 195 þúsund manns sem er mjög mikill fjöldi erlendra ferðamanna.

Ég fagna þeirri vinnu sem farin er af stað en dreg ekki úr því að það þarf sérstaka áherslu á ,,grænu ferðamennskuna``. Ég fer ekki ofan af því að hæstv. ráðherra þyrfti að setja sérstaka nefnd á laggirnar til að vinna að þeirri hugmyndafræði og samþætta hana eða koma með hana inn í þá stefnumótun sem farin er í gang í samgrn.

Ég þakka þeim hv. þm. sem hafa tekið til máls og einhverjir eru enn á mælendaskrá fyrir hversu vel þeir hafa tekið í tillöguna og vonast til að hún fái góðan framgang í þinginu.