Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1994

Fimmtudaginn 09. nóvember 1995, kl. 15:50:04 (851)

1995-11-09 15:50:04# 120. lþ. 32.6 fundur 73#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1994# (munnl. skýrsla), SJS
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur


[15:50]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um ársskýrsluna enda geta menn lesið hana á hvern þann hátt sem þeim sýnist og hún talar svo sem fyrir sig sjálf. Þar er um tiltölulega hefðbundna greinargerð um störf Byggðastofnunar að ræða en ég lít svo á að þessi umræða sé ekki síður tilefni til að ræða stöðu byggðamála undir formlegum dagskrárlið á þingi og slíkt tækifæri er að sjálfsögðu kærkomið.

Ljóst er að hlutverk Byggðastofnunar sem lánastofnunar hefur minnkað á undanförnum árum og það er mér ósárt um svo lengi sem stofnunin er að öðru leyti vel í stakk búin til að sinna verkefnum sínum eða þeim er með einhverjum öðrum hætti sinnt, þ.e. að upplýsingum sé safnað um þróun byggðamála og einhverri stefnumótun, ef menn vilja á annað borð viðhafa einhverja opinbera stefnu um byggðaþróun í landinu, sé haldið til haga og eitthvert stjórntæki eða stjórnsýslustofnun sé til í þjóðfélaginu til að framfylgja slíku.

Stundum er rætt þannig um byggðamál og byggðaröskun, sem svo er kallað og felur að mínu mati í sér óæskilegar breytingar eða röskun sem er ekki samrýmanleg því sem fælist í orðinu þróun eða breytingar, að slíkt gerist í krafti einhverra æðri lögmála sem enginn fái rönd við reist. Ég held að þetta sé á miklum misskilningi byggt. Búsetuþróun er að mínu mati nánast undantekningarlaust afleiðing af meðvituðum ákvörðunum sem teknar eru hvað sem mönnum svo sýnist um þær að öðru leyti.

Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, 1. þm. Vestf., ræddi áðan um þetta og rakti nokkur dæmi um það sem hefði áhrif á byggðaþróun í landinu og væri á grundvelli meðvitaðra ákvarðana stjórnvalda. Ég held að það megi bæta við það sem hann tiltók og laut aðallega að efnahagsstjórnun, hlutum eins og skráningu á gengi og öðru slíku, og vissulega hefur áhrif á innbyrðis starfsskilyrði atvinnugreina og þar með á byggðamál eftir því sem þær atvinnugreinar eru misjafnlega dreifðar um landið. Ég leyfi mér að nefna stærsta einstaka þáttinn sem hefur haft langmest áhrif á búsetuþróunina í landinu á undanförnum áratugum og er í valdi stjórnvalda. Það er ákvörðun um uppbyggingu sameiginlegrar þjónustu landsmanna, hvar hún er staðsett og hvernig henni er dreift um landið. Það er langstærsti einstaki þátturinn þar sem um er að ræða stórfelldar ákvarðanir sem skipta sköpum og þúsundir starfa fylgja með öllum tilheyrandi margfeldisáhrifum. Það eru pólitískar ákvarðanir sem fylgja staðsetningu opinberra stofnana og uppbyggingu samfélagslegrar þjónustu í landinu. Í smækkaðri mynd á þetta líka að nokkru leyti við um hlutföll milli einstakra sveitarfélaga.

Umræður um þetta eru að sjálfsögðu ekki nýjar af nálinni og svo snemma sem á síðustu öld voru menn farnir að velta fyrir sér kostum þess og göllum að búsetumynstrið í landinu væri að breytast. Að sjálfsögðu er það ekki þannig að þar eigi allt að vera óumbreytanlegt. Þar hlýtur eðli málsins samkvæmt að vera í gangi þróun og á að vera að mínu mati en það breytir ekki hinu að stjórnvöldum ber að hafa stefnu og meðvitaða stefnu um það hvernig menn vildu sjá hlutina þróast, hvaða áhrif þeir vilja hafa á það sem gerist annars tilviljanakennt eða að breyttu breytanda.

Ég held að það væri fróðlegt fyrir ýmsa að lesa ræðu sem Gunnar heitinn Thoroddsen, þáv. borgarstjóri í Reykjavík, seinna hæstv. forsrh., flutti á borgarstjóraárum sínum í kringum 1950 ef ég man rétt. Þá eins og stundum áður var mikil umræða í þjóðfélaginu um búferlaflutninga og fólk streymdi hingað til Reykjavíkur og suðvesturhornsins í kjölfar mikillar uppbyggingar sem var hér á stríðsárunum og árunum þar á eftir. Borgarstjórinn í Reykjavík, þessi sem ég nefndi, velti upp þeim fleti á þessu máli hvort það væri hagfelld þróun fyrir borgina að hingað streymdi fólk í jafnstórum stíl og raun bar vitni og hann taldi svo ekki vera. Það væri síður en svo af hinu góða fyrir borgina að þessi mál þróuðust of óskipulega og stjórnlaust. Mikið aðstreymi fólks á skömmum tíma inn í eitt sveitarfélag eins og Reykjavík væri alls ekki hagstætt borginni og ekki heldur heildarhagsmunum landsmanna. Það væri miklu betra að hlutirnir gerðust rólega. Ég bendi mönnum á að verða sér út um ágæta bók þar sem birtar eru ræður og greinar þessa merka manns, þar á meðal þessi sem ég vitna hér til og hann flutti einhvern tímann á þessum árum sem borgarstjóri í Reykjavík.

Ég vil svo segja, herra forseti, að staða byggðamála á Íslandi og sú búseturöskun sem í gangi er og fer nú vaxandi ár frá ári er mikið áhyggjuefni. Aftur er hafið mjög mikið óheillatímabil í þessum efnum. Staðreyndin er sú, og þá geta menn flett upp á bls. 6 í skýrslunni, þar er ágæt mynd af þróuninni eins og hún hefur verið um nokkurt árabil, að sá jákvæði tími sem hefst í kringum 1970 eða 1971 og leiddi til þess að á árunum sem fylgdu í kjölfarið snardró úr búseturöskun og í hönd fór eina jákvæða tímabilið í skilningi þess að þá fjölgaði fólki ekki síður á landsbyggðinni en á suðvesturhorninu á árunum 1975--1978. Á árunum 1979--1980 var aftur nokkurn veginn jafnvægi en þá hófst langt tímabil neikvæðrar þróunar í þessum efnum þar sem vaxandi fjöldi fólks flutti á hverju ári af landsbyggðinni og til suðvesturhornsins þangað til svo var komið að það var talsvert á annað þúsund manns á árinu 1988. Þá snerist að vísu þessi þróun við og í kjölfarið, á árabilinu 1989--1991, má segja að þetta hafi aftur þróast í rétta átt. Það dró úr flutningunum en síðan snýst þetta aftur við og nú hafa þrjú ár í röð, árin 1992, 1993 og 1994, verið öll sama marki brennd að vaxandi fjöldi flyst af landsbyggðinni ár frá ári, að sjálfsögðu að breyttu breytanda þó þar séu einstök svæði sem ná að halda sínum hlut. Það bendir ekkert til annars en árið 1995 verði enn verra en það sem á undan er gengið. Þetta, herra forseti, er mikið áhyggjuefni. Ekki er hægt að ræða um byggðamál eins og þessi staðreynd sé ekki til. Hún er þarna og nú stefnir í það ef að líkum lætur að 1.000 manns flytjist með þessum hætti með tilheyrandi áhrifum á þjóðarhag.

Þessa staðreynd er líka rétt að hafa í huga þegar hér er nefnt annað mál sem mér fyndist sérkennilegt að ekki bæri eitthvað á góma í dag og það eru áform um fyrirhugaða byggingu álvers á suðvesturhorninu og frekari stóriðjuframkvæmdir sem kunna jafnvel að vera í farvatninu og eru allar því miður því marki brenndar það ég best veit að þar er rætt um staðsetningu mannvirkjanna á suðvesturhorni landsins. Ég veit ekki betur en að það sé svo að álverið í Straumsvík að sjálfsögðu verði stækkað á þeim stað enda yrði ekki um stækkun þess að ræða ef það væri staðsett annars staðar nema þá að það gæti verið í nafni sama fyrirtækis. Boðað er að álversframkvæmdir á Keilisnesi kunni að komast á dagskrá á nýjan leik þar sem risastórt mannvirki var áformað. Það er boðað að Bandaríkjamenn séu áhugasamir um uppbyggingu álvers og þá staðsett á Grundartanga og fjórða stóriðjuframkvæmdin sem talin er hugsanlega vera í farvatninu er viðbótarofn á Grundartanga. Allar eru þessar framkvæmdir sama marki brenndar, þær eru staðsettar hér. Ég hef satt best að segja varla heyrt í umræðunni undanfarna daga að þetta sé nema svo að segja sjálfsagður hlutur. Er það virkilega orðið svo að menn gætu hugsað sér að yrðu kannski reist mörg stóriðjuver á sama árabilinu og öll staðsett á svipuðum slóðum og virkjuð yrðu í stórum stíl fallvötn í öðrum landshlutum og öll orkan flutt hingað til úrvinnslu, með þeim afleiðingum að það kæmi kannski tímabundin þenslukippur í atvinnulíf í fjarlægum landshlutum í eitt til þrjú ár á meðan virkjunarframkvæmdir stæðu þar yfir og síðan búið? Margfeldisáhrifin kæmu öll fram hér og ný langtímastörf yrðu öll hér. Það var þó a.m.k. þannig þegar verið var að ræða um álver á Keilisnesi fyrir nokkrum árum að þáv. stjórnvöld ræddu samtímis um nauðsynlegar jafnvægisaðgerðir í byggðamálum til þess að landið mundi ekki sporðreisast enn frekar en orðið er í þessum efnum. Samtímis þessu liggur fyrir á Alþingi fjárlagafrv. þar sem mikilvægustu opinberu framkvæmdir í mörgum landshlutum, samgönguframkvæmdirnar eru skornar niður við trog.

[16:00]

Ég vil spyrja hæstv. forsrh.: Sér hann fyrir sér að þessar áherslur geti gengið svona fram samtímis? Að hér verði líka ráðist í stóriðjuframkvæmdir, svo ágætar sem þær kunna að vera? Ég vona svo sannarlega að viðbótarstóriðjurekstur í Straumsvík sé okkur hagstætt mál, ef nauðsynlegar forsendur um raforkuverð og umhverfismál eru uppfylltar. En sér hæstv. forsrh. það fyrir sér að þær framkvæmdir geti komið til án þess að nokkur áherslubreyting verði af hálfu hæstv. ríkisstjórnar um stórfelldan niðurskurð, samanber fjárlagafrv., til að mynda í samgönguframkvæmdum? Ég vona ekki. Ég vona að hæstv. forsrh. geti komið hér í þessar umræður og staðfest að þannig verði það ekki. Þvert á móti tel ég það algjört lágmark að hið gagnstæða verði upp á teningnum. Að hæstv. ríkisstjórn beiti sér þá fyrir því að umtalsverðar viðbótarframkvæmdir verði settar í gang í öðrum landshlutum til að afstýra því að stórfellt jafnvægisleysi skapist á vinnumarkaði og í byggðamálum af þessum sökum. Ég hvet og ég skora á hæstv. ríkisstjórn að taka nú til skoðunar samtímis því að hér verður undirbúin framlagning mála varðandi stóriðjuframkvæmdir, að farið verði í brýnar framkvæmdir í öðrum landshlutum, til að mynda samgönguframkvæmdir, til að tryggja jafnvægi. Þar má til að mynda nefna samgönguframkvæmdir á norðausturhorni landsins þar sem afar stórt verkefni bíður við að byggja upp leiðina frá Húsavík til Vopnafjarðar, á svæði þar sem búa um 5.500 manns sem framleiða á milli 4 og 5 milljarða kr. í beinhörðum útflutningstekjum á hverju ári, þannig að framleiðslan á hvern einasta íbúa er nálægt 1 millj. í gjaldeyri. Þetta svæði býr við gjörsamlega óforsvaranlegar samgöngur á landi. Er hæstv. forsrh. tilbúinn til að lýsa því yfir hér að hann sé t.d. reiðubúinn að skoða slíka framkvæmd sem tengist brýnum úrbótum samgöngumála í tveimur landshlutum og að ráðist verði í slíkar framkvæmdir og þeim hraðað í tengslum við ákvarðanir um aðra atvinnuuppbyggingu annars staðar í landinu? Það mætti til að mynda flýta þverun Gilsfjarðar. Það mætti ljúka slitlagsframkvæmdum á hringveginum á Austurlandi og annað því um líkt sem væri nærtækt að grípa til í fjarlægum landshlutum hér frá suðvesturhorninu.

Ég, herra forseti, tel að það sé óhjákvæmilegt að nefna þessa hluti hér til sögunnar úr því að byggðamál ber hér á góma á annað borð. Þetta er að sjálfsögðu ekki mál sem Byggðastofnun hefur ein á sinni könnu og greiðir upp úr sínum vasa jafnvel þótt bólgnir væru og menn þar upp til hópa velviljaðir. Þetta er mál sem taka yrði fyrir hér og afgreiða af Alþingi í formi breytinga á áætlunum í samgöngumálum o.s.frv. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að t.d. þingmenn stjórnarflokkanna ætli að láta þessa hluti ganga samtímis fram hér á Alþingi. Hafa til umfjöllunar frv. og tillögur sem tengjast þessum stóðiðjuframkvæmdum á suðvesturhorninu samtímis því að vegáætlun er skorin niður um einar 700--800 millj., flugmálaáætlun er slátrað, skorin niður um helming og verulega dregið úr framkvæmdum í hafnarmálum. Allt eru þetta framkvæmdir sem varða mjög miklu í fjölmörgum byggðarlögum hringinn í kringum landið. Ég vil þess vegna nefna þetta til sögunnar í þeirri von og í því trausti að þetta verði tekið til jákvæðrar og velviljaðrar skoðunar af hálfu stjórnvalda.

Herra forseti. Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð. Eins og ég sagði þá talar skýrslan að mínu mati að mestu leyti fyrir sig sjálf og ég hef nú fengið hér í hendur bókina þá hina góðu sem ég vitnaði til og hef gjarna á lofti því í henni er margt gott að finna og heitir: Frelsi að leiðarljósi.