Tryggingagjald

Fimmtudaginn 16. nóvember 1995, kl. 12:54:44 (905)

1995-11-16 12:54:44# 120. lþ. 33.7 fundur 134. mál: #A tryggingagjald# (atvinnutryggingagjald o.fl.) frv., KHG
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur


[12:54]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Það eru bara örfá orð sem mig langar að segja um frv. og aðallega til þess að fá betri upplýsingar um áhrif frv. og einnig betri upplýsingar um hvað í því felst.

Ég tek undir þau gagnrýnisorð sem féllu fyrr í umræðunni um frágang þingskjala af hálfu fjmrn. Mér finnst því þingskjali sem hér er til umræðu vera verulega áfátt hvað það varðar að gefa glögga mynd af því sem felst í frv. og þeim áhrifum sem breytingarnar hafa í för með sér. Ég mælist til þess við hæstv. ráðherra að hann beiti sér fyrir því að úr því verði bætt framvegis af hálfu ráðuneytisins.

Hann hefur að nokkru leyti bætt úr sjálfur eftir að hann lauk framsöguræðu sinni með því að láta mig hafa ljósrit af vinnuskjali frá fjmrn. sem á að lýsa fjárhagslegum áhrifum frv. á næstu árum. Ég styðst að nokkru leyti við það skjal í ræðu minni og þeim spurningum sem ég ber fram við hæstv. ráðherra um efni frv.

Áður en ég vík að beinum spurningum vil ég láta það sjónarmið mitt koma fram að ég tel að 2. efnismgr. 2. gr. frv. sé í raun óþörf. Hún er kannski skaðlaus. Það má sem svo segja að það skipti ekki miklu máli til eða frá hvort þessi texti standi í lögunum en út frá því sjónarmiði að menn eigi að forðast að setja í lög meira en þörf krefur þá finnst mér þessi texti vera óþarfur en textinn er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Fyrir lok október ár hvert skal Atvinnuleysistryggingasjóður gefa fjmrh. skýrslu um fjárhagslega stöðu sjóðsins þar sem gerð verði grein fyrir fyrirsjáanlegum útgjöldum á næsta fjárhagsári með hliðsjón af fyrirliggjandi spá Þjóðhagsstofnunar um atvinnuleysi og öðrum atriðum sem áhrif hafa á fjárhagslega stöðu sjóðsins. Ef niðurstaða skýrslunnar gefur tilefni til að breyta hundraðshluta atvinnutryggingagjalds skal fjmrh. flytja frv. þar að lútandi á Alþingi.``

Þarna er um þrennt að ræða: Í fyrsta lagi fyrirmæli um að Atvinnuleysistryggingasjóður eigi að gefa ráðherra skýrslu. Ég tel enga þörf á því að hafa slík fyrirmæli í lagatexta enda veit ég ekki til þess að nein vandkvæði séu á því að fá slíkar upplýsingar frá stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs og mér þætti vænt um að ráðherrann upplýsti ef svo er að einhver vandkvæði hafi verið á að fá þessar upplýsingar sem leiði til þess að hann leggur til að þetta verði sett í lög.

Í öðru lagi eru fyrirmæli um hvað eigi að vera í skýrslunni sem stjórn sjóðsins á að skila til ráðherra. Í þriðja lagi eru fyrirmæli til ráðherra um að flytja frv. ef niðurstaða skýrslunnar gefur tilefni til að það vanti peninga. Þetta finnst mér líka alveg óþarfi. Ég efast ekki um að fjmrh. muni flytja frv. um breytingu á þessum lögum eða öðrum til að tryggja fjárhagslega stöðu Atvinnuleysistryggingasjóðs ef þörf krefur. Ég ætla hvorki núverandi ráðherra né þeim sem síðar koma að þeir muni láta reka á reiðanum í þessu efni ef ekki verði lagaákvæði sem skylda þá til þess að flytja frv. um þetta efni.

Eins og ég gat um held ég að þetta skipti ekki máli til eða frá. Ég efast um að hlutirnir fari á verri veginn þó að þetta lagaákvæði sé ekki inni og tel raunar óþarft að vera að setja þetta inn. Hins vegar á ég ekki von á því að það breyti miklu þó að þetta verði að lögum. Að öðru leyti er þetta að mínu viti frekar leiðinlegur svipur á lagatexta sem byggir á því að ætla viðkomandi aðilum að gera ekki það sem þarna er kveðið á um og því þurfi lagafyrirmæli til að tryggja framgang bæði upplýsinga og að lögð verði fram frumvörp.

[13:00]

Í öðru lagi vil ég gera að umtalsefni hlut Vinnueftirlits ríkisins í þessu frv. sem reyndar er óbreytt frá gildandi lögum að því er mér sýnist. Mér sýnist að það sé ekki gert ráð fyrir að breyta fyrirkomulaginu varðandi Vinnueftirlitið frá því sem verið hefur undanfarin ár. En sú breyting varð á högum þess að áður fyrr fékk það tekjur af þessu tagi færðar sem sértekjur sinnar stofnunar, en nú er þetta fært yfir ráðuneytið og kemur því í gegnum ríkissjóð. Það hefur leitt til þess að Vinnueftirlitið fær ekki allt það gjald sem því er ætlað samkvæmt þessum lögum, eða 0,08% af gjaldstofni, og það má geta þess að í stjórn Vinnueftirlitsins sitja að jöfnu fulltrúar atvinnurekenda og fulltrúar launþega sem komast að samkomulagi um umfang stofnunarinnar ár hvert og hversu hátt gjaldið þurfi að vera til þess að standa undir því umfangi. Það sem hefur út af brugðið er að eftir að þetta gjald fór að renna til ríkissjóðs hafa áætlanir brugðist, því að ríkissjóður hefur ekki skilað öllu því fé sem Vinnueftirlitið hefur ætlað að stjórn þess fengi, en hún samanstendur að mestu af aðilum vinnumarkaðarins. Ég tel að í þessu tilviki eigi menn að halda það samkomulag sem gert er á milli þessara aðila. Það eru þeir sem eiga að borga þetta þó ríkissjóður sjái um innheimtuna. Ég vil því koma á framfæri athugasemdum varðandi hlut Vinnueftirlits ríkisins í þessu efni á undanförnum árum. Þeir hafa kvartað yfir honum við fjárln. og farið fram á breytingar í þessu efni.

Ég tel að hv. efh.- og viðskn. sem fær þetta til athugunar eigi að kynna sér athugasemdir Vinnueftirlits ríkisins og reyna að ná samkomulagi innan nefndarinnar um að gera þær breytingar sem nauðsynlegar kunna að verða til þess að tryggja stöðu Vinnueftirlitsins. Það þarf hvorki að ræða það né um það að deila að nauðsynlegt er að sú stofnun geti starfað óhindrað að sínum verkum.

Þá vil ég aðeins spyrja út í áhrifin af þessu frv. Ég vil fyrst og fremst reyna að átta mig á því hvernig þetta tryggingagjald verður eftir að frv. er orðið að lögum? Í dag er það þannig að það er gjald í tveimur þrepum, 2,5% af gjaldstofni sem er nánar skilgreindur í lögunum og 6%, þannig að fyrirtæki greiða ýmist 2,5% af launaútgjöldum í tryggingagjald eða 6% og fer að mestu eftir atvinnugreinum. Það sem ég spyr um er hvernig verður þetta eftir að frv. þetta er orðið að lögum? Ég er ekki alveg viss um að ég skilji þetta rétt, en eins og mér sýnist frv. liggja virðist vera gert ráð fyrir að lækka 2,5% niður í 2,05% og 6% niður í 5,35% en taka síðan upp nýtt gjald sem er 1,5%. Þýðir þetta þá að nettó sé hér um að ræða 1,05% hækkun hjá öllum fyrirtækjum? Mér þætti vænt um ef ráðherrann vildi skýra þetta þannig að enginn vafi leiki á því hver áhrif gjaldsins eru á þá sem eiga að borga það, hversu mikil hækkunin er. Ég skil frv. þannig að það sé gert ráð fyrir óbreyttri skiptingu á milli flokka þannig að þau fyrirtæki sem nú hafa greitt 2,5% eigi að greiða lægri flokkinn, eða lægra þrepið, og þau sem nú hafa greitt 6% eigi að greiða hærra gjaldið.

Þá er eitt atriði enn, sem er gildistími laganna. Eftir frv. að dæma virðist vera gert ráð fyrir að hér sé um að ræða breytingu sem gildi ótímabundið, enda segir í athugasemdum við frv. um gildistökugreinina að greinin þarfnist ekki skýringa. Hins vegar eru þær upplýsingar að finna í vinnuskjali sem ráðherra afhenti fyrr á fundinum að hækkun tryggingagjalds um 0,5% skili 900 millj. kr. í auknar tekjur til ríkissjóðs á næsta ári, aðeins 100 millj. á árinu 1997 og ekkert á árinu 1998. Ég tel rétt að hæstv. ráðherra útskýri þetta þar sem það vefst fyrir mér að skilja þessa uppsetningu. Ég tel rétt að ráðherra geri betri grein fyrir áhrifum frv., til að taka af allan vafa, bæði hvað varðar þessa krónutölu sem er veruleg á árinu 1996, engin á árinu 1998 og mun lægri 1997. Það gefur til kynna að ekki sé gert ráð fyrir að hækkunin standi nema á næsta ári.

Í öðru lagi: Af hverju gerir hann eingöngu ráð fyrir 0,5% hækkun og lætur reikna út áhrifin af því, þegar frv. gerir ráð fyrir, eins og ég skil það, að hækkunin verði 1,05%?

Þá held ég að það helsta sé komið sem ég hnaut um og áttaði mig ekki á þegar ég las frv. yfir.

Ég vil svo að lokum spyrja ráðherrann um aðrar tölur á skjali hans, þótt það varði ekki beinlínis frv., en ég hygg að hann hafi ekkert á móti því þó ég spyrji um það, en það eru áhrifin af óbreyttum persónuafslætti. Ég spyr af því að ráðuneytið setur þessi atriði saman og reiknar út heildaráhrifin af þeim þannig að saman eru reiknuð áhrif nokkurra frumvarpa. En áhrifin af óbreyttum persónuafslætti eru á næsta ári talin gefa ríkissjóði 900 millj., 100 millj. á árinu 1997 en ekkert á árinu 1998. Þýðir þetta að það eigi að breyta persónuafslætti á árunum 1997 og 1998?

Þá hef ég komið á framfæri þeim spurningum sem vöknuðu við lestur frv. og var ósvarað þegar ég hafði pælt í gegnum það og gildandi lög. Ég vænti þess að ráðherrann greiði úr þeim spurningum sem ég hef lagt fram.