Ríkisreikningur 1994

Fimmtudaginn 16. nóvember 1995, kl. 12:04:07 (895)

1995-11-16 12:04:07# 120. lþ. 33.6 fundur 129. mál: #A ríkisreikningur 1994# frv., GE
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur


[12:04]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Við ræðum ríkisreikning fyrir árið 1994 og inn í þetta spinnst að sjálfsögðu sagan. Við vorum nokkrir þingmenn á sögustund í gærkvöldi og við urðum vitni að upprifjun ágætra sagnamanna um ýmislegt sem hefur gerst í þinginu, bæði varðandi fjármál og skemmtileg atvik og það hefur allt sinn tíma, bæði að ræða skemmtisögur og svo liðna tíma.

Varðandi það sem liggur fyrir hjá fjárln. vil ég segja að ég er að ég held eini þingmaðurinn í fjárln. sem hef lýst því yfir að ég vil afgreiða óbreytt frv. um ríkisreikning 1991 og 1992. Ég tel að þau ágreiningsefni sem voru uppi og urðu til þess að reikningarnir voru ekki afgreiddir í raun á réttum tíma tilheyri sögunni að mestu leyti. En eins og ég sagði áðan erum við með reikninginn frá 1994 til umræðu. Ég vildi nálgast þetta mál á þann hátt að þakka hæstv. fjmrh. og starfsfólki hans fyrir gerbreytingu í uppsetningu á ríkisreikningi og áform um að halda slíku áfram og gera þessi mál einfaldari og aðgengilegri fyrir alla þá sem um þurfa að fjalla þannig að leikmenn úr þjóðfélaginu hvar sem er geti komið að ríkisreikningum og lesið þá eins og reikninga venjulegra fyrirtækja. Ég þakka kærlega fyrir þetta og það má gjarnan berast til starfsmanna hæstv. ráðherra. Eins og mér sýnist þetta birtast er þetta miklu skilvirkara og aðgengilegri skýringar og þetta beinist í nútímalegra form.

Kannski er rétt að geta um annað. Í fjárln. hafa nýverið verið kynntar nýjar hugmyndir eða aðferðir til að hafa betri yfirsýn yfir þau málefni sem tilheyra hinum mismunandi ráðuneytum í formi þess að menn eru að setja upp vegvísa sem ég vil hreinlega kalla verkfæratösku aðhaldsaðilanna. Þar ætla menn að fylgjast með útstreymi fjármagns sem deilist út á ákveðin verknúmer þannig að það ætti að vera aðgengilegt á hverjum tíma að sjá hverju líður þannig að smám saman ætti að draga úr umframeyðslu ráðuneyta eins og fjáraukalög birtast okkur. Ég vona að hæstv. fjmrh. staðfesti þá skoðun mína að megintilgangurinn sé að menn haldi sig í raun við það, bæði ráðherrar og þeir aðrir sem fara með fjármuni, að menn hafi yfirsýn yfir það að ekki sé keyrt umfram eins og það hefur verið undanfarna síðustu þrjá mánuði ársins eða liðin ár allt að upp á það að fá fjárveitingu með lánsfjárlögum á næsta ári.

Það sem vekur mestar áhyggjur og ástæða er til að spyrja um er að í árslok eru óinnheimtar ríkistekjur samtals 23 milljarðar 662 millj. og það vekur einnig áhyggjur að afskriftir skuli vera um 6--7 milljarðar. Það getur verið að þetta sé ekki óeðlilegt í prósentum reiknað en óneitanlega eru tölurnar mjög háar.

Skuldastaða ríkisins vekur einnig áhyggjur. Ég get ekki gert mér vonir um það eins og hv. þm. Pétur Blöndal að við getum verið búnir að ná erlendum skuldum niður í núll árið 2010 en markmiðið er gott. Ég held að ég geti sagt það fyrir mína hönd og míns flokks að við munum standa að aðhaldsaðgerðum sem eru innan skynsamlegra marka. Við höfum alltaf unnið út frá því sjónarmiði að verja velferðarkerfið og það get ég rökstutt. Við munum leggjast gegn þeirri aftengingu sem menn ætla sér varðandi laun eftirlaunaþega. Við getum ekki sætt okkur við að þau skuli vera tekin úr sambandi við almennar launahækkanir á almennum markaði og ég trúi ekki öðru en horfið verði til baka með það.

Ég kom aðallega upp til þess að lýsa því yfir að ég tel að menn séu að fara í rétta átt varðandi uppsetningu á ríkisreikningum. Reikningurinn fyrir árið 1994 er miklu aðgengilegri en hefur verið t.d. fyrir 1992 og 1993. Ég tók þá reikninga og reyndi að bera saman. Ég get sagt það hér að mér gekk mjög illa að komast til botns og skilja hvað þar var verið að reyna að segja.

Það sem vekur einna mestar áhyggjur þegar maður fer yfir þennan reikning er það að menn ætla að færa inn skuldbindingar vegna lífeyrissjóðanna. Menn ætla að færa það inn í reikninginn. Það mun gerbreyta stöðu hinna ýmsu fyrirtækja og ýmislegt sem er í ríkisreikningunum og þá vantar auðvitað að gerð sé mjög góð grein fyrir skuldbindingum ríkisins við lífeyrissjóðina til þess að menn fái raunsanna mynd af þessum hlutum. Ég vek athygli á því að það vandamál sem mun blasa við okkur og blasir nú þegar við öllum er yfirfærsla skólanna til sveitarfélaganna. Ef ekki verður tekið alvarlega á málum mun hún stranda einmitt á ríkisábyrgðunum og lífeyrissjóðamálunum.