Bifreiðagjald

Fimmtudaginn 16. nóvember 1995, kl. 13:54:56 (911)

1995-11-16 13:54:56# 120. lþ. 33.10 fundur 137. mál: #A bifreiðagjald# (upphæð gjalds og ákvörðun þess) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur


[13:54]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ræða hv. þm. var reyndar ekki um það mál sem hér er á dagskrá, þ.e. bifreiðagjald, og bifreiðagjald er svokallað kílóagjald. Það hefði kannski verið fremur viðeigandi að ræða þetta þegar til umræðu kæmi vörugjald af bifreiðum. Það breytir hins vegar ekki því að málið er þannig vaxið að full ástæða er til að ræða það.

Það hefur verið rætt í fjmrn. að setja fram skýra stefnu varðandi álögur á bifreiðar og bifreiðanotkun og vinna að allri stefnumótun með bæði Bílgreinasambandinu, Félagi íslenskra bifreiðaeigenda og öðrum þeim sem hafa hagsmuna að gæta. Eitt af því sem hefur verið rætt er að taka upp skráningargjöld í stað vörugjalds en það er vitað að vörugjaldið, sem miðað er við vélarstærð, stýrir yfirleitt innkaupum á neyslugrönnum bifreiðum. Þær bifreiðar eru oftast síður búnar öryggistækjum en hinar og eru í eðli sínu léttari og þess vegna hættulegri. Þetta er einn þáttur málsins. Hinn þátturinn snýr að svokölluðum öryggistækjum eins og t.d. ABS-bremstutækni og svokölluðum líknarbelgjum. Það er rétt hjá hv. þm. að í nágrannalöndunum hefur verið veittur sérstakur afsláttur vegna bifreiða með slíkum útbúnaði. Um það hefur líka verið fjallað í því starfi sem nú fer fram.

Þetta hefur nokkuð verið í umræðu núna, ekki síst vegna afmælis Bílgreinasambandsins þar sem forustumenn þess hafa minnst á þetta mál, en einnig vegna þess að framkvæmdastjóri Umferðarráðs ræddi þetta mál á sínum tíma. Ég vil að þetta komi fram við umræðuna, en því miður get ég ekki gefið fyllri upplýsingar almennt um forvarnir á vegum ríkisstjórnarinnar enda heyra þær að mestum hluta til undir önnur ráðuneyti.