Ríkisreikningur 1994

Fimmtudaginn 16. nóvember 1995, kl. 12:01:03 (893)

1995-11-16 12:01:03# 120. lþ. 33.6 fundur 129. mál: #A ríkisreikningur 1994# frv., StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur


[12:01]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Vegna ræðu hv. þm. Péturs Blöndals í þessari umræðu vek ég athygli á því sem hann sagði í ræðu sinni. Það er afar mikilvægt að þingmenn geri sér grein fyrir því að viðvarandi halli og áframhaldandi halli á ríkissjóði getur ekki gengið. Hins vegar hefur vandi okkar legið í því sem hv. þm. Svavar Gestsson benti á að það hefur skort að auka tekjurnar en það er ekki vegna þess að Sjálfstfl. hafi staðið í vegi fyrir því að hér mætti byggja upp öflugra atvinnulíf sem birtist m.a. í nýju álveri. Hv. þm. Svavar Gestsson gæti vafalaust sagt okkur þingmönnum frá því hvernig hefur verið staðið að því á undanförnum árum að vinna að uppbyggingu hins orkufreka iðnaðar og hv. þm. ættu að spara sér að vera með stór orð um afstöðu sjálfstæðismanna í ríkisfjármálum.

Ég vil segja af þessu tilefni að ég tek undir það með hv. þm. Pétri Blöndal að það er fullkomið ábyrgðarleysi að ætla að fara að gera út á væntanlegar tekjur af álveri. Við afgreiðslu fjárlaga fyrir næsta ár eigum við að skoða enn betur en við höfum gert hvernig við getum dregið úr hallanum. Ég held að góð samstaða sé um það meðal stjórnarþingmanna að líta á það sem eitt allra mikilvægasta verkefni okkar að draga úr hallanum en ekki að fara að gera út á hugsanlegar en vonandi töluverðar auknar tekjur vegna álversins. Ég held að að sé fullkomið ábyrgðarleysi að standa þannig að málum.