Tryggingagjald

Fimmtudaginn 16. nóvember 1995, kl. 12:25:01 (899)

1995-11-16 12:25:01# 120. lþ. 33.7 fundur 134. mál: #A tryggingagjald# (atvinnutryggingagjald o.fl.) frv., SvG
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur


[12:25]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Ég vil að það komi fram að ég tel það gagnrýni vert hvernig þessi frumvörp fjmrn. sem hér er verið að mæla fyrir eru útbúin, en það fyrsta er nú á dagskrá. Samkvæmt lögum skal greinargerð um fjárhagsleg áhrif fylgja öllum stjórnarfrv. Það eru engin ákvæði um það í lögunum að fjmrn. sé undanþegið þeim lagaákvæðum. Fjmrn. á auðvitað líka að gera grein fyrir því hvaða fjárhagsleg áhrif á stöðu ríkissjóðs, eða annarra sjóða sem verið er að gera tillögu um, viðkomandi frumvörp hafa.

Í greinargerðinni með þessu frv. er í raun og veru ekkert um þessi mál. Í ræðu hæstv. ráðherra komu hins vegar fram ýmis atriði sem skýrðu þessa hluti sæmilega, að ég hygg. Ég vil þó játa að ég náði því ekki í einstökum atriðum hvernig hlutirnir eru settir upp, þannig að ég tel nauðsynlegt að fara fram á það við hæstv. fjmrh. að hann tryggi að greinargerðum þessara skattafrv. fylgi ítarlegar úttektir um fjárhagsleg áhrif málanna, bæði í heild og einstakra greina.

Síðar í dag er á dagskrá frv. til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt sem er allviðamikið frv. Þar eru fjölmörg atriði sem gert er ráð fyrir að breyta, en í raun og veru er engin grein gerð fyrir því hvaða áhrif einstök ákvæði þess frv. hafa, þar eru eingöngu teknar saman heildartölur. Þetta er slæmt og þetta er að einhverju leyti vegna þess að á hraðfara öld tölvunnar er t.d. ekki gert ráð fyrir því að þingmenn reikni nokkurn tíma neitt sjálfir. Menn reikna með því að þeir treysti öllum tölum sem koma ofan úr fjmrn. Yfirleitt er líka ástæða til þess, þær eru yfirleitt ágætar. Veruleikinn er engu að síður sá að svo á að heita að við í þessum sal berum ábyrgð á niðurstöðum þeim sem menn komast að í umræðum um einstök mál. Þess vegna verður að ætlast til þess að þetta sé betur gert af hálfu ráðuneytisins, þannig að hægt sé að skilja málin betur en uppsetningin t.d. á þessu frv. sem hér liggur fyrir leyfir. Það sama gildir líka um frv. um tekjuskatt og eignarskatt sem verður rætt síðar í dag.

Varðandi þetta frv. og uppsetningu málsins að öðru leyti af hálfu hæstv. fjmrh. ætla ég bara að nefna örfá atriði. Í fyrsta lagi finnst mér mjög slæmt að það sé litið þannig á að Atvinnuleysistryggingasjóður eigi skilyrðislaust að standa undir öllum atvinnuleysisbótum og enginn annar beri þar ábyrgð, þannig að ríkissjóður geti jafnvel sagt: Atvinnuleysistryggingasjóður á að taka lán fyrir því sem upp á vantar. Ég tók að vísu eftir því og veit að í síðustu ríkisstjórn varð niðurstaðan sú að ríkissjóður sótti þessa fjármuni og lagði þá fram. Það er því ekki um það að ræða að ríkissjóður líti þannig á að hann hafi lánað Atvinnuleysistryggingasjóði þessa peninga. Það er litið þannig á að þar sé um að ræða óafturkræft framlag. Samkvæmt lögunum um Atvinnuleysistryggingasjóð er það reyndar þannig að ríkissjóður stendur bakábyrgur fyrir Atvinnuleysistryggingasjóði að öllu leyti. En sá hugsunarháttur sem getur komið upp í þessu efni er hins vegar varhugaverður að mínu mati, vegna þess að hann getur orðið til þess að á einhverju stigi segi viðkomandi fjármálaráðherra: ,,Atvinnuleysistryggingasjóður á að standa undir atvinnuleysisbótunum og dugi það ekki til verða bæturnar að lækka.`` Þetta er nákvæmlega sami hugsunarhátturinn og var uppi t.d. í sambandi við Lánasjóð ísl. námsmanna. Í báðum tilvikum er um að ræða sjóði sem styðjast við tilteknar félagslegar forsendur og er beinlínis rangt að gera ráð fyrir því að þessir sjóðir, í þessu tilviki Atvinnuleysistryggingasjóður, sé gerður upp eins og hvert annað fyrirtæki. Þetta vildi ég í fyrsta lagi segja.

Í öðru lagi er bersýnilega verið að hækka hér gjöld, það er verið að hækka skatta frá því sem gert hafði verið ráð fyrir og þau rök tínd til í greinargerðinni með frv. um tekjuskatt og eignarskatt að ríkissjóður þurfi að afla tekna til að standa á móti þeim breytingum sem verða á skattalegri meðferð lífeyrismálanna. Ég ætla út af fyrir sig ekki að ræða það mál hér, heldur síðar í dag, en það er bersýnilegt að það er verið að bæta nokkru við í þessu máli frá því sem var. Það kemur dálítið á óvart að þeir sem harðast gagnrýndu tryggingagjaldið og álagningu þess á sínum tíma skuli núna sumir standa að því að gera tillögur um að breyta því og jafnvel hækka það.

[12:30]

Hitt atriðið sem ég ætlaði að nefna var varðandi lögin um eftirlaun aldraðra. Er það rétt sem ég tók eftir hjá hæstv. fjmrh. að ætlunin sé að fella það niður að Atvinnuleysistryggingasjóður greiði peninga inn í dæmið um eftirlaun aldraðra í stéttarfélögunum? Það munu vera eitthvað í kringum 250 millj. kr. Hvernig stendur þá það mál varðandi uppgjörið á eftirlaunum þess fólks sem hér er um að ræða, en það eru þeir sem ekki áunnu sér lífeyrisréttindi með samningunum um lífeyrismál sem gerðir voru árið 1970? Þetta eru lög um eftirlaun ákveðinna félaga í stéttarfélögum. Við höfum verið lengi að vandræðast með þessi lög og það hefur alltaf verið umdeilanlegt að Atvinnuleysistryggingasjóður stæði undir þessum fjármunum að mínu mati. Þeir hafa verið þannig séð í óreiðu af því að menn hafa ekki komið þessu fyrir, en ég náði því ekki alveg hvernig hugsunin er hjá hæstv. ríkisstjórn að ganga frá þessu máli. Hvenær koma þau fylgifrumvörp sem hæstv. félmrh. mun eiga að flytja vegna þessa máls?