Ríkisreikningur 1993

Fimmtudaginn 16. nóvember 1995, kl. 11:13:26 (879)

1995-11-16 11:13:26# 120. lþ. 33.5 fundur 128. mál: #A ríkisreikningur 1993# frv., JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur


[11:13]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Staðreyndin er sú að því er varðar getu Alþingis til þess að koma fram breytingum á framlögðum frumvörpum um ríkisreikning aftur í fortíð, að svigrúm Alþingis til breytinga á þeim frumvörpum er afar takmarkað. Og snýst þá fyrst og fremst um umræðu af þessu tagi, þ.e. hvort menn eru sáttir við þær tæknilegu grundvallarreglur sem lagðar eru til grundvallar uppsetningu ríkisreiknings.

Hér hafa verið nefndar háar tölur um halla í ríkisbúskapnum og þær birtast í þessu frv. fyrir árið 1993. Hæstv. fjmrh. nefnir dæmi frá 1989, frægt fyrir það að breytingar á aðferðafræðinni við uppsetningu ríkisreiknings enduðu þá í miklu risavaxnari tölum, þ.e. 80 milljörðum. Síðan láta menn eins og þessi umræða hafi eitthvert efnislegt innihald út af fyrir sig. Við erum hér að tala um liðna tíð. En af umræðunni mætti m.a. álykta að hæstv. fjmrh. sé fulltrúi þeirra sem lengst vilja ganga í að viðhalda þessum innbyggða hallarekstri í ríkisbúskapnum. Það er staðreynd að hann ber að sjálfsögðu sína ráðherraábyrgð á sínum málum og þessum niðurstöðum. Þá spyr maður: Er það kannski svo að þeir sem fylgdust með þessari umræðu gætu ályktað: Já, en er meiri hluti Alþingis Íslendinga í raun og veru afar ósáttur við þessa þróun mála? Er meiri hluti á Alþingi Íslendinga fyrir því að snúa við af þessari óheillabraut? Eru kröfur uppi um það af hálfu meiri hluta alþingismanna að harðar verði gengið fram í ráðdeild og aðhaldssemi í ríkisrekstrinum? Hefur það verið hlutverk stjórnarandstöðu á undanförnum árum að krefja fjmrh. um að hafa öflugri verkstjórn, sýna meiri ábyrgð, sýna meiri pólitískan kjark við að draga úr útgjöldum? Því öllum er okkur ljóst að útgjaldaaukinn er innbyggður í ríkisbúskapinn og hefur verið árum og áratugum saman. Það er einfaldlega staðreynd að hæstv. fjmrh. hefur ekki tekist að snúa því tafli við. Þeim sem með honum hafa starfað og reynt að leggja sitt lóð á þá vogarskál hefur ekki tekist að ná viðunandi árangri. En ég minnist þess ekki að það hafi verið meiri hluti á Alþingi Íslendinga, burt séð frá því hvaða stjórn hefur verið við völd, sem hefur raunverulega haldið fjmrh. við það efni. Þvert á móti hafa kröfurnar yfirleitt verið á þá leið að auka þennan halla, því miður.