Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1994

Fimmtudaginn 09. nóvember 1995, kl. 16:25:56 (857)

1995-11-09 16:25:56# 120. lþ. 32.6 fundur 73#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1994# (munnl. skýrsla), RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur


[16:25]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef áhuga á að inna hv. 10. þm. Reykn. eftir þeirri hugmynd sem hann varpaði fram um hlutverk Byggðastofnunar. Ef ég skildi hann rétt taldi hann ástæðu til að breyta um eðli þessarar stofnunar þannig að hún mundi veita fjármagn út til svæða og atvinnuþróunarfélög á hverjum stað mundu síðan veita lán og styrki til verkefna á svæðinu. Ég vildi gjarnan heyra hvort ég hef skilið þetta rétt og hvort hann sjái þá fyrir sér að Byggðastofnun ætti að deila út á kjördæmin öllu fjármagni sem Byggðastofnun hefði til umráða eftir einhverju kerfi, vera síðan eftirlitsaðili með því hvernig til tekst og vera þá væntanlega með úttekt á hvernig til hafi tekist með verkefni sem ég var að kalla eftir í ræðu minni fyrr í dag.

Aðeins vegna þess að ég kveikti þessa umræðu um það á mjög notalegan hátt hvort Suðurnes tilheyrðu dreifbýlinu eða ekki. Það var spurning mín. Ég verð að segja að mér finnst afar alvarlegt ef það á við rök að styðjast að afgreiðsla Byggðastofnunar taki mið af stjórnarsetu og hvaðan menn koma. Hins vegar ætla ég að vona að þetta sé ekki rétt þó mér finnist það umhugsunarefni sem þingmaðurinn nefndi orðum sínum til stuðnings. Vegna þess að hv. 2. þm. Austurl. nefndi það í ræðu sinni að margir hafi haft samband við hann, sveitarstjórnarmenn og aðrir frá Suðurnesjum, þá snýst það nú ekki um fyrirspurnir eða erindrekstur, það sýnst um til hvers er veitt og um afgreiðslur. Ég geri ekkert með það þó það komi hér fram í orðum hv. 2. þm. Austurl., að það hafi verið betri afgreiðslur á árinu 1994 til Reykjaness en tveggja annarra kjördæma og það sé bara merki um að þingmenn Reykjaness eigi ekkert að gera sig breiða. Guði sé lof að það kom ár þar sem fannst eitt eða tvö kjördæmi þar sem var eitthvað minna gert en fyrir Reykjanes, liggur í orðunum. Þetta snýst ekki um það. Þetta snýst um það hvort svæði sem hafa átt við mjög erfitt atvinnuástand að stríða eins og Suðurnes á liðnum árum, sem oft og tíðum voru með mesta atvinnuleysið hlutfallslega á landinu, séu gjaldgeng þarna inn og tilheyri dreifbýlinu af því að þetta er Byggðastofnun eða ekki. Um það snúast málin.