Ríkisreikningur 1994

Fimmtudaginn 16. nóvember 1995, kl. 11:50:41 (890)

1995-11-16 11:50:41# 120. lþ. 33.6 fundur 129. mál: #A ríkisreikningur 1994# frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur


[11:50]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Við erum hér að ræða um ríkisreikning fyrir árið 1994 og áðan ræddum við um ríkisreikning fyrir 1993. Þessum reikningum breytum við ekki. Það liggur fyrir. Þetta er afraksturinn af starfi ríkisins á þessum árum sem lagður var grunnur að með fjárlagafrv., sem lagt var fyrir árið 1993, og síðan fjáraukalögum og öðru slíku sem hafa breytt því frumvarpi. Við hér á Íslandi störfum samkvæmt fjárlögum á greiðslugrunni. Reynslan er sú, eins og kemur fram í báðum þessum frv., að þegar litið er á fjárlög ríkisins á efnahagsgrunni, þá er hallinn tvöfalt meiri bæði árin. Hann er sem sagt á greiðslugrunni árið 1993 9 milljarðar, á efnahagsgrunni 19 milljarðar og síðan 8 og 15. Þótt við samþykkjum fjárlög í dag með 4 milljarða halla er viðbúið að hallinn verði í reynd, þegar tekið er tillit til efnahagsbreytinga, lífeyrisskuldbindinga, mismunandi lána og vaxta lána inn og út, að hallinn muni verða um 8 milljarðar. Þetta breytir ekki stöðunni. Hún er svona. Í átökum um fjárlagafrv. er eilífur slagur um hærri útgjöld og lægri tekjur. Menn vilja byggja brýr og sjúkrahús og menn vilja lækka skatta. Mismunurinn er svo halli á ríkisrekstrinum. Hvað þýða 19 og 15 milljarðar þessi tvö ár? 34 milljarðar. Þetta eru 130 þús. kr. á hvert einasta mannsbarn í landinu. 260 þús. á hvern vinnandi mann. Þetta eru nokkurn veginn tveggja mánaða meðallaun hjá ASÍ. Á þessum tveimur árum leyfðum við Íslendingar okkur það að lifa um efni fram sem nemur tvennum mánaðarlaunum. Ein mánaðarlaun hvort ár. Við lifðum sem sagt í einn mánuð upp á krít. Það boðar ekki gott. Allir skuldarar vita hvað það þýðir þegar menn eyða um efni fram. Það þýðir að skuldin vex og vex, fyrst vegna þess að menn eyða um efni fram, en síðan og ekki hvað síst vegna vaxtanna af skuldunum. Þeir vextir eru flestir erlendir þannig að við höfum ekki áhrif á þá. Þannig mun vandinn aukast og aukast eftir því sem við höldum lengra áfram á þessari braut og ég held að þetta geti orðið hættulegt efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar. Ég efast um að nokkur þingmaður geti horft á þessa stöðu án þess að sjá að hún er mjög alvarleg og það verður að taka á henni. Þótt menn vildu gjarnan sjá brú hér og sjúkrahús þar, verða menn samt að stinga við fótum.

Herra forseti. Það efast enginn um góðan vilja hæstv. fjmrh. Hann hefur sýnt að hann vill gera vel en hann á bæði í baráttu við sinn eigin þingflokk, þingið og stjórnarandstöðuna. Hann á í baráttu við góðu málin. Það er svo erfitt að berjast á móti góðu málunum. En hv. Alþingi stendur frammi fyrir að það verður að berjast við góðu málin. Það verður að standa á móti þeim því annars fer mjög illa. Ég skora á hv. þingmenn að sameinast um að halda hallanum niðri, þannig að hann fari ekki upp fyrir það sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrv. og helst að hann náist enn frekar niður. Ég vil benda á leiðir til þess. Á undanförnum vikum höfum við fengið hingað álver, svona allt í einu og óforvarandis. Menn áttu ekki von á því, það var ekki reiknað með því í fjárlagafrv. Fjmrh. upplýsti að það minnki fjárlagahallann um 500 millj. kr. Hann var skelfingu lostinn því hann vissi að allir elskendur brúa, sjúkrahúsa og góðu málanna mundu nú koma og segja hver og einn: ,,Heyrðu, nú er einmitt lag fyrir mitt góða mál.`` En málið er ekki svona einfalt. Ég held aftur á móti að við ættum að segja: Nú er lag að minnka hallann. Og við verðum að gera það og ég vil ganga enn lengra. Í tengslum við þetta álver er búist við að hér komi framkvæmdir inn í landið upp á 2.000 eða 3.000 millj. Ég legg til að hv. Alþingi skeri niður framkvæmdir á sömu svæðum sem því nemur. Þannig að hallinn á ríkissjóði verði ekki 4 milljarðar heldur einn milljarður. Við verðum nefnilega að gæta að því að við getum ekki aukið þessar skuldir mikið meira. Þær eru orðnar svo gífurlegar.

Ég legg til og styð eindregið þær framkomnu hugmyndir um fjárreiðufrv. þar sem fjármál ríkisins eru tekin, ekki bara á greiðslugrunni heldur á efnahagslegum grunni eins og gert er í öllum almennilegum fyrirtækjum, þannig að menn taki tillit til þess að ríkissjóður skuldar mikið af peningum með háum vöxtum og hann er búinn að lofa starfsmönnum sínum góðum lífeyrisrétti sem verður að taka tillit til með því að meta skuldbindingarnar. Þetta þarf að koma inn í fjárlögin.