Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1994

Fimmtudaginn 09. nóvember 1995, kl. 15:27:52 (847)

1995-11-09 15:27:52# 120. lþ. 32.6 fundur 73#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1994# (munnl. skýrsla), EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur


[15:27]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér hefur satt að segja aldrei dottið í hug að hv. 5. þm. Vestf. væri því sérlega andsnúinn að flytja stofnanir út á land, svo framarlega sem hægt er að koma því við. En ég man hins vegar mætavel úr þessari umræðu um veiðistjóraembættið, að þau sjónarmið voru vissulega reifuð. Ég veit að hæstv. fyrrv. umhvrh. getur staðfest það. Þau sjónarmið voru vissulega reifuð að óskynsamlegt væri að færa þessa stofnun út á land. Fyrir því flutti einhver rök sem ég ekki man og hirði ekki um að muna. Það er einfaldlega þannig, virðulegi forseti, að í hvert skipti sem vakið er máls á því að flytja einhverja tiltekna stofnun út á land, rísa upp öfl sem finna því allt til foráttu. Auðvitað er alltaf hægt að benda á tiltekna annmarka á því að færa til stofnanir. Það er ákveðin röskun sem því fylgir fyrir bæði starfsmenn stofnunarinnar og hana sjálfa. Þótt hv. 5. þm. Vestf. eða félagar hans hafi ekki haldið þessu fram, þá var þessu sannarlega haldið fram á sínum tíma, bæði leynt og ljóst. Og sama var upp á teningnum þegar ákveðið var á sínum tíma að flytja Skógræktina út á land. Menn risu upp, auðvitað undir ýmsum formerkjum. En einnig þeim formerkjum að það væri óskynsamlegt að flytja þetta út á land. Þó hv. þm. hafi setið í þeirri nefnd sem hafði málið til meðferðar, var óþarfi af honum að taka orðum mínum sem svo að ég væri að gagnrýna hann eða ýmsa félaga hans fyrir þetta. Ég veit vel hug hv. þm. í þessum málum og ég hygg að við séum býsna sammála í þessum efnum.