Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1994

Fimmtudaginn 09. nóvember 1995, kl. 16:05:02 (852)

1995-11-09 16:05:02# 120. lþ. 32.6 fundur 73#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1994# (munnl. skýrsla), KPál
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur


[16:05]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. forsrh. fyrir mjög greinargóða skýrslu. Ég tek undir það sem aðrir hv. þm. hafa sagt hér um nauðsyn þess að fylgjast með störfum svo mikilvægrar stofnunar sem Byggðastofnun hefur verið og að þau mál og störf sem þar hafa verið unnin séu til einhverrar umræðu á hv. Alþingi. Það má eflaust margt um störf Byggðastofnunar segja á undanförnum árum og gagnrýna margar af þeim úthlutunum sem þar hafa farið fram en ég hirði ekki um að ræða það hér. Ég vil frekar ræða aðeins um þá breyttu þróun sem þar hefur orðið og það sem að mínu mati mætti gera betur svo að starf og uppbygging í byggðum landsins gæti orðið markvissari. Að mínu viti hefur í gegnum árin verið allt of mikið úthlutunarvald hjá stjórn Byggðastofnunar sem slíkrar án þess að sveitarstjórnarmenn, atvinnurekendur og fulltrúar viðkomandi landshluta hafi í rauninni getað haft nokkur áhrif þar á. Ég held þess vegna að sú þróun sem átt hefur sér stað hin síðari ár og felst í því að koma upp útibúi eða skrifstofum fulltrúa Byggðastofnunar í hinum ýmsu kjördæmum sé mjög af hinu góða. Ég tel einnig nauðsynlegt að því fé sem til úthlutunar er af hálfu Byggðastofnunar til styrkja og lána sé úthlutað til atvinnuþróunarsjóða í viðkomandi kjördæmum þar sem heimamenn sjái sjálfir um að úthluta því fjármagni sem annars hefur verið úthlutað af stjórn Byggðastofnunar. Mér finnst það frekar hlutverk Byggðastofnunar að sjá um heildarráðgjöf og áætlanir en að standa í veitingum fjármuna til viðkomandi kjördæma og fyrirtækja. Því væri að sjálfsögðu mun betur borgið í höndum heimamanna sem best til þekkja. Þess vegna hef ég lagt áherslu á að þróunin yrði á þann veg, þar sem ég hef haft möguleika á því. Mér finnst einnig mjög ánægjulegt hvernig Byggðastofnun hefur tekið á málefnum ferðaþjónustunnar. Hún hefur með mjög virkum hætti stutt ferðamálasamtök og ferðamálafulltrúa, en þetta eru í rauninni einu peningarnir sem þessi samtök hafa fengið til að sinna sínu mikilvæga hlutverki sem er mjög vaxandi, eins og komið hefur fram hér í dag.

Ef litið er á umhverfi og atvinnulíf í landinu má kannski segja að meginforsendan fyrir því að hægt sé að skapa hér lífvænlegt atvinnulíf og vaxtarbrodda séu þær aðgerðir sem ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hefur beitt sér fyrir á sl. kjörtímabili og eins þessu, þ.e. að halda stöðugleika í landinu, halda niðri verðbólgu, bæta viðskiptakjör og ná niður ríkishalla. Þetta er grundvallaratriðið til að hægt sé yfirleitt að reka atvinnulíf í þessu landi. Kannski er þetta einnig eina raunhæfa leiðin til að skapa útlendingum traust á því að hér sé hægt að byggja upp stórfyrirtæki á traustum grunni, eins og samningurinn sem gerður hefur verið við Alusuisse um stækkun álversins sýnir. Því meginástæðan fyrir því að Alusuisse-menn stækkuðu álverið hér voru að hér er skattaumhverfi þannig að þeim finnst það fýsilegt fyrir sinn rekstur. Hér er stöðugleiki í ríkisfjármálum og verðbólgu með þeim hætti að sambærilegt er við það sem gerist annars staðar í heiminum og allt pólitískt umhverfi er stöðugt. Þetta var það sem skipti máli þegar upp var staðið og menn tóku af skarið um það hvort þessi stækkun færi fram eða ekki. Þannig að þetta er þau atriði sem sköpum skipta.

Ég sný mér þá að þeirri umræðu sem farið hefur fram hér um Suðurnes og tengingu þeirra inn í fjárveitingar frá Byggðastofnun í gegnum árin. Ég sem Suðurnesjamaður get upplýst það hér, og efalaust vita það margir, að Suðurnesjamenn hafa talið sig afskipta hvað varðar úthlutanir á fjármunum frá Byggðastofnun í gegnum árin eða áratugina. Ég held að ef menn líta á það frá tölfræðilegu sjónarmiði séu það ekki rangar staðhæfingar. Ég veit ekki af hverju menn hafa borið þar skarðan hlut frá borði. En það var lengi í vinnureglum stjórnarinnar að Suðurnes tilheyrðu svokölluðu þéttbýli eða höfuðborgarsvæðinu, þannig að þeir fengu ekki úthlutanir eins og aðrir landshlutar sem kallast landsbyggð. Á sínum tíma var það líka rökstutt með því að Suðurnesjamenn hefðu völlinn og það væri alveg nóg fyrir þá, þeir þyrftu ekki að fá aðra peninga en þá sem þaðan kæmu. Það er alveg rétt að Suðurnesjamenn höfðu mikið umleikis á meðan uppbygging á Keflavíkurflugvelli stóð sem hæst, en sú uppbygging hefur nú stöðvast þannig að þar hefur á síðustu árum hrikt verulega í atvinnulífinu. Kannski má segja að menn hafi vanrækt um of það sem mestu skiptir, sjávarútveginn, á meðan á þeirri miklu uppbyggingu stóð. Sennilega er það líka annað sem máli skiptir varðandi það að Suðurnesjamenn hafa lítið fengið úr þeim sjóðum sem Byggðastofnun hefur yfir að ráða. Ég veit ekki til þess að nokkur af því svæði hafi átt sæti í stjórn hennar. Það er þá a.m.k. mjög langt síðan að það hefur verið Suðurnesjamaður í stjórn Byggðastofnunar. Ég held að það sé kannski ein ástæðan því að ef maður lítur á úthlutanir frá Byggðastofnun sér maður að þær eru oft í beinu hlutfalli við það hversu margir stjórnarmenn eru úr hverju kjördæmi. Það sýnir hver áhrif stjórnarmenn hafa á það hvernig fjármunum er varið eða hvert þeir fara. Ég er ekki endilega að fordæma það, en þetta er samt staðreynd og fjármunir til Suðurnesja hafa þar af leiðandi verið af skornum skammti.

Það sem ég held að muni gerast í framtíðinni er að Suðurnesin sem slík hljóti að teljast beinlínis til höfuðborgarsvæðisins. Og það er út af fyrir sig markmið að tengja þetta allt saman í eitt, heildstætt svæði. Menn hafa talað um að allt Suðvesturlandið ætti að geta orðið eitt atvinnusvæði með þannig samgöngum að menn ættu auðvelt með að sækja vinnuna hvaðan sem væri af svæðinu. Þess vegna hef ég ásamt mörgum öðrum lagt mikla áherslu á að bæta samgöngur frá Suðurnesjum til Stór-Reykjavíkursvæðisins með lýsingu Reykjanessbrautarinnar og tvöföldun hennar. Margar aðrar hugmyndir hafa komið fram um vegabætur sem gætu tengt þessi svæði mun betur. Ég vil þó taka það fram að í dag er þetta í raun eitt atvinnusvæði. Þótt oft sé erfitt fyrir fólk að keyra á milli, lætur það sig hafa það.

Í sambandi við ummæli hv. þm. Egils Jónssonar fagna ég því að hann sinnir Suðurnesjamönnum og hann er allra manna vísastur til að leysa vanda þeirra eftir því sem hann best getur. Ég vil þakka honum fyrir það að hann kom að minni beiðni suður á Suðurnes til að ræða þar við forsvarsmenn margra fyrirtækja og var honum vel tekið. Menn treysta Agli sem formanni Byggðastofnunar til að leysa þau mál sem varða hag Suðurnesjamanna og Reyknesinga almennt sem hafa eitthvað við stjórnina að eiga því að Reykjaneskjördæmi á engan mann í stjórn Byggðastofnunar. (Gripið fram í: Fer ekki Egill að fara í framboð þarna?) Ég hugsa að Egill væri velkominn í framboð ef hann kærði sig um en ég hygg að Austfirðingar hafi fullan hug á að halda honum á meðan hann kærir sig um að sitja á þingi.