Aðgerðir til stuðnings íbúum Austur-Tímor

Fimmtudaginn 09. nóvember 1995, kl. 11:52:50 (833)

1995-11-09 11:52:50# 120. lþ. 32.3 fundur 60. mál: #A aðgerðir til stuðnings íbúum Austur-Tímor# þál., Flm. KÁ
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur


[11:52]

Flm. (Kristín Ástgeirsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. á þskj. 60 um aðgerðir til stuðnings íbúum Austur-Tímor. Þessi tillaga var flutt á síðasta þingi en náði þá ekki fram að ganga en því miður hafa mál þróast þannig austur í Asíu að full ástæða er til þess að halda þessu máli vakandi.

Ég tel rétt að rekja aðeins sögu þessa máls og ástæður þess að við kvennalistakonur erum að skipta okkur af þessu máli og þykir rétt að halda því vakandi á Alþingi Íslendinga. Þarna er um að ræða litla þjóð á eyju austur í Indíahafi, sem einu sinni var kallað svo, sem á sér langa sögu. Sú saga er á þá leið að þessari eyju, sem er í sundinu á milli Ástralíu og Austur-Indía eyjaklasans, var skipt á sínum tíma milli Hollendinga annars vegar og Portúgala hins vegar sem leiddi til þess að íbúar í portúgalska hlutanum urðu kaþólskrar trúar en Hollendingar skiptu sér ekki af trúarbrögðum á sínum hluta og þar eru íbúarnir flestir múslímar.

Þegar einræðisstjórnin í Portúgal féll árið 1975 leiddi af því að flestar þær nýlendur sem Portúgalir áttu urðu sjálfstæðar og það gekk fyrir sig með styrjöldum og ógnum, t.d. í Afríku, bæði í Angóla og Mósambik. Það sama átti sér stað á Austur-Tímor. Þar voru til ýmsar hreyfingar sem börðust fyrir sjálfstæði landsins og í þann mund sem einræðisstjórnin var að falla í Portúgal tók ein af þessum skæruliðahreyfingum völdin, hreyfingin Fretelin, en aðeins örfáum dögum eftir að hún hafði lýst yfir sjálfstæði landsins gerði indónesíski herinn innrás á eyjuna. Frá þeim tíma, í nákvæmlega 20 ár, hefur ríkt ógnarástand hjá þessari litlu þjóð, sem nú er talið að sé um 700 þúsund manns, en hefði með réttu átt að vera um það bil milljón manns. Indónesíski herinn hefur ráðið þarna lögum og lofum, beitt fjöldamorðum og ofsóknum og indónesísk stjórnvöld neita algerlega að hlusta á sjónarmið íbúanna. Ástæðan er auðvitað sú að undan ströndum eyjarinnar eru auðugar olíulindir sem Indónesar ásælast og hafa auðvitað lagt undir sig eftir þessa innrás.

Nokkrum sinnum hefur komið til mjög alvarlegra átaka á eyjunni þar sem indónesíski herinn hefur ráðist á hópa fólks, ráðist inn í þorp og framið þar fjöldamorð og hvað eftir annað hafa íbúar, flóttamenn frá Tímor og námsmenn, reynt að vekja athygli á málstað sinnar þjóðar. Það er skemmst frá að segja að í öll þessi 20 ár hefur verið samþykkt ályktun á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna sem fordæmir innrás og framferði Indónesíustjórnar en ekkert hefur gerst. Menn hafa ekki treyst sér til þess að taka af alvöru á mannréttindabrotum og framferði Indónesíustjórnar og það ræðst auðvitað af því að Indónesía er mjög auðugt land. Þar eru miklar erlendar fjárfestingar og þar eiga jafnvel ríki eins og Svíþjóð og Finnland hagsmuna að gæta og þegar hagsmunir stórfyrirtækja eru annars vegar vilja mannréttindi stundum gleymast. Þrátt fyrir það hefur tekist að vekja athygli á málefnum íbúa Austur-Tímor á undanförnum árum. Þar hafa farið í fremstu röð ýmsir listamenn. Það tókst að kynna þetta mál fyrir Al Gore, varaforseta Bandaríkjanna, og nú nýlega þegar Gro Harlem Brundtland, forsætisráðherra Noregs, heimsótti Indónesíu eftir að hún hafði verið á kvennaráðstefnunni í Kína tók hún málefni Austur-Tímor upp við indónesísku stjórnina. Málinu hefur verið haldið vakandi og þess má minnast að haustið 1994 var málefni Austur-Tímor tekið upp í ræðu þáv. utanrrh. Íslands á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Eins og kom fram í umræðum hér á þingi leituðu Indónesar eftir fundi með íslensku sendinefndinni til þess að kvarta yfir því að þeir skyldu leyfa sér að nefna þetta mál en Indónesar hafa yfirleitt tekið því mjög illa að verið sé að halda þessu máli vakandi.

Kjarni málsins er þessi: Þarna er lítil þjóð sem orðið hefur fyrir innrás og býr við herforingjastjórn sem brýtur stöðugt mannréttindi á þessu fólki og þessi litla þjóð á mjög í vök að verjast vegna þess að þarna eru miklir hagsmunir í húfi.

Þess má geta að unnið hefur verið ár eftir ár að því að reyna að sjá til þess að biskupinn í Austur-Tímor fái friðarverðlaun Nóbels. Hann hefur verið í broddi fylkingar þeirra sem reynt hafa að beita sér fyrir því að mannréttindi íbúanna væru virt og það þóttu mjög sterkar líkur til þess að hann fengi friðarverðlaunin nú í ár en svo fór ekki. Það eru reyndar ágætis samtök sem hlutu þau að þessu sinni en í tengslum við alla þá vinnu tókst að vekja athygli á málefnum Austur-Tímor. Þess má einnig geta að nánast hvar sem heimsráðstefnur eru haldnar er reynt að vekja athygli fólks á þessu hræðilega ástandi sem þarna er og m.a. á kvennaráðstefnunni í Kína. Þar voru konur frá Austur-Tímor að safna undirskriftum sem voru sendar indónesískum stjórnvöldum og jafnframt voru þær að kynna ástandið hjá sínu hrjáða fólki.

[12:00]

Ísland er eitt örfárra ríkja sem alla tíð hafa stutt tillöguna hjá Sameinuðu þjóðunum um fordæmingu á innrásinni og framferði Indónesíustjórnar og mér er kunnugt um að sá stuðningur hefur verið mikils metinn af íbúum Austur-Tímor og því fólki sem er landflótta, einkum í Ástralíu og Portúgal. Það er aðallega í Ástralíu og Portúgal sem Austur-Tímorar hafa fengið skjól og þeim þykir að sjálfsögðu mjög mikilvægt að fá stuðning, ekki síst frá ríki sem hefur þó þann kost að hafa aldrei komist í skýrslur Amnesty International yfir þær þjóðir sem beita mannréttindabrotum, þótt hugsanlega væri hægt að leiða rök að því að ýmislegt mætti betur fara hér í okkar samfélagi.

Því er það, hæstv. forseti, að við kvennalistakonur viljum halda þessu máli vakandi og vekja athygli á ástandinu í þessu litla ríki, ekki síst til þess að brýna íslensk stjórnvöld til að fylgjast með og halda vöku sinni þar sem við getum beitt okkur á alþjóðavettvangi og eins og ég sagði hér áðan: Ég veit að það skiptir máli.

Því er þessi tillaga flutt og að lokinni umræðu legg ég til að málinu verði vísað til síðari umræðu og hv. utanrmn.