Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1994

Fimmtudaginn 09. nóvember 1995, kl. 15:23:52 (845)

1995-11-09 15:23:52# 120. lþ. 32.6 fundur 73#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1994# (munnl. skýrsla), EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur


[15:23]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst nú einhvern veginn að hin vestfirska taug í hv. þm. sé farin að dofna úr því að henni finnst að þetta sé að taka hlutina óstinnt upp. Þær umræður sem hér hafa farið fram, teljast nú frekar meinleysislegar og rólegar vestur á fjörðum. En ég tel að umræða okkar hér í dag sé einmitt til þess fallin að reyna að varpa ljósi á skýrslu Byggðastofnunar. Það má vel vera að ástæða væri til að hafa skýrsluna efnismeiri og gefa ítarlega skýrslu um hvern smástyrk sem veittur er. En það er kannski frekar spurning um form. Ég ítreka einfaldlega að mér finnst að í þessari skýrslu, samanborið við það sem við eigum almennt að venjast, séu tiltölulega glöggar upplýsingar um starfsemi Byggðastofnunar. Ég vek líka athygli á því að í þeirri stefnumótandi byggðaáætlun sem Alþingi samþykkti og var afrakstur af starfi Byggðastofnunar, er auðvitað farið miklu ítarlegar ofan í grundvallaratriði varðandi mótun byggðastefnu en tækifæri eru til í þessari ársskýrslu. Ef við viljum fjalla um það sérstaklega er miklu eðlilegra að gera það á grundvelli þeirrar stefnumótandi ályktunar sem hæstv. ráðherra raunar vék aðeins að í sínu máli hér áðan. Það væri auðvitað miklu frekar tilefni til slíkrar umræðu.