Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1994

Fimmtudaginn 09. nóvember 1995, kl. 15:32:09 (850)

1995-11-09 15:32:09# 120. lþ. 32.6 fundur 73#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1994# (munnl. skýrsla), EgJ
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur


[15:32]

Egill Jónsson:

Virðulegi forseti. Ég hlýt að þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram og sem ber þess raunar nokkur merki að það er ekki uppi sérstaklega mikil spenna í kringum byggðamálin um þessar mundir því það er rétt sem hefur komið fram í þessari umræðu að stundum hefur verið farið vítt yfir svið og nokkuð hart deilt í undir þeim dagskrárlið sem hér er nú til umræðu. Mér finnst sérstaklega vert að vekja athygli á því í upphafi míns máls vegna þess að menn eru að tala hér um stofnun sem deili út miklu fé að það raunar heyrir til hinum liðna tíma. Byggðastofnun og þá sérstaklega forveri hennar, Framkvæmdastofnun, réði yfir miklum fjármunum og stórum sjóðum og deildi út miklu fjármagni. Það gerir Byggðastofnun ekki nú til dags. Ég hygg að sum ráðuneytin hafi jafnmikið fjármagn í t.d. styrkveitingar eins og Byggðastofnun hefur til almennra styrkveitinga í þessum efnum. Það er ekki síst þess vegna að það er afar þýðingarmikið, eins og hefur komið fram í máli hv. 1. þm. Vestf., að vel sé farið með þessa peninga og að þess sé gætt að kostnaður við rekstur þessarar stofnunar sé í mikilli endurskoðun og þar sé höfð góð gát á öllum hlutum.

Það er ekki síst af þessari ástæðu að tekin var ákvörðun um það í ágústmánuði sl. að gerð skyldi stjórnsýsluúttekt á Byggðastofnun. Þeir sem hafa sérstaklega verið að kvarta yfir því hér að ekki væri upplýst með hvaða hætti verkefni skiluðu sér frá Byggðastofnun þá veit ég enga aðferð betri en að fá Ríkisendurskoðun til þess að gera slíka úttekt. Það gefur hins vegar auga leið að það er enginn vegur að leggja inn með þessari skýrslu þær skýringar og þau frumgögn sem fylgja sérhverri umsókn eða kölluð eru fram við skoðun á slíkum umsóknum. En þeir sem í alvöru eru að tala um knappar upplýsingar eiga afskaplega auðvelt með að kalla eftir þeim frá embættismönnum Byggðastofnunar þar sem allar ákvarðnir liggja fyrir í skýrslu Byggðastofnunar og það er hægur vandinn að leita þá eftir nánari skýringum þar um.

Ég ætla ekki að fara yfir þennan þátt umræðunnar miklu nánar. Ég vil hins vegar segja það út af því sem kom fram í máli hv. 5. þm. Reykn. að ég held að það væri afar þýðingarmikið fyrir þann hv. þm. að setja sig betur inn í málefni í sínu kjördæmi og fara nákvæmar yfir það með sínum sveitarstjórnarmönnum hvaða samstarf þeir hafa við stjórn Byggðastofnunar. Ég held að síðan ég tók við formennsku í Byggðastofnun, það kann nú að vera eitthvað af mannfræðilegum ástæðum vegna þess að ég er nú staddur um þessar mundir á suðvesturhorni landsins, að engir hafi haft meira samband við mig en einmitt bæjarstjórnarmenn og forustumenn í atvinnulífi á Suðurnesjum. Og þó að ekki hafi verið gerð nein úttekt á því hversu mörg erindi berast úr hverju kjördæmi né heldur hvernig þeim er sinnt, þá þori ég alveg að fullyrða að það eru ekki lögð til grundvallar nein kjördæmamörk í þeim efnum. Ekki með nokkrum einasta hætti. Þetta er reyndar ekki það eina sem heyrst hefur af Suðurnesjum í þessum efnum að fólk setur sig ekki nægjanlega vel inn í málefni síns eigin kjördæmis og er þá frekar með einhverja umvöndun í sambandi við störf Byggðastofnunar í þessum efnum.

Annað dæmi sem ég vil líka aðeins minnast á eru styrkveitingarnar sem reyndar eru afskaplega litlar og sérstaklega núorðið. Ég var reyndar með efasemdir um að jafnlítið fjármagn og þar er á ferðinni skilaði árangri. Ég hef hins vegar komist að þeirri niðurstöðu að það gagnstæða á sér einmitt stað og ég veit um mörg dæmi. Nú er það svo og það verða menn auðvitað að athuga, þar á meðal hv. 2. þm. Vestf., að hér er um áhættufjármagn að ræða. Það hlýtur að vera fullkomið tilefni til þess að á vettvangi þróunarmála þá taki Byggðastofnun áhættu í þessum efnum. Það gerði hún þegar hún gekk til stuðnings við kaupfélagið á Sauðárkróki eða öllu heldur rafmagnsverkstæði þar um stuðning við nýjungar í atvinnulífinu. Byggðastofnun tók að sér að leggja fram fjármagn sem svaraði 10% af þessum kostnaði. Það kom reyndar fjármagn frá fleiri aðilum til stuðnings við þetta verkefni þannig að alls voru styrkir til þess u.þ.b. einn fimmti af kostnaðinum. En það fékkst mjög mikilvægur árangur í þessum efnum og langstærsti hluturinn kom frá fyrirtækinu sjálfu. En hvað sögðu svo þeir sem þarna áttu hlut að máli? Þeir sögðu að það fjármagn sem kom frá Byggðastofnun hefði skipt sköpum í sambandi við þróun þessa verkefnis og þá niðurstöðu sem fékkst. Þetta voru þeirra eigin orð. Það er miklu víðar sem ég hef einmitt orðið var við að tiltölulega lítið fjármagn, sem hefur verið lagt fram með þessum hætti, hefur skilað mjög mikilvægum árangri.

Ég tek líka sérstaklega undir það sem kom fram í ræðu hv. 1. þm. Vestf. að auðvitað eru störf Byggðastofnunar og ef við getum talað um árangur á þeim vettvangi í nánum tengslum við umhverfið í atvinnulífinu og í atvinnumálum í landinu hverju sinni. Það er alveg augljóst mál, svo ég taki síðasta kjörtímabil og væri auðvitað hægt að rekja þá sögu lengra til baka, að Byggðastofnun hefur haft mikilvægu hlutverki að gegna til þess að hjálpa atvinnulífinu við að rekja sig. Meðan atvinnulífið hefur ekki til hnífs og skeiðar, meðan reksturinn er ekki þannig að hagnaður verði og fyrirtækin geti þannig ekki staðið við skuldbindingar sínar þá auðvitað verða þau að rekja sig með lánsfé. Þannig hefur þetta verið um allt of langan tíma. Það er líka þess vegna sérstaklega mikilvægt að meta það að atvinnulífið hefur núna allt annað og miklu betra umhverfi en það hefur haft um mjög langan tíma. Þetta verða þeir ekki síst varir við sem bera ábyrgð á störfum Byggðastofnunar því einmitt við þá er komið á framfæri margvíslegum nýjungum og margvíslegum áformum um að þróa og gera enn þá betur í fyrirtækjunum en menn hafa átt kost á áður.

Það væri hægt að rekja þessa sögu með miklu meiri nákvæmni en það er grundvallaratriði fyrir þing og þjóð að meta þessar breyttu aðstæður. Sérstaklega þarf Byggðastofnun að laga starf sitt að þessum breyttu tímum. Það er afar mikill misskilningur að Byggðastofnunar sé sérstaklega þörf þegar illa árar. Auðvitað er hennar þörf þá líka en það er ekki síður ástæða til að hún beiti afli sínu þegar möguleikar eru til vaxtar og sóknar í hinum ýmsu greinum atvinnulífsins eins og nú er. Þegar menn eru að tala um, eins og kom hér fram hjá hv. 5. þm. Reykn., að það þurfi að beita sérstökum ráðgjöfum eða átaksverkefnum til þess að fá fram ný störf og hugmyndir þá get ég alveg sagt það að ég hef ekki sérstaklega mikla trú á því. Það sem skilar árangri í þessum efnum eru störf og viðfangsefni fólksins í landinu. Ég hef ekki sérstaka trú á því að hópur af embættismönnum geti lagt atvinnulífinu einhverja sérstaka möguleika upp í hendurnar í þessum efnum. Aftur á móti er miklu frekar hægt að verða að liði þegar menn ganga fram með nýjungar og hugmyndir og þá hlýtur stofnun eins og Byggðastofnun að þurfa og eiga að taka áhættu með slíku starfi.

[15:45]

Það er einu sinni svo að grundvallaratvinnuvegirnir leggja grunn að því hvernig byggðin þróast í landinu. Auðvitað er það saga sem hefur verið nógu oft sögð til þess að hún sé ekki sérstaklega endurtekin hér en þó er vert að undirstrika það alveg sérstaklega. Það er afkoman í sjávarútvegi, það er afkoman í landbúnaði og það er ferðaþjónustan. Þessar þrjár atvinnugreinar eru hin raunverulega auðlind úti á landsbyggðinni og sem atvinnulífið nærist af. Auðvitað koma svo önnur atvinnumarkmið og atvinnuumsvif í kjölfar þess sem þessir atvinnuvegir sem slíkir skapa.

Nýjustu fréttir af því hvaða árangur hefur orðið af eflingu ferðamannaþjónustunnar í landinu eru eftirtektarverðar. Á fundi í hv. samgn. Alþingis var okkur tjáð að hagnaður ríkissjóðs af þeirri aukningu sem hefur orðið í ferðaþjónustunni á milli tveggja síðustu ára nemi 600 millj. kr. Menn beri þetta saman við t.d. það sem áformað er í niðurskurði til samgöngumála sem eru þó aflvakinn að því að þessi árangur hefur náðst.

Virðulegi forseti. Það væri ýmislegt fleira sem væri hægt að fjalla hér um. Ég endurtek þakklæti mitt fyrir umræðuna en læt máli mínu hér lokið.