Ríkisreikningur 1994

Fimmtudaginn 16. nóvember 1995, kl. 11:18:04 (881)

1995-11-16 11:18:04# 120. lþ. 33.6 fundur 129. mál: #A ríkisreikningur 1994# frv., fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur


[11:18]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um samþykkt á ríkisreikningi fyrir árið 1994 sem er 129. mál þessa þings og liggur fyrir á þskj. 154.

Útgáfa ríkisreiknings fyrir árið 1994 markar á sinn hátt viss tímamót í reikningsskilum ríkissjóðs. Gerð ríkisreiknings hefur verið svipuð undanfarin 30 ár þó svo að ársreikningar og reikningsskil fyrirtækja hafi tekið miklum breytingum. Uppbyggingu ríkisreiknings er nú breytt og hún færð mun nær því sem tíðkast í ársuppgjörum fyrirtækja eftir því sem við getur átt og innan marka laga nr. 52/1966, um ríkisbókhald, gerð ríkisreiknings og fjárlaga. Með þessum breytingum verður reikningurinn læsilegri fyrir þá sem eru vanir að lesa almenna ársreikninga og dregur betur fram aðalatriði uppgjörsins en áður. Markmiðið með þessum breytingum er að gera upplýsingar um fjármál ríkisins aðgengilegri fyrir skattgreiðendur og stjórnvöld. Aðgengilegar upplýsingar um ríkisfjármál eru mikilvæg forsenda fyrir efnislegri umræðu um niðurstöðu ríkisfjármála í samanburði við áætlanir svo og þróun og horfur í ríkisfjármálum.

Reikningurinn er gefinn út í tveimur heftum, annars vegar er Ríkisreikningur 1994, heildaryfirlit, þar sem sýndar eru heildartölur fyrir afkomu A- og B- hluta ríkissjóðs. Hins vegar er Ríkisreikningur 1994, sundurliðun reikninga, en þar er ítarlegt yfirlit um fjármál A-hluta ríkissjóðs og einstakra stofnana í A- og B-hluta. Skiptingin er til þess gerð að mæta mismunandi þörfum þeirra sem vilja kynna sér ríkisfjármálin. Heildaryfirlitið er fyrst og fremst ætlað þeim sem vilja fá heildstæða mynd af fjármálum ríkisins. Sundurliðaði reikningurinn er ætlaður þeim sem þurfa á tilteknum eða nákvæmari upplýsingum að halda.

Breyting á ríkisreikningi nú á einkum við um heildaryfirlitið og er það snar þáttur í heildarendurskoðun á reikningsskilum ríkissjóðs og fjárlögum sem ríkisreikningsnefnd hefur lagt til að komið verði á. Nefndin birti tillögur sínar í skýrslunni Fjárreiður ríkisins, sem kom út í nóvember 1994 og í kjölfar þess var efni hennar m.a. kynnt fjölmiðlum. Ekki þarf að taka fram að ríkisreikningurinn fyrir 1994 liggur fyrir og honum var dreift í síðasta mánuði til hv. þm. Frumvarp þetta er samið eftir þessum ríkisreikningi.

Á síðustu árum hefur verið unnið að því markvisst að færa uppgjörsaðferðir ríkissjóðs nær þeim sem tíðkast á almennum markaði. Stærsta breytingin var gerð í uppgjöri ríkisreiknings 1989 en sú ákvörðun var tekin í tíð þáv. fjmrh., hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar, en ríkisreikningurinn að sjálfsögðu ekki lagður fram fyrr en síðar eða rétt fyrir miðbik síðasta kjörtímabils. Í ríkisreikningi 1989 voru færðar ýmsar skuldbindingar ríkissjóðs sem höfðu áður legið utan reikningsins. Í uppgjörum undanfarinna ára hefur verið lögð áhersla á að endurmeta ýmsa efnahagsliði reikningsins í áföngum. Þannig voru í ríkisreikningi 1990 afskrifaðar verulegar fjárhæðir vegna ríkisábyrgða og veittra lána. Hvað varðar útistandandi skattkröfur hefur verið beitt þeirri aðferð að afskrifa að fullu kröfur á fyrirtæki þar sem gjaldþrotaskiptum er lokið en kröfur hafa verið færðar niður um 75% hjá fyrirtækjum sem tekin hafa verið til gjaldþrotaskipta jafnvel þótt skiptum sé ekki lokið.

Hæstv. forseti. Í síðasta máli var einmitt rætt um afskriftir útistandandi eigna og þarf ég ekki að fara frekar yfir það í umræðu um þennan reikning en á árinu 1994 var lokið við mótun samræmdra reglna um niðurfærslur á kröfum og framlögum í afskriftasjóði. Fram til þessa hafa veitt lán verið færð niður með beinni afskrift á ríkisreikningi en í ríkisreikningi 1994 er gengið lengra og tekin upp óbein afskrift í fyrsta sinn af veittum lánum. Lagt var mat á kröfur sem voru til innheimtu og þeim skipt í áhættuflokka út frá upplýsingum um tryggingar fyrir kröfum og mati á greiðslugetu skuldara. Breyttar uppgjörsaðferðir á undanförnum árum fela í sér að niðurstöðutölur ríkisreiknings gefa ekki nákvæma mynd af afkomu einstakra ára. Þetta þarf að hafa í huga við samanburð á milli ára eins og var rætt rækilega í síðasta máli sem var til umræðu.

Ég þarf ekki að taka fram að þær afskriftir sem birtast í ríkisreikningi þýða ekki að kröfur ríkisins séu afskrifaðar gagnvart þeim sem eru skuldarar heldur eru fyrst og fremst bókhaldslegar afskriftir eins og menn gera sér grein fyrir til þess að sýna betur en ella hver raunveruleg eignarstaða ríkissjóðs er.

Frumvarpið sem er til umræðu er samkvæmt venju í þremur greinum. Í 1. gr. eru sýndar niðurstöður rekstrar- og efnahagsreiknings A-hluta ríkissjóðs. Í 2. gr. er sýndar með sama hætti niðurstöður rekstrar- og efnahagsreiknings B-hluta stofnana ríkisins. 3. gr. felur svo í sér gildistökuákvæði laganna.

Niðurstöðutölur ríkisreiknings sýna að rekstrarafkoma A-hluta ríkissjóðs á árinu er neikvæð um 15,5 milljarða en var árið á undan neikvæð um rúma 19 milljarða. Þessi lækkun á halla er tæplega 3,5 milljarðar eða 18%.

Heildartekjurnar námu 110,4 millj. kr. og er það 10,2 milljörðum hærri tala en var árið á undan. Heildargjöld ríkissjóðs urðu 125,9 milljarðar á árinu en voru áður 119,2 milljarðar kr. Hækkun á milli ára er því 6,7 milljarðar kr. Meðalhækkun verðlags milli áranna 1993--1994 miðað við mælikvarða landsframleiðslu er 2,8 þannig að raunhækkun gjalda nemur einnig 2,8%.

Ef niðurstöður ríkisreiknings eru bornar saman við uppgjör ríkissjóðs á greiðslu ársins eykst halli ríkissjóðs úr 7,4 millj. kr. í greiðsluuppgjöri í 15,6 millj. kr. í ríkisreikningi eða um 8,2 milljarða. Í stuttu máli skýrast þessi frávik af því að við lokauppgjör þarf ávallt að taka tillit til ýmissa þátta sem hafa ekki greiðsluhreyfingar í för með sér en fela í sér skuldbindingar eða kröfur fyrir ríkissjóð. Stærstu liðir af þessu tagi í uppgjöri ársins 1994 eru lífeyrisskuldbindingar ársins að frátöldum greiðslum til lífeyrissjóða, 2,8 milljarðar kr. Yfirtekin lán atvinnutryggingadeildar Byggðastofnunar, 1,9 milljarðar og áfallnir ógreiddir vextir, jukust um 3,1 milljarð kr. á milli ára.

Virðulegi forseti. Vegna umræðunnar sem fór fram í síðasta máli er rétt að taka þetta enn skýrar fram. Það er að sjálfsögðu munur, annars vegar á greiðsluuppgjöri og hins vegar á reikningsuppgjöri. Greiðsluuppgjörið er eingöngu sjóðsbókhald, sýnir eingöngu greiðsluhreyfingar innan ársins en í rekstraruppgjöri, uppgjöri sem ríkisreikningurinn byggir á, eru teknar inn skuldbindingar og færðar inn útistandandi eignir en þó ber að geta þess að að langstærstum hluta eru eignir ríkisins ekki skráðar upp í efnahagsreikningi heldur fyrst og fremst fjármunalegar eignir. Þannig eru t.d. ekki vegir, ýmsar sérhæfðar húseignir og ýmiss konar mannvirki færð upp sem eignir á efnahagsreikningi ríkisins heldur til gjalda á viðkomandi ári enda er talið að markaðsverð þessara eigna sé varla til þar sem kaupendur eru varla til staðar. Þetta gæti þó breyst í tímans rás, ekki síst ef um verður að ræða einhverja einkavæðingu í samgöngumálum þjóðarinnar en slíkt hefur gerst hjá ýmsum nágrannaþjóðum eins og hjá Norðmönnum og Bretum svo ég taki dæmi um tvær þjóðir sem hafa verið að leita fyrir sér með nýjar aðferðir í þessum efnum.

Í öðru lagi, og það skiptir máli í þessu sambandi, þá ber í ríkisreikningi að færa upp lífeyrisskuldbindingar sem eru ekki greiddar út, sumar hverjar kannski ekki greiddar út fyrr en 50 árum seinna. Þetta er auðvitað gert til að menn sjái nákvæmar hverjar skuldbindingarnar eru en þessi aðferð var tekin upp í ríkisreikningi 1989 og er auðvitað sjálfsögð. Loks kemur það fram sem hér var tíundað að þegar gerðar eru breytingar á sjóðakerfinu þannig að skuldbindingar falla á ríkissjóð eru þær teknar inn í ríkisreikning jafnvel þó þær séu ekki til greiðslu á viðkomandi ári heldur síðar. Dæmi um þetta eru atvinnutryggingadeild Byggðastofnunar en atvinnutryggingadeildin á sér upphaf í aðgerðum ríkisstjórnar á árinu 1988. Tekin voru erlend lán. Lánin stóðu undir ákveðinni starfsemi til að tryggja atvinnulíf víða um land. Fjármunirnir töpuðust í stórum stíl. Síðan var stofnaður Þróunarsjóður sjávarútvegsins. Ýmsar skuldbindingar voru settar inn í þann sjóð sem fékk jafnframt tæki til þess að heimta inn gjald af sjávarútveginum en að verulegum hluta var afgangurinn settur á ríkissjóð og þar með varð ríkissjóður að taka á sig töpuð útlán atvinnutryggingasjóðs frá þessum tíma og sú skuld framkallast síðan á árinu 1994. Þessa ræðu flyt ég sem forvarnastarf því ég á hugsanlega von á því að hv. 8. þm. Reykv. komi upp og hafi athugasemdir að gera um það hvers vegna reikningsgrunnurinn sýnir aðra niðurstöðu en greiðslugrunnurinn en ástæðunnar er m.a. að leita í því að á árinu 1988 voru tekin þessi erlendu lán sem töpuðust síðan í meðferð þáv. stjórnvalda. Þetta skal tekið fram þannig að menn falli ekki í þá gryfju þegar þeir koma á eftir.

Varðandi frekari greinargerð um niðurstöður og framvindu ríkisfjármála á árinu vísast til skýrslu fjmrh. frá því í febrúar sl. um ríkisfjármál 1994 og væntanlegrar endurskoðunar skýrslu yfirskoðunarmanna ríkisreiknings og Ríkisendurskoðunar á ríkisreikningi 1994. Ég gleymdi að geta þess áðan að það er í vaxandi mæli sem áfallnir en ógreiddir vextir falla til vegna þess að skuldir safnast upp hjá ríkinu. Þó hefur það gerst í síðari tíð að vextir eru greiddir jafnóðum eftir því sem stærri stokkur ríkisvíxla er til staðar en vextir af slíkum skuldapappírum eru auðvitað greiddir strax og falla til á viðkomandi ári. Nú er svo komið að greiddir vextir eru um 13 milljarðar á hverju ári. Það er upphæð sem menn ættu að gefa gaum og til viðbótar eru áfallnir vextir um 3 milljarðar sem þýðir að það eru um 16 milljarðar kr. sem eru vaxtagreiðslur á skuldum ríkisins og hver einasti hv. þm. hlýtur að spyrja sig að því hvort menn vilja halda áfram á þessari braut. Ef þeir vilja það ekki, eru þeir tilbúnir til þess að haga tillöguflutningi sínum á Alþingi í samræmi við það? Að þessu leytinu til tek ég fullkomlega undir orð hv. 9. þm. Reykv. Jóns Baldvins Hannibalssonar sem hann flutti í umræðunni um ríkisreikning 1993.

Virðulegi forseti. Ég legg að lokum til að að lokinni 1. umr. verði frv. vísað til hv. fjárln. og til 2. umr.