Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1994

Fimmtudaginn 09. nóvember 1995, kl. 15:02:32 (841)

1995-11-09 15:02:32# 120. lþ. 32.6 fundur 73#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1994# (munnl. skýrsla), EKG
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur


[15:02]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi þakka hæstv. forsrh. fyrir mjög greinargóða og athyglisverða skýrslu um byggðamál og starfsemi Byggðastofnunar. Ég tel raunar að það sé mjög þarft að við getum árlega fengið tækifæri af þessu tagi til að efna til nokkurrar umræðu um byggðamálin, starfsemi hinnar mikilvægu Byggðastofnunar og byggðamálin í víðu samhengi enda er óhugsandi í sjálfu sér að ræða starfsemi Byggðastofnunar án þess að koma almennt inn á umræðuna um byggðamálin eins og þau blasa við hverju sinni.

Ég tel raunar að skýrsla Byggðastofnunar hafi á vissan hátt sérstöðu í landinu, sérstöðu sem skýrsla frá lánastofnun og styrkveitingastofnun eins og þessari að því leytinu að þar eru þó þrátt fyrir allt birtar allar lánveitingar sem stofnunin veitir á hverju ári og allar styrkveitingar. Auðvitað má segja sem svo, eins og hv. 5. þm. Reykn. sagði hér áðan, að það mætti vera ítarlegri lýsing á hverri styrkveitingu og hverri lánveitingu en ég held að samt sem áður ef menn vilja vera sanngjarnir finni menn ekki í öðrum ársskýrslum af þessu taginu jafnítarlega útlistun á starfsemi stofnunarinnar og við sjáum þrátt fyrir allt í þessari skýrslu. Ég vek t.d. athygli á því að á ári hverju veitir Alþingi fé til ýmissa sjóða sem gera Alþingi ekki grein fyrir ráðstöfun síns fjár með einum eða neinum hætti nema eftir því sé þá leitað sérstaklega með sérstökum þingskjölum, t.d. í fyrirspurnaformi. Þar get ég nefnt veigamikla og mjög mikilvæga sjóði eins og Framkvæmdasjóð aldraðra sem fær samkvæmt frv. til fjárlaga fyrir næsta ár 490 millj. kr. eða Framkvæmdasjóð fatlaðra sem fær til sinnar ráðstöfunar 257 millj. kr. án þess að Alþingi fái sérstaklega upplýsingar t.d. í skýrslu á borð við þá sem hér liggur fyrir frá Byggðastofnun um hvernig þessum fjármunum er ráðstafað. Mér hefur þó aldrei komið í hug að á bak við það sé neitt ankannalegt eða neitt sérstakt. Ég hef fullt traust á þeim aðilum sem sitja í stjórnum þessara sjóða en ég vek athygli á því að Alþingi samþykkir á hverju ári með eðlilegum hætti fjárveitingar til slíkra sjóða án þess að við höfum ætlast til þess að þeir leggi fram í sérstöku skýrsluformi, hvað þá að efnt sé til sérstakrar umræðu um það, hvernig þessum fjármunum sé ráðstafað.

Ég er alveg sammála því sem fram hefur komið. Að sjálfsögðu verður Byggðastofnun að gæta fyllsta aðhalds í rekstri sínum. Það er ugglaust auðvelt að finna ýmislegt í rekstri stofnunarinnar, hvað þá útlánum eða styrkveitingum, sem kann að orka tvímælis. Það eru alveg sérstaklega hagsmunir landsbyggðarinnar að Byggðastofnun haldi vel á sínu fé til þess að það nýtist sem best til þeirrar atvinnulegu uppbyggingar sem þörf er á víða úti um landið. Þess vegna er nauðsynlegt á hverjum tíma að Byggðastofnun reyni eftir föngum að halda rekstri sínum í skynsamlegu lágmarki til þess að nýta peningana betur til annarra verkefna úti um landið sem þörfin kallar á.

Það er þannig í starfsemi Byggðastofnunar að embættismenn stofnunarinnar hafa reynt eftir föngum að fylgjast með hvernig til hefur tekist bæði með lánveitingar og styrkveitingar sem stofnunin efnir til. Ef ég veit rétt hefur stofnuninni verið falið að hafa eftirlit með úthlutun t.d. styrkja á vegum félmrn. til atvinnuuppbyggingar kvenna, einmitt vegna þess að stofnunin hefur til að bera sérfræðilega þekkingu og mekanisma til að fylgjast nákvæmlega með því hvernig þessum peningum er ráðstafað og sú regla er alltaf höfð í heiðri í stofnuninni að greiða ekki út nema hluta af viðkomandi styrk en eftirstöðvar þegar fyrir liggur hvernig til hefur tekist og hvort þeir peningar hafi raunverulega verið teknir til þeirra nota sem þeir voru ætlaðir til.

Þetta segir ekki þar með að stofnunin þurfi ekki að líta vel í eigin barm og fylgjast með sínum eigin rekstri eins og ég sagði áðan. Að sjálfsögðu ber að gera það. Ég vil hins vegar vekja athygli á því að þessi háttur er hafður á, styrkveitingarnar fara að sjálfsögðu ekki án skipulags út og að baki því er fagleg umsögn embættismanna en hin endanlega ákvörðun er að sjálfsögðu hjá stjórn stofnunarinnar.

Það sem einkennir á vissan hátt skýrslu Byggðastofnunar að þessu sinni eins og oft áður er fjölbreytileiki þeirra verkefna sem stofnunin hefur verið að styðja við, ýmist með styrkveitingum ellegar þá með lánveitingum. Það tel ég í sjálfu sér vera styrkleikamerki hjá þessari stofnun vegna þess einfaldlega að ég held að við ættum að hafa lært það af langri og biturri reynslu að lausnin á vanda í atvinnumálum og lausnin á vanda landsbyggðarinnar felst ekki í einhverjum stórum töfralausnum sem menn hafa sett fram í gegnum tíðina. Við höfum þegar fengið af þessu dýrkeypta reynslu. Ég held þess vegna að það sé styrkur Byggðastofnunar og styrkur landsbyggðarinnar þegar við sjáum að mjög víða úti um land er fólk að reyna að bjarga sér af litlum efnum og þarf kannski ekki mjög mikið fjármagn til aðstoðar við smærri og stærri verkefni en stuðningur frá stofnun á borð við Byggðastofnun, þó lítill sé í hvert og eitt sinn, skiptir mjög miklu máli. Það getur vel verið að sum þessara verkefna hljómi ankannalega í okkar augum sem þekkjum þau ekki ítarlega eða glöggt en ég fullyrði að það eru einmitt þessi litlu verkefni, þessi litlu atvinnutækifæri, smáfyrirtækin, ekki síst úti um landið sem eru í ákveðinni uppbyggingarsókn. Stofnun sem hefur þrátt fyrir allt ekki úr meira fjármagni að spila getur auðvitað ekki varið því betur, að minnsta kosti hvað styrkveitingar áhrærir, en einmitt til þess að styðja við bakið á slíkri atvinnustarfsemi. Gagnstætt því sem sumum finnst kannski finnst mér einmitt þetta einkenni skýrslunnar, að þar er um að ræða fjölbreytileika og mörg smáatvinnutækifæri sem verið er að styðja við, skipta miklu máli.

Virðulegi forseti. Ég velti fyrir mér þeirri spurningu sem hv. 5. þm. Reykn. vék að áðan sem var hvort byggðaröskun væri í sjálfu sér óæskileg eða óumflýjanleg. (Gripið fram í: Eða hvort það væri hlutverk Byggðastofnunar.) Eða hvort það væri hlutverk Byggðastofnunar að hamla á móti byggðaröskun ef ég skildi rétt hv. þm. í öllum tilvikum. Ég er þeirrar skoðunar að byggðaröskun í sjálfu sér sé alltaf óumflýjanleg vegna þess að þjóðfélagið er að breytast. Byggðamynstrið í dag verður örugglega ekki það sama og á morgun eða eins og það var í gær. En við skulum ekki ímynda okkur það að byggðaþróunin í landinu hafi verið algjörlega eftir einhverjum sjálfkrafa farvegi og án íhlutunar stjórnvalda. Að sjálfsögðu hefur þéttbýlismyndunin á undanförnum árum m.a. orðið vegna afskipta stjórnvalda. Hvað halda menn t.d. um afskipti ríkisvaldsins af gengisþróun í landinu, peningamálastefnunni, vaxtastiginu og rekstrarskilyrðum atvinnulífsins? Halda menn að það hafi ekki haft áhrif á byggðaþróunina í landinu? Ímyndar sér einhver að t.d. sú staðreynd að við höfum búið við viðvarandi viðskiptahalla þannig að það hallaði á útflutningsgreinarnar en var til hagsbóta fyrir þjónustugreinarnar hafi ekki haft áhrif á byggðaþróun í landinu? Að sjálfsögðu. Þess vegna er auðvitað ósanngjarnt að segja: Byggðaþróun hefur verið neikvæð þrátt fyrir Byggðastofnun. Það er svo fjöldamargt sem spilar inn í og veldur þeirri byggðaþróun sem við höfum séð á undanförnum árum. Þess vegna er það frumskilyrðið og verður auðvitað að ræða í þessu samhengi að efnahagsstefnan og stefnan í atvinnumálunum sé hagstæð, ekki síst fyrir atvinnugreinar landsbyggðarinnar. Og annað vil ég nefna. Stundum hefur verið rætt um þörfina á því að færa ríkisstofnanir út á land. Ég skal játa að fyrir nokkrum árum var ég ákafur talsmaður þessa sjónarmiðs og tel raunar að það eigi fullan rétt á sér. Ég hef hins vegar skynjað það að þetta er mjög erfitt. Við munum t.d. dæmið um veiðistjóraembættið og fleiri dæmi sem mætti rekja þar sem þetta kostaði gríðarleg átök. Ég hef þess vegna velt því fyrir mér hvort að við ættum ekki heldur að reyna að setja þá markið aðeins lægra og segja: Þegar við setjum niður nýjar stofnanir reynum við að setja þær niður fremur úti á landi. Átökin við það að færa til stofnanir af höfuðborgarsvæðinu út á land eru svo mikil, útheimta mikla orku og bera því miður sjaldan árangur. En það er einmitt þessi ákvörðun um það hvar opinberri þjónustu er valinn staður sem hefur gríðarleg áhrif á byggðaþróun í landinu.

Mér telst svo til að á síðasta áratug hafi um sjö af tíu opinberum störfum orðið til á höfuðborgarsvæðinu. Það er auðvitað á vissan hátt pólitísk ákvörðun. Ekkert segir að allar þessar ríkisstofnanir, sem eru nú til staðar hér á höfuðborgarsvæðinu, gætu ekki fullt eins vel dafnað og þróast annars staðar á landinu. Það er bara einhvern veginn þannig að fyrst setja menn niður eina stofnun, við skulum segja t.d. á sviði vísindamála, Hafrannsóknastofnun, Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, svo ég taki dæmi og síðan þegar þarf að velja nýrri stofnun stað, sem starfar kannski á líku sviði þá segja menn: Allt hið akademíska umhverfi á þessu sviði er í Reykjavík, það er óhjákvæmilegt að næsta stofnun sé þar líka og síðan koll af kolli.

Ég hef stundum velt því upp t.d. hvort það hafi verið einhver sérstök rök fyrir því að Tækniskóli Íslands var staðsettur í Reykjavík. Staðsetning hans hafði t.d. mikil áhrif á uppbyggingu tækniiðnaðarins í landinu og þannig mætti áfram telja. Þess vegna segi ég, virðulegi forseti, að byggðaþróunin í landinu er ekkert óumflýjanleg. Hún er að stóru leyti vegna pólitískra ákvarðana. Afskipti ríkisvaldsins, byggðastefna með öfugum formerkjum af því taginu sem ég hef hérna verið að rekja, hefur valdið því að byggðirnar hafa þróast með þessum hætti. Ég endurtek að ég er alls ekki þeirrar skoðunar að byggðaröskun sé óæskileg, ég held að hún sé óumflýjanleg. En þá megum við ekki vera svo blind að við ýtum undir þá byggðaröskun með pólitískum ákvörðunum af því taginu sem ég var að rekja. Ýmist með því að stilla af efnahagsstefnuna þannig að það sé óhagkvæmt fyrir atvinnugreinar landsbyggðarinnar eða með því að velja t.d. opinberum stofnunum sem eru mjög mannaflsfrekar alltaf stað á höfuðborgarsvæðinu en ekki úti á landi.

[15:15]

Ég held, virðulegi forseti, að það sé mjög óæskilegt, ekki síst fyrir landsbyggðina, að sú umræða sem stundum hefur farið fram um byggðamálin hafi verið sett fram í formi togstreitu milli þéttbýlis og dreifbýlis. Ég held að talsmenn dreifbýlisins og þéttbýlisins ættu að leggja sig fram um að reyna að komast að skynsamlegri sátt um byggðastefnuna í landinu.

Hlutverk Byggðastofnunar hefur á margan hátt verið að breytast upp á síðkastið eins og glögglega má sjá af lestri skýrslunnar. Hlutverk hennar sem lánastofnunar hefur verið að minnka þó ég telji sjálfur að það sé ekki æskilegt að það hverfi algjörlega, m.a. vegna þess sem hæstv. forsrh. sagði hér áðan, að útlánastörf Byggðastofnunar hafa á vissan hátt staðið undir rekstri stofnunarinnar og skapað þannig svigrúm til að standa fyrir annarri atvinnuþróunarstarfsemi. Það þarf að efla áfram atvinnuráðgjöf á vegum Byggðastofnunar einmitt vegna þess að mörg fyrirtæki á landsbyggðinni eru þess vanmegnug að leita sérfræðilegrar ráðgjafar sem nauðsynleg er í nútímaþjóðfélagi og ég held að Byggðastofnun geti m.a. átt þátt í að auðvelda þessa ráðgjöf fyrir fyrirtæki á landsbyggðinni sem ella yrðu algjörlega án hennar. Í þessu sambandi vil ég ekki síst nefna ferðaþjónustuna sem er, á að vera og hlýtur að verða atvinnugrein á landsbyggðinni af ýmsum ástæðum og þar þarf einmitt að efla ráðgjöf. Ég tel að það væri skynsamlegt af Byggðastofnun að taka í því sambandi upp samstarf við Ferðamálaráð sem er auðvitað sérfróður aðili á því sviði.

Virðulegi forseti. Ég ítreka þakkir mínar til hæstv. ráðherra fyrir góða skýrslu um starfsemi Byggðastofnunar. Það er örugglega rétt sem hér hefur verið sagt að það er mjög margt sem mætti betur fara í rekstri stofnunarinnar eins og að sjálfsögðu allra stofnana. Það er auðvitað ætlun þeirra sem þar starfa nú að vinna að því.