Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 16. nóvember 1995, kl. 14:57:26 (919)

1995-11-16 14:57:26# 120. lþ. 33.11 fundur 147. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjárhæðir, sérstakur tekjuskattur, frádráttur lífeyrisþega o.fl.) frv., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur


[14:57]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breyting á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Ég fagna því hversu snemma þetta frv. kemur fram á þessu þingi miðað við fyrri ár. Þann tíma sem ég hef setið hér höfum við mátt búa við það að stór skattafrumvörp hafa komið fram þegar vika er liðin af desember eða svo, jafnvel síðar og þingið hefur verið í algerum spreng við að reyna að afgreiða þessi mál fyrir jól og hafa stundum dregist til daganna milli jóla og nýárs. Mér þykja það góð tíðindi að þetta frv. skuli koma svona snemma og vona að við eigum eftir að sjá slík vinnubrögð áfram. Skýringin á þessu kann að vera sú að oft hafa verið boðuð meiri tíðindi í skattafrumvörpum ríkisstjórnarinnar en núna. Þó er ýmislegt hér á ferð sem vert er að skoða mjög rækilega og þegar hafa komið sterk viðbrögð úti í samfélaginu varðandi einstök atriði sem ég mun koma að síðar.

Maður spyr sig auðvitað spurningarinnar: Hver er skattastefna þessarar ríkisstjórnar? Hvað ætlar hún sér að gera á því tímabili sem fram undan er? Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstfl. og Framsfl. segir, með leyfi forseta: ,,Eitt af meginmarkmiðum ríkisstjórnarinnar er að ná jafnvægi í ríkisfjármálum á kjörtímabilinu.``

Hér er ekki tekið sterkara til orða en svo að talað er um kjörtímabilið. Hins vegar hefur hæstv. fjmrh. lýst því yfir í fjárlagafrv. fyrir árið 1996 að hann ætli sér að ná þessu jafnvægi á tveimur árum. Hann gerði það nákvæmlega sama í upphafi síðasta kjörtímabils og fór heldur úr böndunum þannig að menn ættu að fara varlega í svo stórar yfirlýsingar. Hér segir jafnframt á bls. 2: ,,Áhersla verður lögð á ráðdeild og að treysta stoðir velferðarinnar. Í þeim tilgangi er brýnt að stöðva sjálfvirkni í útgjöldum ríkissjóðs.`` Það má segja að með þessari yfirlýsingu hafi það komið fram sem kemur fram í þessu skattafrv. þar sem verið er að afnema það sem kallað er sjálfvirkni í skattkerfinu og er kannski umdeildasta atriði þessa frv.

[15:00]

Þetta með ráðdeildina er aftur umdeilanlegra. Eftir að hafa setið í allan gærmorgun á fundi í hv. landbn. þar sem verið var fara yfir frv. til laga um breytingu á búvörulögum og margnefndan búvörusamning, þá finnst manni ekki mikil ráðdeild eða skynsemi í þessum ríkisrekstri. Það mál allt er þannig vaxið að ég held að það væri réttast að henda því öllu út af borðinu og byrja upp á nýtt. En það er ekki málefni þessa fundar, heldur kemur það upp síðar.

Síðar í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir að það sé eitt af meginmarkmiðunum að taka upp samstarf við aðila vinnumarkaðarins um endurskoðun á skattkerfinu með það að markmiði að draga úr skattsvikum, lækka jaðarskatta, einfalda skattkerfið og auka jafnræði innan þess. Með skattívilnunum verður almenningur hvattur til að leggja áhættufé í atvinnufyrirtæki. Undirbúningi þessara skattbreytinga verður lokið á árinu 1996. Skattalegt umhverfi fyrirtækja verður eins og best gerist í samkeppnislöndum þannig að ekki þurfi að gera sérsamninga við erlend fyrirtæki um skattafslátt svo þau fáist til að starfa hér á landi.

Það kom fram í máli hæstv. fjmrh. að undirbúningur að lagabreytingum er ekki hafinn, ef ég skildi hann rétt. Ætlunin er að setja nefnd á laggir með aðild þingflokka, aðila vinnumarkaðarins o.fl. Sannleikurinn er sá að þegar maður fer yfir öll þessi skattamál er ákaflega brýnt að fara yfir skattkerfið í heild og það bótakerfi sem hér er við lýði. Þá þarf ekki síst að skoða hvernig og á hverjum skattar lenda og það er ákaflega merkileg staðreynd og umhugsunarverð að það skuli aðeins vera þriðjungur landsmanna sem greiðir skatta og stendur þar með undir... (Gripið fram í: Beinu skattana.) Beinu skattana, það er rétt. (Gripið fram í: ... framteljenda.) Framteljenda. Það er eins gott að rétt sé rétt, þriðjungur framteljenda greiðir skatta. Það gefur auðvitað auga leið að það eru ekki allir landsmenn sem eru komnir á þann aldur að þurfa að greiða skatta, þannig að ég biðst afsökunar á að hafa farið rangt með. Þriðjungur framteljenda greiðir skatta og maður spyr auðvitað: Hvað um hina? Hvað um þann stóra hóp sem ekki greiðir skatta? Þar koma bætur sterkt inn í, en einnig það fólk sem er fyrir neðan skattleysismörk. Við spyrjum um skattsvikin og hvernig á þeim er tekið og um margnefnd loforð um að taka á því neðanjarðarhagkerfi sem hér er við lýði.

Það hefur verið haft á orði á undanförnum árum að skattlagning hér á á landi sé komin út á ystu nöf. Ég hef sjálf orðað slíkt í þessum ræðustól, en þar á ég fyrst og fremst við það að skattar bitna á ákveðnum hópi landsmanna, þ.e. það er millitekjuhópurinn sem stendur að mestu leyti undir allri skattlagningu. En þegar fjárlagafrv. er skoðað kemur fram á bls. 269, þar sem verið er að bera saman skattbyrði í aðildarríkjum OECD, að Ísland er þar langt fyrir neðan öll meðaltöl, sama hvaða tölur eru þar skoðaðar. Ef ég tek árið 1994, sem eru nýjustu tölurnar, kemur fram að meðaltalsskattbyrði í öllum OECD-ríkjunum er 38,9%, hjá Evrópuríkjunum 40,7%, hjá aðildarríkjum Evrópusambandsins 41,7% en á Íslandi er skattbyrðin 31,1%. Og ég hlýt að gefa mér það að hér sé um sambærilegar tölur að ræða. (JBH: Áreiðanlega ekki.) Áreiðanlega ekki, segir hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson. (Gripið fram í.) Ég veit að það er oft mjög mismunandi hvað er verið að bera saman. En það væri fróðlegt að fá skýringar á því. Ef þessar tölur eru réttar gætu þær gefið til kynna að hér væru meiri möguleikar til skattlagningar og væri fróðlegt að heyra álit hæstv. fjmrh. á því. Þetta vekur a.m.k. ákveðnar spurningar um skattbyrði, hversu eðlileg hún er og á hverjum hún bitnar. Og auðvitað kemur skattlagning fyrirtækja líka inn í þetta.

Það er líka afar athyglisvert að skoða töfluna á bls. 270 í fjárlagafrv. þar sem verið er að greina í sundur tekjuskatta einstaklinga og fyrirtækja. Þar kemur einmitt fram hvernig þetta virkar í raun, hver brúttóstaðgreiðsla í kerfinu er, en samkvæmt frv. er gert ráð fyrir að hún verði 45,9 milljarðar á næsta ári. Þar af fara rúmir 20 milljarðar til sveitarfélaganna, 1,5 milljarðar er sóknar- og kirkjugarðsgjöld en síðan koma bætur sem koma hér nokkuð við sögu í þessu frv., þ.e. barnabætur og barnabótaauki sem eru rúmir 5,3 milljarðar og vaxtabætur sem eru 3,3 milljarðar. Þetta eru verulegar upphæðir og það vekur einmitt upp þá spurningu sem ég nefndi áðan, hvort það er ekki brýn ástæða til þess að endurskoða skattkerfið og bótakerfið og hvort það væri þá ekki nær að byrja á þeim enda fremur en að afnema þá sjálfvirkni sem hér er nefnd, en í þessum 1. áfanga mun það fyrst og fremst bitna á fötluðum og öldruðum. Það eru þeir hópar sem hafa fyrst og fremst haft samband við okkur þingmenn og beðist vægðar, þeir biðja um að þessu verði ekki hrint í framkvæmd. Og ég spyr: Er ekki verið að byrja á öfugum enda?

Hvað t.d. um margnefndan sjómannaafslátt? Ég minnist þess reyndar að fyrir svo sem 2--3 árum lögðumst við í stjórnarandstöðunni í mikinn víking til að verja sjómannaafsláttinn. En það var fyrst og fremst vegna þess að þar var um einhliða árás ríkisstjórnarinnar að ræða, þetta er samningsbundið atriði. En þegar við erum komin að því að skerða bætur aldraðra og fatlaðra, þ.e. bætur þeirra hækka ekki í samræmi við launahækkanir annarra, þá spyr ég: Hvað um ýmsa aðra hópa? Hvað t.d. um sjómannaafsláttinn? Er það réttlætanlegt að ríkið greiði niður launakostnað útgerðarinnar með þessum hætti?

Hæstv. forseti. Það eru ýmis atriði í þessu frv. sem ástæða er til að nefna sérstaklega og þar kem ég fyrst að tvísköttun á lífeyri. Þegar það var til umfjöllunar að veita lífeyrisþegum 15% afslátt --- hvernig er það nú orðað --- af skattlagningu á lífeyri, þá var sú aðferð gagnrýnd mjög harðlega af aðilum vinnumarkaðarins og ýmsum öðrum sem að málinu komu og bentu á að þarna væri um aðferð að ræða sem mundi kosta ríkissjóð gífurlegt fé í framtíðinni. Það væri þá miklu nær að taka á málinu frá hinum endanum, þ.e. hjá launafólki sem greiðir í lífeyrissjóði, enda var samið um það í næstu kjarasamningum. Hér er því verið að draga þessa ívilnun til lífeyrisþega til baka. Það á að gera í tveimur áföngum og auðvitað kostar þetta ákveðna kjaraskerðingu meðal lífeyrisþega. Þar við bætist, eins og hér hefur komið fram, afnám sjálfvirkni í skattkerfinu þannig að ég fæ ekki betur séð en lífeyrisþegar séu sá hópur sem verst verður fyrir barðinu á ríkisstjórninni að þessu sinni. Þess vegna hefði verið nær að hlusta á þau rök sem fram komu á sínum tíma og fara þá strax út í það að afnema tvísköttun á lífeyri hjá launafólki.

Það kemur fram í frv. að það að hætta tvísköttun á lífeyri kostar ríkissjóð hvorki meira né minna en 1.600 millj. kr. og því er í rauninni náð upp með tvennum hætti, annars vegar með því að lækka afslátt lífeyrisþega og hins vegar er afnám sjálfvirkni reiknað inn í skattleysismörkin. Þetta stóra atriði, afnám sjálfvirkninnar í skattkerfinu, er kannski langstærsta atriðið í þessu frv. Ég get í sjálfu sér verið sammála því út frá hagfræðilegu sjónarmiði, þessi sjálfvirkni er afar óskynsamleg og oft ástæðulaus eins og við höfum kynnst á ýmsum sviðum í okkar samfélagi. En mér finnst mjög svo gagnrýnivert hvernig hér er staðið að málum og þess vegna geri ég alla fyrirvara við þetta sérstaka atriði.

Til þess að mæta afnámi sjálfvirkni er reiknað með því að hækka barnabótaauka um 500 millj. kr. á næsta ári sem kemur barnafólki best og er í sjálfu sér góðra gjalda vert. En við verðum auðvitað að hafa það með í myndinni hvaða hópar það eru sem standa verst að vígi. Þess vegna vil ég sjá úttekt á því hvað þessar breytingar þýða fyrir öryrkja og aldraða. Hér er verið að lögfesta þær upphæðir, ef ég hef skilið þetta rétt, sem greiddar eru á þessu ári. Hækkanir og breytingar sem verða á árinu 1996 verða þá ekki lagfærðar fyrr en eftir á. Er þetta ekki rétt skilið hjá mér, hæstv. fjmrh.? Vonandi verða ekki miklar breytingar á milli ára, en það er t.d. gert ráð fyrir 3% launahækkun um næstu áramót. Hún skilar sér þá ekki, ef hún skilar sér yfirleitt, til öryrkja og aldraðra fyrr en löngu síðar. Mín meginniðurstaða er því sú að hér er fyrst og fremst verið að vega að öldruðum og öryrkjum og það finnst mér ekki góð stefna.

Það er ekki allt vont í þessu frv. Ég vil að sjálfsögðu taka undir að það er rétt að halda áfram með 5% hátekjuskatt. Hann skilar í rauninni ótrúlega litlu, eða aðeins 300 millj. kr. En miðað við allar aðstæður finnst mér fullkomlega réttlætanlegt að halda þeim skatti við.

Ég vil líka taka undir það sem kom hér fram varðandi skuldajöfnun. Mér var einmitt sagt frá dæmi fyrir nokkrum dögum um það að ungur piltur, framhaldsskólanemi hér í borg, hafi í haust fengið bréf frá skattinum um lögtak vegna 29 kr. sem hann af einhverjum ástæðum hafði ekki staðið skil á. Þetta kostaði móður hans ferð niður í Gjaldheimtu og auðvitað hefur sendingarkostnaðurinn og útprentunin verið miklu meiri en nam þessum 29 kr. Það er alveg fáránlegt að standa í svona innheimtuaðgerðum. Það hlýtur að mega finna betri leiðir hvað það varðar.

Hæstv. forseti. Í athugasemdum varðandi lagafrv. kemur fram að það eru fyrst og fremst fjögur atriði sem bent er á sem stærstu breytingar í skattamálum á þessu haustþingi. Þar er fyrst að nefna það sem snýr að afnámi tvísköttunar á lífeyri í samræmi við kjarasamninga. Síðan er það afnám sjálfvirkninnar og þau atriði sem rædd voru fyrr í dag varðandi hækkun tryggingagjalds. Mér segir svo hugur um að vinnuveitendur eigi eftir að bregðast við því af nokkurri hörku. Síðan er nefnt atriði sem er reyndar ekki nýtt og við höfum reyndar séð ár eftir ár, loforð um að taka upp fjármagnstekjuskatt á næsta ári. Ég verð að segja, hæstv. forseti, að ég ætla að bíða og sjá hvað setur hvað það mál varðar. Það tókst aldrei að koma því í gegn, málið var teygt og togað alveg ótrúlega á síðasta kjörtímabili svo ég veit ekki hversu mikið mark á að taka á fyrirheitum af þessu tagi. En vissulega er þetta skattur sem einhvern veginn þarf að koma á á samræmdan hátt með einhverjum hætti og fróðlegt verður að sjá hvaða tillögur koma endanlega frá þeirri nefnd sem er að vinna í þessu máli.

[15:15]

Hæstv. forseti. Ég vil að lokum hvetja til þess að menn fari út í það í mikilli alvöru að endurskoða skattkerfið og sérstaklega út frá þeim jaðarskattsáhrifum sem núverandi kerfi hefur og kemur mjög illa við allstóran hóp þjóðfélagsþegna. Maður spyr sig hvort ekki sé veruleg ástæða til þess að endurskoða allt bótakerfið, bæði barnabætur og vaxtabætur. Ég hef nefnt það fyrr í umræðum að ég hef heyrt vellaunað fólk tala um það hvers vegna í ósköpunum sé verið að senda því örlitlar barnabætur tvisvar eða þrisvar á ári meðan verið er að skerða á öðrum sviðum og þetta er náttúrlega upphæð sem safnast þegar saman kemur. Við þurfum að skoða prinsippin í þessu öllu saman, vega og meta það hvernig og hverja er rétt að skattleggja og síðast en ekki síst að taka á því neðanjarðarkerfi sem þrífst hér og virðist vera óendanlega erfitt að ná einhverjum tökum á enda held ég því miður að það skorti viljann til þess.