Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 16. nóvember 1995, kl. 14:27:15 (914)

1995-11-16 14:27:15# 120. lþ. 33.11 fundur 147. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjárhæðir, sérstakur tekjuskattur, frádráttur lífeyrisþega o.fl.) frv., JBH
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur


[14:27]

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Tilefni þess að hæstv. fjmrh. flytur frv. til laga um breytingar á lögum um tekju- og eignarskatt er sú ákvörðun fyrri ríkisstjórnar í tengslum við kjarasamninga að lögfesta á fyrra þingi skattfrádrátt vegna lífeyrisiðgjalda launþega. Tekjutap ríkissjóðs af þessu tilefni er um 1.600 millj. kr. á tilteknu árabili eins og fram kom í ræðu hæstv. ráðherra þannig að tilefnið er beinlínis það að bæta ríkissjóði upp þetta tekjutap. Það er gert með því að hækka tryggingagjald á fyrirtæki, sem rætt var fyrr í dag sem skilar ríkissjóði um milljarði í tekjur, og í annan stað með því að spara ríkissjóði útgjöld vegna afsláttar og bótafjárhæða. Það er gert með því að afnema sjálfvirka verðuppfærslu þessara greiðslna. Þessi sparnaður er brúttó um 1 milljarður ef ég skil málið rétt en þar á móti koma síðan breytingar á barnabótaaukanum þannig að tekjutenging hans er ekki eins brött og áður var þannig að þar er hálfur milljarður sem vegur upp á móti. Tilefnið er tekjutap sem mætt er með þessum tiltölulega einföldu úrræðum.

Oft hafa menn á orði að Alþingi Íslendinga geri of mikið af því að fikta við skattkerfið. Undan því er kvartað að það sé gert, í fyrsta lagi allt of oft, allt of handahófskennt, og framkvæmdin oft á síðustu stundu, lítt undirbúin og þeir sem við eigi að búa verði fyrir óþægindum af þeim sökum að breytingarnar eru fyrirvaralitlar. Sjálfsagt er það skynsamlegt að breytingar á skattalöggjöfinni, sem allur þorri þjóðfélagsþegnanna á að búa við, eigi að gera sjaldan, eigi að gera út frá heildarsýn og það eigi að vera ein grundvallarregla að menn eigi að vita með nokkrum fyrirvara og nokkuð langt fram í tímann við hvers konar skattumhverfi þeir búa. Því miður hefur ekki tekist að halda sig við þessar grundvallarreglur á undanförnum árum og þetta er enn eitt dæmið um að það tekst lítt í framkvæmd.

[14:30]

Þetta er með öðrum orðum dæmigert skattafikt. Ástæða er til þess að spyrja sjálfan sig af þessu tilefni hvað það er fyrst og fremst sem þarfnast breytinga ef við lítum á íslenska skattkerfið eins og það er í dag. Tekur þetta frv. á þeim breytingum í einhverjum aðalatriðum? Lýsir frv. einhverjum metnaði hæstv. fjmrh. til þess? Það er ástæða til þess að spyrja hæstv. fjmrh. að því sérstaklega vegna þess að hann er einn þeirra sem setið hefur hvað lengst á stóli fjmrh. á undanförnum árum og áratugum og hefur því haft góðan tíma til þess að afla sér yfirsýnar yfir vandamál skattkerfisins í heild og hefur haft góðan tíma til þess að undirbúa á löngum tíma heildstæðar breytingar.

Það er líka ástæða til að spyrja: Hvaða mál voru það í aðdraganda seinustu kosninga sem mönnum bar helst saman um að þyrfti að breyta? Til þess að svara spurningunum fyrir mig nefni ég eftirfarandi þætti: Fyrir kosningar sögðu því sem næst allir talsmenn stjórnmálaflokka, sem buðu fram, að afleiðingar af tekjutengingum og skerðingum bótagreiðslna væru orðnar slíkar að jaðarskatturinn í íslenska tekjuskattskerfinu væri orðinn allt of hár, allt of tilviljanakenndur og kæmi niður með allt of ósanngjörnum hætti. Menn nefndu einstök dæmi um það að af hverri viðbótarkrónu, sem launþegi aflaði sér, færu 60--80 aurar í skatta. Menn sögðu með öðrum orðum: Hvað sem fyrir mönnum hefur vakað á þrengingartímum á undanförnum árum með þessum breytingum er heildarniðurstaðan sú að hópar launþega hafa orðið fyrir illbærilegu ranglæti af þessum sökum. Sérstaklega á þetta við t.d. um tiltekna hópa lífeyrisþega.

Þar fyrir utan bentu menn á að íslenska launakerfið er með þeim hætti að taxtalaun og laun fyrir dagvinnutíma eru lág og launþegar bæta sér þetta upp með yfirvinnu, með löngum vinnudegi, með því að hver fjölskylda hefur fleiri en eina fyrirvinnu o.s.frv. Þeir hópar fólks sem eru í þungri eða erfiðri skuldastöðu reyna að vinna sig út úr skuldastöðunni eða afla sér aukinna tekna en lenda þá í refsisköttum sem háir jaðarskattar eru sannarlega. Einmitt vegna þess að launin eru lág er kerfið mjög vinnuletjandi. Þegar svo er komið að lægstu laun eru á svipuðum nótum eða litlu hærri en einföldustu bótagreiðslur atvinnuleysisbóta o.s.frv. kemst margur maðurinn, sem á annað borð hefur einhverja yfirsýn yfir kerfið, að þeirri niðurstöðu að það borgar sig ekki að vinna. Það borgar sig ekki að freista þess að leggja á sig meiri vinnu til þess að losna út úr skuldafjötrum vegna þess að skattkerfið refsar mönnum fyrir sjálfsbjargarviðleitnina.

Ég rifja þetta upp vegna þess að öllum bar saman um, talsmönnum stjórnarflokkanna sem viðurkenndu að þetta væri gagnrýnivert og talsmönnum stjórnarandstöðunnar, ekki hvað síst talsmönnum Framsfl. sem töluðu hæst í þessu máli sem öðrum og lofuðu mestu, að brýnast væri að lagfæra þetta, að draga úr vinnuletjandi og skaðlegum áhrifum allt of hárra jaðarskatta.

Ég sagði áðan að mér þætti þetta mál bera vott um lítinn metnað hins reynda fjmrh. Hvers vegna er ekki tekið á þessum málum? Hvernig stendur á því að stjórnarflokkarnir sýna mjög litla viðleitni til þess að taka á málinu? Hvers vegna segja þeir að þeir ætli að hafa þetta mál í nefnd út næsta ár og gera ekki ráð fyrir því að taka á þessu máli fyrr en árið 1997? Er það í samræmi við það sem sagt var fyrir kosningar? Er það í samræmi við það sem mönnum ber almennt saman um að sé brýnast að taka á í breytingaskyni í skattkerfinu? Nei, það er það ekki.

Hvaða annað mál hafa menn nefnt á undanförnum árum sem stærstu eyðuna í íslenska skattkerfinu sem þurfi að taka á? Það er spurningin um samræmda skattlagningu allra tekna án tillits til þess hver er uppruni teknanna, þ.e. stóra gatið í íslenska skattkerfinu hefur verið að tekjur af fjármagnseign hafa verið skattfrjálsar á sama tíma og tekjur af vinnuframlagi hafa verið skattlagðar og hafa hækkað í skattlagningu og bera síhækkandi jaðarskatta.

Sagan um aðdragandann að fjármagnstekjuskatti er orðin löng. Það liggja fyrir miklar skýrslur, það liggur fyrir mikil vinna, það liggja fyrir tillögur, það liggja fyrir skilgreiningar á leiðum en enn kom fram í máli hæstv. fjmrh. að málið væri í nefnd. Þessi nefnd eins og reyndar fyrri nefndir er komin langleiðina að niðurstöðu en samt sem áður sagði hæstv. fjmrh.: Það stendur samt sem áður ekki til, það er ekki hægt að gera sér vonir um að ríkisstjórnin flytji frv. um útfærslu á fjármagnstekjuskatti fyrr en síðla næsta árs eða jafnvel um næstu áramót. Með öðrum orðum er niðurstaðan sú að tvö stærstu málin sem sérfróðum mönnum ber saman um að brýnast sé að taka á, tvö stærstu málin sem stjórnmálamenn gáfu mest fyrirheit um fyrir kosningar, eru látin liggja í láginni. Þau bíða hversu brýn sem þau voru fyrir kosningar. Í staðinn láta menn sér nægja skattafikt.

Ég harma þessa niðurstöðu. Mér þykir það mjög miður og ég legg á það áherslu að þetta er ekki aðeins spurning um einhver tæknileg vandamál. Alveg eins og ég hef vitnað til þess sem menn sögðu fyrir kosningar er líka ástæða til þess að setja þetta í samhengi við það sem hefur verið efst á baugi eftir kosningar. Hvað hafa menn sagt á undanförnum mánuðum sem varðar t.d. skattamál eða stefnu í ríkisfjármálum eða yfirleitt stefnu stjórnvalda og svo það sem menn vilja sækjast eftir, einhvers konar þjóðarsátt um kjör í þessu landi? Menn hafa kvartað undan því að yfirlýst áform í seinustu kjarasamningum hafi ekki náð fram að ganga. Þar var því lýst yfir að leggja ætti höfuðáherslu á að lyfta lægstu launum. Það hafi verið gert í almennu kjarasamningunum frá því í febrúar en síðan hafi það ekki tekist í þeim kjarasamningum sem fóru á eftir hjá einstökum starfshópum, bæði á almenna vinnumarkaðnum og eins í hinum opinbera geira. Þetta hefur sem kunnugt er valdið ákveðinni sprengingu og aðilar vinnumarkaðarins hafa óskað eftir viðræðum við stjórnvöld um tilteknar aðgerðir til þess að fá almenning til að sætta sig með einum eða öðrum hætti fremur við þá stöðu sem ríkir í kjaramálum.

Menn tala um vaxandi launamismun. Menn tala um vaxandi mismun eigna og tekna í þjóðfélaginu, jafnvel að þetta hafi gerst í andstöðu við yfirlýst stefnumarkmið og hvað sé til ráða. Lýsir frv. því, þetta er skattaframlag núv. hæstv. fjmrh. og ríkisstjórnar, einhverjum vilja eða metnaði til þess að taka á slíkum málum? Það verður ekki séð þannig að það er alveg sama hvort við rifjum það upp sem var sagt fyrir kosningar eða hvort við spyrjum um það hvað það er sem menn ætlast til af stjórnvöldum nú til þess að lægja öldur að því er varðar stöðu kjaramála og samanburðarfræða um afkomuhorfur einstakra starfshópa og stétta. Þess sjást ekki merki að þessi hæstv. ríkisstjórn hafi til að bera nokkurt frumkvæði, nokkra heildarsýn eða nokkurn metnað um að láta til sín taka með marktækum hætti til þess að koma fram umbótum.

Við höfum fyrr á þessum degi verið að ræða um ríkisreikninga. Á það hefur verið bent, m.a. í ágætri ræðu hv. þm. Péturs Blöndals, að þar erum við að ræða um sýndartölur, þ.e. ríkisreikningur virðist yfirleitt skila tvöfalt hærri niðurstöðu um hallarekstur en lagt var með í upphafi áforma fjárlagafrv. Við höfum rætt skýringar á því en vitum þó jafnframt að staða ríkisfjármála er í raun verri en fram hefur komið í reikningunum vegna þess að það er hægt að tíunda miklar skuldbindingar sem hvíla á ríkissjóði sem koma ekki enn fram í ríkisreikningum.

Flestir eru farnir að viðurkenna staðreyndir um samhengi milli sívaxandi skuldasöfnunar ríkissjóðs, hallareksturs ríkissjóðs, erlendrar skuldasöfnunar og greiðslubyrðar skulda. Þetta hefur samverkandi áhrif á vaxtastig í landinu, fjármagnskostnaðinn og reyndar einnig framlög til velferðarmála og hefur þar af leiðandi bein áhrif á kjör almennings í landinu, bæði nú og í framtíðinni.

Ef hér sæti að völdum raunveruleg umbótastjórn, sem vildi beita úrræðum ríkisfjármála og beita tækjum skattalaga til þess að hafa áhrif á stöðu mála, t.d. í þá átt að auka réttlæti í skattkerfinu eða auka jöfnuð í þjóðfélaginu eða skapa sátt í þjóðfélaginu um kjaramál, þá héldi hún öðruvísi á málum. Þá mundi maður væntanlega búast við því að fjmrh. sýndi meiri metnað í því að leggja fram tillögur fyrir Alþingi Íslendinga um að draga saman í ríkisútgjöldum, þ.e. kæmu fram með sparnaðartillögur í rekstri ríkisins t.d. af því tagi sem flokksmenn hans hafa verið að viðra utan Alþingis en við sem þekkjum til í þingflokki Sjálfstfl. vitum að hefur lítinn stuðning í þingflokki hans þegar á reynir.

Ef hæstv. fjmrh. vildi stuðla að aukinni sátt, ekki bara við aðila vinnumarkaðarins heldur í þjóðfélaginu um skattkerfið, hefði hann notað undirbúningstímann í sumar til þess að knýja á um það að hér lægi fyrir frv. um útfærslu á fjármagnstekjuskatti út frá því réttlætissjónarmiði að tekjur af fjármunalegum eignum, að arður af hlutabréfum, að ávöxtun af spariskírteinum eða öðrum verðbréfum kæmi líka til skattlagningar eftir almennum samræmdum reglum eins og aðrar tekjur í þjóðfélaginu. Ef hæstv. fjmrh. og hæstv. ríkisstjórn vildi jafnframt fylgja þessu eftir mundu þeir ekki slá á frest endurskoðun tekjutengingar með þeim afleiðingum í jaðarsköttum sem ég hef verið að reifa heldur taka á þeim málum hér og nú á þessu hausti. Ef hæstv. ríkisstjórn hefði einhvern metnað til að bera og einhverja heildarsýn í þessum málum mundi hún líka leggja fram tillögur um að gera virk ákvæði fiskveiðistjórnunarlaganna um að einokunaraðilar sem fá til ráðstöfunar veiðiréttinn innan fiskveiðilögsögunnar greiði eðlilegt afgjald eða leigugjald fyrir þær veiðiheimildir. Ef hér væri ríkisstjórn, raunveruleg umbótastjórn, og fjmrh. með mikinn starfsmetnað mundi slík ríkisstjórn leggja fram þessi mál. Þar með væri umræðan í þjóðfélaginu komin á allt annan grundvöll vegna þess að þá væri ríkisstjórnin að sýna fram á það í verki að hún væri tilbúin til þess að beita stjórntækjum sínum til þess að ná yfirlýstum markmiðum og aukinni sátt í þjóðfélaginu, aukinni sátt um aukinn jöfnuð að því er varðar tekjumyndunina, sátt um að skattkerfið væri byggt á grundvallarreglum um réttlæti og sanngirni að því er varðar skattlagningu á tekjum burt séð frá því hvernig þeirra er aflað. Hún gæti stigið fyrstu skrefin í þá átt að draga úr jaðarsköttum, jafnvel lækka tekjuskattsprósentuna og jafnvel lækka heildarprósentuna í virðisaukaskattinum, sér í lagi ef hún hefði döngun til þess að fylgja fram því sem ber að gera sem er að breikka þann skattstofn sem forsendu fyrir lækkaðri prósentu.

Ef hér væri við völd umbótastjórn hefði hún að sjálfsögðu ekki látið það henda sig að framkvæma GATT-skuldbindingarnar með þeim hætti að svipta þjóðina nokkurri von um það að á sex ára aðlögunartímabili gæti orðið um að ræða einhverja samkeppni að því er varðaði innflutning og framleiðslu á matvælum og stuðla þannig að því að matvælaverð og verðlag á lífsnauðsynjum gæti farið lækkandi á kjörtímabilinu. Umbótastjórn af því tagi mundi að sjálfsögðu heldur ekki hafa gert búvörusamning með þeim hætti sem hæstv. ríkisstjórn hefur gert. Hún hefði að sjálfsögðu horfst í augu við staðreyndir og ákveðið þar af leiðandi að aftengja beingreiðslur til bænda framleiðsluréttinum, dregið þannig úr framleiðsluhvatanum, varið hluta af þeim greiðslum til þess að gera bændum sem vildu hætta búskap og búa á jörðum, sem geta ekki staðið undir fjölskylduframfærslu, kost á því að hætta búskap án þess að ganga slyppir og snauðir frá eignum sínum. Með öllum slíkum aðgerðum hefði slík ríkisstjórn sent skilaboð út í þjóðfélagið um að hún vildi gera það sem í hennar valdi stæði til þess að skapa aukna sátt um skiptingu lífsgæðanna í þjóðfélaginu, aukið réttlæti í skattlagningunni og að leggja traustari grundvöll að nýrri framfarasókn.

Því miður er þetta ekki gert. Um sumt af þessu sem ég hef nefnt er auðvitað hægt að segja: Þess var varla að vænta af Framsókn og Sjálfstfl. að þeir kæmu fram með slík mál enda skuldbundu þeir sig ekki til þess fyrir kosningar. Þessir flokkar hafa ekki skuldbundið sig til þess að taka upp veiðileyfagjald að því er varðar ókeypis afhendingu á nýtingu auðlindarinnar til fáeinna einokunaraðila. Það hafa þeir ekki gert. En sumt af þessu hafa þeir hins vegar skuldbundið sig til að gera en slá á frest. Því var yfirlýst af fyrrv. ríkisstjórn í tengslum við kjarasamninga á fyrra kjörtímabili að fjármagnstekjuskattur skyldi koma til framkvæmda um næstu áramót og það var leitað eftir samkomulagi milli þáv. stjórnarflokka og þáv. stjórnarandstöðu og aðila vinnumarkaðarins í tæka tíð til þess að það var vel gerlegt. Í ljósi þess að mikil vinna hafði verið lögð í útfærslu á fjármagnstekjuskatti í tíð fyrri ríkisstjórnar var þetta vel gerlegt, sér í lagi undir verkstjórn fjmrh. sem hefur nú setið á fimmta ár á sínum stól og hefur haft nægan tíma til þess að undirbúa slíkt mál sem er meira en verður kannski sagt um suma forvera hans. Hæstv. fjmrh. er einn af þeim sem bæði fyrir kosningar og síðar hafa tekið undir að það sé komið í hreint óefni að því er varðar hina háu jaðarskatta og það hversu vinnuletjandi þeir eru.

Ég verð því, virðulegi forseti, einfaldlega í tilefni af 1. umr. um þessi mál, að lýsa því yfir að ég hef orðið fyrir vonbrigðum með þetta mikla metnaðarleysi, með þennan skort á heildarsýn, með þennan dauflega eða takmarkaða vilja til þess að koma fram umbótum sem flestum mönnum ber saman um að sé knýjandi nauðsyn ef menn vilja raunverulega beita sér fyrir umbótum í þessu þjóðfélagi.