Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1994

Fimmtudaginn 09. nóvember 1995, kl. 16:40:06 (864)

1995-11-09 16:40:06# 120. lþ. 32.6 fundur 73#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1994# (munnl. skýrsla), TIO
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur


[16:40]

Tómas Ingi Olrich:

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu skýrsla forsrh. um störf Byggðastofnunar sem er ítarleg og athyglisverð. Ég ætla ekki að gera hana í heild að umræðuefni en ég ætla að víkja að nokkrum atriðum í skýrslunni sem ég tel að séu mjög jákvæð og snerta málefni ferðaþjónustunnar.

Byggðastofnun hefur látið að sér kveða í málefnum ferðaþjónustunnar með ýmsum hætti, bæði með lánveitingum til fyrirtækja í ferðaþjónustunni svo og með styrkjum til ákveðinna verkefna á sviði ferðaþjónustu. En auk þess hefur Byggðastofnun innt af hendi greiðslur fyrir rannsóknaverkefni á sviði ferðaþjónustu og tel ég að sú starfsemi sé ekki síst athyglisverð. Og þær upplýsingar sem koma fram um þá starfsemi í þessari skýrslu eru fullrar athygli verðar. Á bls. 15 er getið um sérstaka skýrslu sem unnin var á vegum Byggðastofnunar um ferðamál árið 1993 og Sigurborg Kr. Hannesdóttir stóð að. Þessi skýrsla var á sínum tíma ákveðið tímamótaplagg og varpaði ljósi á þróun þessara mála langt umfram það sem áður hafði verið gert.

Það er getið um það í skýrslu Byggðastofnunar að í fyrrnefndri skýrslu hafi komið fram að framboð gistirýmis hafi aukist umfram eftirspurn undanfarin ár. Síðan skýrslan var birt hefur verið unnið efni á þessu sviði, viðbótarefni af hálfu Gunnars Karlssonar sem er lektor við Háskólann á Akureyri. Hann hefur skoðað alveg sérstaklega nýtingu hótel- og gistirýmis á höfuðborgarsvæðinu og birt um það niðurstöður sem eru satt best að segja þess eðlis að það er full ástæða til að hafa áhyggjur af því. Niðurstöðurnar sem snerta bæði nýtingu hótelrýmis og gistirýmis á höfuðborgarsvæðinu en einnig nýtingu gistirýmis almennt, sýna fram á meira en skýrsla Byggðastofnunar frá 1993. Þær sýna fram á að fjárfestingin í gistirými hefur farið eftir fjölda ferðamanna á háannatíma. Menn hafa með öðrum orðum tekið mið af fjölgun ferðamanna á háannatíma í þessari fjárfestingu. Það hefur þýtt að nýting gistirýmisins utan háannatíma hefur farið snarversnandi. Þetta hefur gerst á sama tíma og stjórnvöld hafa í ferðamálum sett sér það sem sérstakt markmið að nýta betur gistirýmið utan háannatímans. Léleg nýting gistirýmisins utan háannatíma hefur leitt til tapreksturs og hallareksturs í hótelþjónustu á Íslandi. Það hefur verið litið á það sem meginviðfangsefni að reyna að bæta nýtinguna utan háannatíma. Mikil fjárfesting í gistirými á undanförnum árum og langt umfram fjárfestingu í öðrum þáttum ferðaþjónustunnar hefur leitt til þess að þessi viðleitni hefur eiginlega snúist við. Menn hafa að vísu náð þeim árangri með sérstakri markaðssetningu landsins utan háannaatíma að laða til landsins mun fleiri ferðamenn á þessum tíma en áður var mögulegt. Engu að síður hefur framboðið aukist langt umfram nýtingu. Þetta þýðir að þarna er ójafnvægi í fjárfestingu og það skortir einhverjar betri viðmiðanir. Það skortir betri þekkingu bæði á eðli markaðarins og á mikilvægi þess að það sé jafnvægi í fjárfestingu hinna mismunandi þátta ferðaþjónustunnar.

Framtak Byggðastofnunar í því að stuðla að upplýsingaöflun um málefni ferðaþjónustunnar er mjög lofsvert. Ég vil leggja áherslu á það hér og nú að ef Byggðastofnun gerist á komandi árum virkari aðili að rannsóknaverkefnum í ferðaþjónustu og þróunarmálum, þá er það mjög af hinu góða. Ég teldi að það félli mjög vel að hlutverki stofnunarinnar eins og það er nú að sinna rannsóknamálum í ferðaþjónustu meira en verið hefur. Mér er kunnugt um að slík málefni eru nú til umfjöllunar í Byggðastofnun og ég hvet stjórnarmenn í Byggðastofnun eindregið til þess að veita slíkum málum stuðning. Byggðastofnun getur orðið ein af þeim stofnunum sem tekur þátt í því að búa til rannsóknarumhverfi fyrir ferðaþjónustuna, en það hefur sárlega skort.

[16:45]

Virðulegi forseti. Ég hef getið þess áður í þessum ræðustól að þessa næststærstu atvinnugrein að því er gjaldeyrisöflun varðar skortir sárlega það bakland sem aðrar atvinnugreinar hafa í rannsóknum. Ég vil því nota þetta tækifæri til þess að leggja áherslu á það að sá þáttur sem Byggðastofnun hefur átt í því að reyna bæta þessa rannsóknaaðstöðu og upplýsingaöflun fyrir ferðaþjónustuna er mjög mikils virði. Ég hvet formenn stjórnar Byggðastofnunar og alla stjórnarmenn eindregið til þess að styðja með ráðum og dáð stofnunina í því að taka enn meiri þátt í rannsókna- og þróunarstarfi og ég tel að þeir séu á réttri leið í sínum störfum þar.

Það vill nefnilega svo til að upplýsingar, sem eru að berast nú um þróun ferðaþjónustunnar í heiminum, benda til þess að á sama tíma og við fjárfestum svipað í grunnþáttum ferðaþjónustunnar eins og aðrar þjóðir og áætlanir okkar um fjárfestingu í þessum efnum eru mjög svipaðar og meðaltal hjá OECD-ríkjunum á næstu tíu árum, þá er greinilegt af þeim hagtölum sem OECD-ríkin hafa úr að spila að við gerum okkur minni væntingar um arðsemi af þessum fjárfestingum í ferðaþjónustunni en aðrar þjóðir. Þá á ég bæði við grunngerð þjóðfélagsins í samgöngum og samgöngumannvirkjum en einnig í sjálfri ferðaþjónustunni, í hótel- og gistirými, í flugvélum og flugflota, samgöngutækjum. Með öðrum orðum, við fjárfestum svipað en við gerum okkur minni væntingar um arðsemi og við gerum okkur minni væntingar um atvinnusköpun í þessum efnum en aðrar þjóðir ef þær upplýsingar sem ég rek hér til stofnunarinnar World Travel and Tourism Council eru réttar. Þær upplýsingar segir stofnunin að hún hafi frá OECD-ríkjunum. Ég tek hins vegar fram að ég hef efasemdir um að allar þessar upplýsingar séu réttar. Ég sé t.d. að spá um vöxt í ferðaþjónustunni á Íslandi næstu tíu árin er mun lægri en þær tölur sem ég hef séð hjá Ferðamálaráði Íslands og munar þar talsverðu. Ég leyfi mér um leið og ég vek athygli manna í þinginu á þessum nýútkomnu upplýsingum að efast um að þar sé öllu haldið rétt til haga. Ef þessar tölur eru réttar erum við að tala um að við Íslendingar horfum til framtíðar með svipuðum augum eins og þær þjóðir í Evrópu sem hafa þegar mettað ferðaþjónustumarkað sinn, þ.e. Frakkar og Grikkir. Þeir gera ráð fyrir mjög litlum vexti atvinnusköpunar í ferðaþjónustu enda er ferðaþjónustan í báðum þessum löndum komin á það stig að þar gætir þreytu hjá þjóðinni yfir of miklu álagi af hálfu ferðaþjónustunnar. Í flestöllum öðrum ríkjum Evrópu er í þessari spá gert ráð fyrir mun meiri vexti ferðaþjónustunnar, það er gert ráð fyrir mun meiri atvinnusköpun af völdum ferðaþjónustunnar en á Íslandi og ég vek athygli á þessu. Ef við höfum minni væntingar um að nýta okkur fjárfestingar okkar í ferðaþjónustunni er eitthvað verulega mikið að og við þurfum að skoða þessi mál betur. Byggðastofnun getur með áhuga sínum á þróunarmálum ferðaþjónustunnar lagt verulegan skerf að því að upplýsa okkur betur um stöðu atvinnugreinarinnar og gera fræðilegt bakland hennar og upplýsingastarfsemi um atvinnugreinina styrkari. Ég held að sú leið sem stofnunin er þarna komin inn á sé rétt og ég held að stofnunin geti unnið mikið gagn með því að beina athyglinni meira að þessum málum.

Þetta var það sem ég vildi að kæmi fram í umræðunni og taldi nauðsynlegt, ekki síst vegna þess að ég hef á mörgum vettvangi lagt áherslu á að starfsumhverfi ferðaþjónustunnar verði bætt og forsendur hennar fyrir stefnumörkun verði styrktar.